10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í D-deild Alþingistíðinda. (4098)

908. mál, gengisskráning ítalskrar líru

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Áður en gengi krónunnar var breytt fyrir nokkru, reiknuðu bankarnir ítalska líru á 2,245 aura hverja líru til útflytjenda og innflytjenda. Líran var ekki formlega skráð í bönkum eins og aðrar myntir, en þetta gengi var notað sem grundvöllur fyrir viðskiptum við útflytjendur og innflytjendur. Þetta gengi var hærra en sem svarar skráningu lírunnar í Róm og London; rétt verð á lírunni í samræmi við aðra mynt hefði þá átt að vera 1½ eyrir fyrir hverja líru. Gengi lírunnar var með öðrum orðum skráð of hátt, það er að segja krónan hafði þegar verið felld allverulega gagnvart líru til þess að örva útflutning íslenzkra afurða til Ítalíu. Af þessu leiðir, að þegar gengislögin voru sett, hefði ekki átt að hækka gengi lírunnar um jafnmikið og gengi annarrar myntar, ef rétt skráning á lírunni hefði átt að fara fram. Gengi lírunnar hefði samkvæmt núverandi gengisskráningarl. ekki átt að hækka nema upp í 2,62 aura fyrir hverja líru, eða 15%. Það heyrðist um það rætt, meðan rætt var um gengisskráningarl., að til mála gæti komið að hækka líruna jafnmikið og aðra mynt. þ. e. a. s. 74%, þrátt fyrir það að líran hafði áður verið hækkuð sérstaklega. Í tilefni af þessu beindi ég þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. við 2. umr., hvort það væri rétt, að til stæði að hækka líruna um 74% eins og aðra mynt, þ. e. a. s. lækka krónuna enn meir gagnvart líru og halda þannig áfram því svo nefnda hrognakerfi, sem áður var í gildi gagnvart Ítalíu. Hæstv. viðskmrh. svaraði þessu á þá leið, að líran yrði skráð í samræmi við aðra mynt, þ. e. a. s. 2,62 aurar fyrir hverja líru. Nú eru hins vegar liðnar nokkrar vikur síðan gengislækkunin var samþ., en líran er ekki skráð. Þetta veldur talsverðum trafala í viðskiptum við Ítalíu. Okkur fyrirspyrjendur langar til að fá að vita, hvernig á því stendur, að líran er ekki skráð, og hvaða fyrirætlanir séu uppi hjá ríkisvaldinu varðandi skráningu hennar.