01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í D-deild Alþingistíðinda. (4049)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar hv. 4. þm. Reykv. biður hæstv. fjmrh. að hlutast til um, að starfandi læknar í Reykjavík fái innflutningsleyfi fyrir fólksbifreiðum, þá segist hæstv. ráðh. munu taka það til velviljaðrar athugunar. En þegar ég upplýsi, að margir læknar hér í Reykjavík hafi hvað eftir annað fengið lúxusbíla og selt þá á svörtum markaði, og bendi hins vegar á, að mjög margir læknar og aðrir embættismenn uppi í sveitum þurfi nauðsynlega að fá jeppa, þá kveður hæstv. ráðh. upp þann dóm, að ekki muni unnt að flytja inn neinar bifreiðar á þessu ári. Þetta eru undirtektir hæstv. ráðh. Þegar farið er fram á að útvega læknum í Reykjavík lúxusbíla, þá á að taka það til velviljaðrar athugunar, og líka til þeirra, sem hafa gert sér að atvinnu að fá bíla og selja þá með okri, en þegar rætt er um innflutning jeppa handa embættismönnum úti á landi, þá er svarið, að ekki sé hægt að flytja inn einn einasta bíl. — Þá get ég upplýst, að mér er kunnugt um, að ekki hefur verið greiddur skattur af bifreiðum, sem seldar hafa verið í kössunum hér á hafnarbakkanum.