10.05.1950
Sameinað þing: 47. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í D-deild Alþingistíðinda. (4108)

910. mál, ráðstöfun á gengishagnaði

Fyrirspyrjandi (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn um það, hverju nemi gengishagnaður sá, er um ræðir í 2. gr. l. nr. 22 1950, um gengisskráningu o. fl., varðandi hluta byggingarsjóðs verkamanna, og hvort þetta fé er tiltækt.

Þegar fyrirspurnunum á þskj. 622 var útbýtt, kom í ljós, að aðrir þm. höfðu gert fyrirspurnir um líkt efni, svo sem 1. fyrirspurnina, frá hv. þm. N-Þ., og 3. fyrirspurnina, frá hv. 8. þm. Reykv. Hæstv. fjmrh. hefur þegar að nokkru leyti svarað mínum fyrirspurnum með svörum til þessara fyrirspyrjenda, sem nú hef ég nefnt. Þó þykir mér rétt að fá staðfestingu hæstv. ráðh. á því, hvort eigi sé rétt, að minni fyrirspurn sé nánar svarað á þá leið, að ef gengishagnaður nemur 16–18 millj. kr., þá muni hlutur byggingarsjóðs verkamanna verða 3–4 millj. kr., 4 millj. ef gengishagnaðurinn er allur 18 millj., og mér skildist á orðum hæstv. ráðh., að þetta fé mundi verða til ráðstöfunar bráðlega.