01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (4039)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Í sambandi við þessa fyrirspurn vil ég beina til hæstv. viðskmrh. tilmælum í þá átt, að gert verði allt, sem fært er, til að greiða úr bifreiðaleysi starfandi lækna í Reykjavík. Eins og hæstv. ráðh. er kunnugt um, hefur stjórn læknafélags landsins snúið sér til yfirvaldanna með ósk um innflutning án árangurs. Ég hygg, að hjá fjárhagsráði liggi skýrsla um bílaeign starfandi lækna í Reykjavík, sem sýnir, að mikill hluti þeirra er í fullkomnum vandræðum hvað þetta snertir. Formaður Sjúkrasamlags Reykjavíkur og heilbrigðismálastjórnin ásamt mér hafa líka rætt við fjárhagsráð og fengið þar góðar undirtektir. Fjárhagsráð hefur talið sjálfsagt, að þeir sætu fyrir þeim innflutningi, sem hægt er að veita, en til þessa hefur enginn árangur af þessu orðið. Nú standa yfir samningar milli Sjúkrasamlags Reykjavíkur og Læknafélags Reykjavíkur, og eitt atriðið, sem veldur sérstökum erfiðleikum í þeim samningum, það er, að læknarnir telja, að kostnaðurinn við starfsemi þeirra vegna hörguls og dýrleika bíla hafi aukizt alveg gífurlega, sumpart vegna gamalla bíla, 6–12 ára, sem kosta óhemju mikið í viðhaldi, og einnig vegna nýrra bíla, sem ekki er hægt að fá nema á svörtum markaði með margföldu verði. Krefjast þeir, að tillit sé tekið til þessa í þeim samningum, sem nú standa yfir. Ég beini þessu til hæstv. viðskmrh., hvort hann geti um það sagt, hvort vænta mætti fyrirgreiðslu í þessu efni og hvort það yrði innan langs tíma.