16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (4113)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Síðan það varð kunnugt, að vonir stæðu til þess, að möguleikar væru á að fá fé frá hinni svokölluðu Marshallstofnun til ýmiss konar framkvæmda í þessu landi, hafa ýmsir staðir, sem hafa haft framkvæmdir í þessum málum í undirbúningi, hugsað sér til hreyfings um það að fá fé til þeirra framkvæmda frá þessari stofnun og hafa hugsað sér það sem eina möguleikann til þess að koma þeim upp í náinni framtíð. Nú hefur það að vísu verið nokkuð á huldu, hvernig þessu fé, sem fengizt hefur til raforkuframkvæmda í landinu, yrði skipt milli þeirra staða, sem framkvæmdir hafa í undirbúningi í þessum efnum. Ég hef þess vegna leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um það, hvernig hún hyggist að skipta þessu fé til vatnsvirkjana á Íslandi milli þeirra rafvirkjana, sem sótt hafa um Marshallaðstoð til þessara framkvæmda. Hv. þm. Snæf. (SÁ) flytur þessa fyrirspurn með mér. Síðan við lögðum hana fram, hefur málið að vísu breytzt nokkuð, þar sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið út tilkynningu um það, að ákveðið sé, að Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin skuli hljóta fyrirgreiðslu með þessum hætti. En það, sem ég vil vita um og vænti, að hæstv. ríkisstj. gefi greið svör við, er það, hvort það sé meiningin, að þessar stóru virkjanir, til hagsbóta fyrir tvo stærstu kaupstaði landsins, eigi að vera einu orkuverin, sem njóti fyrirgreiðslu á þennan hátt. Ég vil fá upplýsingar um það, hvort það er meiningin, að Sogsvirkjunin, sem náttúrlega fyrst og fremst er til hagsbóta fyrir Reykjavík og raunar verulegan hluta Suðurlandsundirlendisins, og Laxárvirkjunin, sem fyrst og fremst er fyrir Akureyri og kannske nokkrar nærsveitir hennar, eigi að vera einu virkjanirnar, sem þarna koma til greina. Ég get gjarnan í þessu sambandi upplýst það, að svo stendur á, að við fyrirspyrjendur höfum hagsmuna að gæta í þessu sambandi, þar sem við erum umboðsmenn og þm. fyrir tvö byggðarlög, sem um langan aldur hafa undirbúið raforkuframkvæmdir og eru mjög langt á veg komin með þann undirbúning. Er mér þetta sérstaklega kunnugt að því er snertir mitt hérað, en Bolungavík hefur undirbúið þessar framkvæmdir í 30 ár og tók sér þegar fyrir hendur að leita eftir stuðningi frá Marshallstofnuninni, þegar kunnugt varð, að Íslendingar ættu þess kost að fá þaðan fé til þessara framkvæmda.

Ég sé, að hæstv. forseti gefur mér merki um, að tími minn sé þrotinn, en ég vænti þess, að hæstv. raforkumálaráðherra gefi mér upplýsingar og svar við þeirri fsp., sem hér liggur fyrir.