18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (4031)

902. mál, leigumáli á húseign

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta hús, sem hér er spurt um, Leifsgata 16, var keypt af ríkisstj. í nóvember 1942. Húsið var keypt af Guðmundi Gunnlaugssyni kaupmanni í þeim tilgangi að útvega séra Jakob Jónssyni þak yfir höfuðið. Kaupverðið var 250.000 kr., en mér er heimild til kaupanna ókunn. Húsið er tvær hæðir og kjallari. Á fyrstu hæð bjó ekkja með börnum sínum og hefur verið þar síðan. Í kjallara bjó Jón Guðmundsson blaðamaður. Hann flutti árið 1946, og var þá kjallaraíbúðin, 2 herbergi og eldhús, ca. 70 fermetrar, leigð Gísla Ólafssyni ritstjóra. Árið 1948 í október flutti séra Jakob úr húsinu í hið nýreista prestshús við Engihlíð. Hafði hann haft til afnota alla efri hæðina og auk þess tvö lítil herbergi í kjallara. Var þá Gísla Ólafssyni leigð íbúðin á efri hæð, en kjallaraíbúðin var leigð Þórhöllu Friðriksdóttur. Hún flutti úr kjallaranum síðla sumars 1949 og sú íbúð þá leigð Kristjönu Jóhannesdóttur, sem þar býr nú.

Núverandi leigumáli er:

1. hæð 175,00 kr. á mánuði, gamall leigumáli.

2. hæð 215,00 kr. á mánuði skv. mati húsaleigunefndar.

Kjallaraíbúð 130,00 kr. á mánuði skv. mati húsaleigunefndar.

Á leigu af öllum íbúðum greiðist viðbótarleiga samkvæmt húsaleiguvísitölu.

Eins og sést á þessu, hefur raunverulega ekki losnað nema kjallarinn, því að þegar presturinn fer, er Gísli Ólafsson fluttur upp, svo að kjallarinn losnar. Í kjallaraíbúðinni eru kölluð þrjú herbergi, en þau herbergi eru ekki góð, og væru þau lítil úrlausn fyrir Landsspítalann. M. ö o., það, sem þarna þykir svo æskilegt fyrir Landsspítalann, eru þessar litlu kjallarastofur, og í þeim vandræðum, sem mér virðast vera fyrir hendi hjá spítalanum, þá hefði það verið dropi í hafinu, þótt synjað hefði verið leigumálanum við veika konu til þess að spítalinn gæti troðið einhverjum hjúkrunarkonum í þessi litlu kjallaraherbergi, svo mörg sem þau voru. Þau eiga að heita fimm, og er fráleitt að mínum dómi að koma nema einni í hvert herbergi fyrir sig.

Seinasti liður fyrirspurnarinnar er, hvort Landsspítalinn geti fengið þetta hús til afnota. Ég geri ráð fyrir, eins og leigumálum er nú háttað, að ríkið geti ekki að bótalausu fleygt fólkinu út á götuna, því sem þar er nú og hefur þar leigusamninga. Hefur þó verið klifað á því með talsverðri frekju á sínum tíma.

Ég hef þá gefið þær upplýsingar, sem liggja fyrir um þetta mál.