16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (4114)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Út af þessari fsp. hv. þm. N-Ísf. (SB) vil ég segja þetta: Eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé kunnugt, eins og öllum öðrum þm. í Sjálfstfl., þá hefur verið samið um það milli Framsfl. og Sjálfstfl., hvernig þessum fyrstu eða næstu Marshallpeningum skuli varið. Það hefur verið gerður um það samningur, að Sogsvirkjunin og Laxárvirkjunin skuli sitja fyrir fyrsta fjármagninu og síðan eða kannske jafnhliða, þegar líður á það tímabil, sem það tekur að framkvæma þessar virkjanir, þá komi áburðarverksmiðjan. Þetta er samningur, sem gerður hefur verið með samþykki þm. úr báðum flokkum, og er gert ráð fyrir, að þessu fé verði varið hlutfallslega jafnt til allra þessara þriggja fyrirtækja. Það hefur þess vegna verið með samkomulagi þessara flokka ráðstafað því fé, sem við fáum af Marshallfé á næstunni. Frekari ráðstafanir hafa ekki verið gerðar að svo stöddu, nema undir þeim kringumstæðum, að svo færi af einhverjum ástæðum, að ekki væri hægt að koma áburðarverksmiðjunni á fót, eins og gert hefur verið ráð fyrir í þessu samkomulagi.

Nú um aðrar virkjanir er það að segja, að ég tek undir það, sem hv. þm. sagði, að þeirra er full þörf og að vissu leyti álitamál, hvort ýmsar þeirra eiga ekki rétt á að koma jafnhliða þeim virkjunum, sem ég hef rætt um.

Það er fyrst og fremst um fjórar virkjanir að ræða: Þverá við Hólmavík, þar sem eru einna bezt virkjunarskilyrði hér á landi og geysileg þörf fyrir rafmagn vegna þess iðnaðar, sem þar er að rísa upp. Svo kemur Fossá á Snæfellsnesi og Laxá við Blönduós og enn fremur virkjun við Bolungavík. En það hefur verið rætt um það í ríkisstj., þegar ákvarðanir voru teknar um þá samninga, sem ég skýrði nú frá, að taka upp síðar umræður um það, hvaða möguleikar væru til þess að hrinda öðrum virkjunum í framkvæmd, en samningurinn um ráðstöfun Marshallfjárins nær ekki lengra en ég hef skýrt frá og hv. fyrirspyrjendum er sjálfsagt kunnugt um. Þessar umræður hafa ekki verið teknar upp enn þá, en ég vil segja, að það ætti vissulega ekki að vera óviðráðanlegt fyrir okkur Íslendinga að hrinda þessum virkjunum í framkvæmd á næstunni, ef það árar ekki mjög illa þó að það verði ekki gert fyrir Marshallfé.

Ég hef þá, að ég hygg, svarað þessari fsp. Ríkisstj. hefur sem sagt ekki tekið aðrar ákvarðanir en þær, sem ég nú hef nefnt, en mun hefja ýtarlegar umræður um það á næstunni.