01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (4047)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Út af því, sem hv. 1. þm. N-M. sagði síðast, þá hygg ég bezt, að við gerum okkur grein fyrir því, eins og komið er nú, að okkur er óhætt að hugsa fyrir því að hætta öllum bifreiðainnflutningi um sinn, jafnvel jeppainnflutningi líka. Ég get ekki séð, að við höfum á þessu ári efni á að kaupa fólksbíla eða jeppabíla til landsins. Náttúrlega verður eitthvað flutt inn af landbúnaðarvélum, og ef jeppabílarnir eru taldir standa jafnfætis að nauðsyn slíkum vélum, gæti kannske verið, að eitthvað yrði flutt inn af þeim sem slíkum, en sem samgöngutæki þá held ég að óhætt sé að segja, að við munum varla hafa efni á, á þessu ári að eyða gjaldeyri í þann innflutning, hversu æskilegur sem hann kynni að vera.

Hv. þm. Ísaf. talaði aftur um söluskatt af bílum, sem hafa ekki komið til skrásetningar eða eru seldir í kössum. Hann minntist á, að leyfin væru gefin út á nöfn og því auðvelt að fylgjast með því, hvort þeir menn, sem fengju leyfin, létu skrá bílana á sitt nafn. Ég vil benda á, að það er fullkomlega samkvæmt venju og ekki óalgengt, að leyfi séu yfirfærð á önnur nöfn, og þá getur sá maður, sem fyrst fær leyfið samkvæmt þessari reglu, fengið leyfinu skipt á nafn þess, sem ætlaði að kaupa fyrir hann bílinn. Það er ekki heldur eins og hann þurfi að selja leyfið, hann getur gefið það, svo að þetta virðist ekki vera tryggt í framkvæmd. Þar að auki efast ég um, ef farið er að kryfja þetta til mergjar, hvort nokkurn tíma hafi verið gert ráð fyrir, að þessi skattur næði nema til breytinga, sem stöfuðu af breyttri skrásetningu bílsins, þannig að sá, sem flytur fyrst inn bílinn, lætur skrá hann á sitt nafn, en allar breytingar úr því yrðu skattskyldar. Um þetta má náttúrlega deila, en mér er ókunnugt um, hvaða reglur hafa verið settar bifreiðaeftirlitinu í þessu máli. Því mun hafa verið falið að fylgjast með þessu, en um þessar reglur er mér ókunnugt, svo að ég veit ekki, hvort þær hafa verið settar og afturkallaðar síðar, eins og hv. þm. gat um.