12.01.1950
Efri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. lengi, en vil benda á, að það kemur sér vel, að hæstv. Alþingi hefur ekki mikið að starfa, því að þessi leikaraskapur er nú að verða allspaugilegur, því að skipzt er á að samþykkja og fella þessa till. eftir því, hvernig styrkleikahlutföll framsóknarmanna og kommúnista eru í deildum. Ég hef áður lýst óskum og kröfum útvegsmanna, og ber það einkennilega við, að hv. þm. keppast við að taka inn á ábyrgð annað, en útvegsmenn hafa sjálfir óskað. Ég verð að segja, að þessi vinnubrögð eru alveg ný hér á Alþingi. Hvað því viðvíkur, að ábyrgðarverð á lifrinni tryggi hlutarsjómönnum betri hagnað, er úr lausu lofti tekið og eitt af því, sem hv. flm. hefur fundið upp í hugskoti sínu. Hlutur sjómanna fer alveg eftir því, hvað útvegsmönnum verður úr lifrinni, en ekki úr ábyrgðinni. Fæstir útvegsmanna hafa heldur óskað eftir ábyrgð á lifrinni, og það hefur einnig komið fram í umr., að hv. þm. vilja ekki fara ábyrgðarleiðina lengur. Mér finnst því fara fyrir Framsókn eins og Danskurinn segir „at indhente det førsemte“. Það er eins og hv. Framsfl. sé kominn í kapphlaup við sjálfan sig og fleygir þess vegna inn nú á elleftu stundu þessari till., sem engir eða a.m.k. mjög fáir viðkomandi aðilar hafa óskað eftir. Ég vil segja, að þetta er ekki rausn, heldur ofrausn.

Ég ætla svo ekki að segja fleiri orð, nema tilefni gefist, en ég er á móti því, að þetta ákvæði verði sett inn í frv. Það er ekki eingöngu hæstv. ríkisstj. sjálf, sem telur vafasamt, að hægt sé að framkvæma þetta, því að t.d. hv. þm. Ísaf. (FJ), sem mjög er þessum málum kunnugur, sagði í hv. Nd., að ef þetta atriði væri ekki óframkvæmanlegt, þá væri það að minnsta kosti illframkvæmanlegt, og skal ég ekki fara frekar út í það atriði, svo mjög sem ég hef rætt það. Þessi till. verður nú samþ., ef að líkum lætur, og er ekki við því neitt að segja, því að hæstv. Alþingi ræður auðvitað þessum málum. En ég hef bent á, að heimildir, sem ekki er hægt að nota og sýnilega hafa neikvæða kosti í för með sér, er ekki rétt að gefa ríkisstj.