18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (4022)

89. mál, stríðsskaðabætur af hálfu Þjóðverja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Ég get ekki svarað þessu frekar en ég gerði. Það er ekki á valdi Landsbankans að telja þetta til erlendrar skuldar, heldur er þetta fé í vörzlu ríkisstj. eins og sakir standa og ráðstöfunarvaldi hennar, en af hálfu utanrrn. þótti það óvarlegt að ráðstafa þessu alveg strax, en rétt að bíða og athuga, hvort nokkrar kröfur kæmu frá einstaklingum þeim, sem átt höfðu féð, en þær hafa ekki komið fram, nema frá þessum eina manni, sem ég gat um áðan, en sú krafa er nú niður fallin. En nú tel ég það hins vegar tímabært, að þetta fé sé tekið til ráðstöfunar, og finnst það eðlilegt, að það renni til þeirra manna, sem hafa orðið fyrir tjóni og ástvinamissi og ekki hafa fengið aðrar bætur fyrir, og er ég reiðubúinn að hafa um það samvinnu við hv. fyrirspyrjanda, hvaða leið sem farin verður í því efni.