01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (4041)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert nokkur skil á því að svara þeirri fyrirspurn, sem fram er borin á þskj. 245. Hann hefur upplýst, að 200 bifreiðar hafi verið fluttar inn á því tímabili, sem hér er um að ræða. Ég las í dagblaði nýlega, að það væri vitað, að 248 bifreiðar hefðu verið fluttar inn á árinu 1948, og er hér talsverður mismunur frá því, sem hæstv. viðskmrh. gaf upp, og því, sem stóð í blaðinu. Þar er sagt, að þessar tölur séu teknar upp úr Hagtíðindunum.

Það er nú svo, að það hefur komið mikið af bifreiðum til þessa lands. Það er að vonum eftir þeim sótt, því að þetta eru nauðsynleg tæki að vissu marki. En þegar gjaldeyristekjur þjóðarinnar rýrna, þá er eðlilegt að spyrja um það, hvað sé brýnn innflutningur og hvað það er, sem við getum án verið. Býst ég þá við, að þegar farið er að gera þá skilgreiningu, þá komist menn að raun um, þótt fólksbifreiðar séu nauðsynlegar að vissu marki, þá getum við lifað án þess að bæta miklum fjölda við þær, sem komnar eru til landsins. Það liggur mikið verðmæti í bifreiðum, sem fluttar hafa verið til landsins á síðustu árum, og það er vitað mál, að það fara mikil verðmæti forgörðum í sambandi við þessar bifreiðar. Þær standa flestar úti allan veturinn og ryðga niður. Mönnum hefur verið bannað að byggja skýli yfir þessar bifreiðar, en það eðlilega hefði verið að gera mönnum að skyldu að hafa bifreiðarnar undir þaki, til þess að þær entust lengur og kostuðu minna viðhald. Til þess að halda þessum bifreiðum gangandi þarf fleiri milljónir króna árlega í erlendum gjaldeyri. Það þarf að kaupa varahluti, og það þarf benzín og gúmmí. Hér er um verðmætasóun að ræða, þegar þessi dýru tæki eru látin ryðga niður, vegna þess að ekki er hægt að koma þeim í hús.

Nú hefur verið farin krókaleið í sambandi við innflutning á þessum bifreiðum og veitt innflutningsleyfi án gjaldeyris, vegna þess að sjómenn hafa fengið leyfi til að nota gjaldeyri, sem þeir hafa fengið, til kaupa á þessum tækjum, og þessi tæki hafa verið flutt inn fyrir þennan gjaldeyri, sem þeir hafa fengið, eða a. m. k. í skjóli þessa gjaldeyris. Það mun vera nálægt 15 millj., sem sjómenn fá í erlendum gjaldeyri til ráðstöfunar. Það er ekki nema eðlilegt nú, þegar gjaldeyrisjöfnuðurinn er óhagstæður, að spyrja að því, hvort við höfum efni á því að láta okkar ágætu sjómenn hafa svo mikinn erlendan gjaldeyri til ráðstöfunar. Sjómennirnir okkar eiga gott skilið. Þeir eiga að hafa góð kjör, en ég hygg, að við höfum ekki efni á því að láta þá hafa svo mikið fé til ráðstöfunar í erlendum gjaldeyri eins og undanfarið og eins og hægt var að líða, meðan gjaldeyristekjurnar voru nógar. Það er talað um svartan markað í þessu landi, og hann þrífst. Hann er til einmitt vegna þess m. a., að þessi gjaldeyrir er fyrir hendi. Sjómennirnir okkar kaupa hluti erlendis, flytja þá inn og koma þeim svo á svartan markað. Sé ekki fært að taka gjaldeyrinn af sjómönnunum að einhverju eða öllu leyti, virðist óhjákvæmilegt að skapa nýjar reglur, svo að þeir geti ekki komið með hluti til landsins, nema þeir hafi innflutningsleyfi. Þá ætti gjaldeyririnn eingöngu að vera notaður fyrir nauðsynjar handa landsmönnum.