18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (4030)

902. mál, leigumáli á húseign

Fyrirspyrjandi (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Herra forseti. Þetta hús á Leifsgötu 16 er eign ríkisins, og bjó í því séra Jakob Jónsson, en er fluttur þaðan. En það vill svo til, að þetta hús stendur á lóð, sem er mjög nærri Landsspítalanum, en spítalinn er í sífelldu hraki með húsnæði og það svo, að það er ein meginástæðan til, að spítalinn er mjög illa settur með hjúkrunarkonur, því að þær segja upp sökum húsnæðisskorts. Þegar svo þetta húsnæði losnaði á Leifsgötu 16, voru uppi óskir frá hendi Landsspítalans að fá þetta húsnæði fyrir hjúkrunarkonur. Það var hins vegar leigt út, án þess að spítalinn fengi þar nokkur ítök. En svo gerðist það aftur í haust sem leið, að þá losnaði enn húsnæði í þessu sama húsi, og þá gerði spítalinn nýja tilraun með aðstoð landlæknis til að fá húsnæðið fyrir hjúkrunarkonur. M. a. mun landlæknir hafa skrifað rn. um þetta. En þetta tókst ekki. Húsnæðið var leigt einstaklingi, og eru nú mikil vandræði á Landsspítalanum með húsnæði og gremja út af þessum ráðstöfunum.

Þessi fyrirspurn er borin fram til þess í fyrsta lagi að fá upplýst, hvort það muni vera svo fjarstæðukennt, að Landsspítalinn geti fengið þetta húsnæði fyrir hjúkrunarkonur og starfslið, sem vandræði eru nú með, og í öðru lagi að fá upplýsingar um það, hvort ekki muni vera unnt að breyta þeim leigumálum, sem þarna hafa verið gerðir, þannig að Landsspítalinn geti átt von á að fá húsnæðið til afnota. Það er meginatriðið.