18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (4032)

902. mál, leigumáli á húseign

Fyrirspyrjandi (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Upplýsingar þær, sem hæstv. atvmrh. gaf, voru í samræmi við það, sem ég raunar vissi nú að miklu leyti, en skýring hans, þegar hann segir, að ekki hafi losnað nema kjallarinn, svarar ekki alveg til upplýsinganna, því að með hvaða rétti átti maðurinn, sem bjó í kjallaranum, að fá annað húsnæði, ef ríkið þurfti að halda á því fyrir starfsemi sína?

Það er rétt, kjallarinn er ekki stórvægilegt húsnæði, en hæstv. ráðh. telur þó, að það muni geta komizt fyrir einn í hverju herbergi, og þá er þar þó pláss fyrir fimm, og það þykir þeim, sem búa við vandræðin þar suður frá, þó nokkur lausn. En það, sem mér finnst aðalatriðið í þessu máli, er, hvernig stóð á því, ef rn. hefur verið kunnugt um það á þeim tíma, þegar efri hæðin losnaði og er leigð fólki, sem býr í kjallaranum, — hvernig stendur á því, að fólkið, sem bjó í kjallaranum, flytur þá upp á efri hæðina, ef það hafði ekki samning nema um kjallarann, í stað þess að Landsspítalinn fengi efri hæðina? Ég skil mætavel, að það muni vera búið að festa þetta nú, og harma það mjög.