01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (4050)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. segir, að ég hafi sagzt vilja taka til velviljaðrar athugunar að útvega læknum hér í Reykjavík bíla. Þetta er nú að vísu ekki alveg rétt. Ég sagðist skyldu athuga þetta mál eftir því, sem efni stæðu til. En þetta skiptir nú raunar ekki miklu máli, og skal ég ekki deila um það.

Hv. þm. V-Húnv. virðist ég hafa brotið eitthvað af mér í þessu máli, en ég sagði aldrei, að þessi mál hefðu verið framkvæmd þannig, að enginn skattur hefði verið tekinn, þegar óskráðar bifreiðar voru seldar. En ég sagði, að mér væri ókunnugt um framkvæmdina, og taldi mjög erfltt að fylgjast með þessu, og sný ég ekki aftur með það. Það er fullkominn óþarfi að beina því til mín, að ég standi ekki í ístaðinu um það, að lög séu framkvæmd og mér vitanlega hafa menn ekkert fengið frá fjmrh. gagnstætt því, að þetta verði framkvæmt. Hitt er annað mál, hvort framkvæmdin er möguleg, og enn fremur má vissulega deila um það, hvort þessi ákvæði ná einnig til óskráðra bifreiða. Hins vegar er ég sízt á móti því að taka af þeim skatt, ef það á annað borð er hægt.