10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (4082)

155. mál, lán Búnaðarbankans af gengishagnaði

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör, sem hann hefur gefið við þessari fyrirspurn minni, þar sem hann upplýsti, að samkvæmt þeim gögnum, sem hann hefði í höndum, mundi gengishagnaðurinn nema 16–18 millj. kr. Reynist svo, þá er þetta ekki fjarri því, sem talið var af kunnugum mönnum, þegar þessi l. voru sett í vetur. En ég vil aðeins leggja áherzlu á það, að reynt yrði að hraða því af hálfu ríkisstj. svo sem unnt er, að gengishagnaðurinn yrði afhentur réttum aðilum, svo að hann geti komið að þeim notum, sem til var ætlazt.