16.05.1950
Sameinað þing: 50. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (4120)

162. mál, Marshallaðstoð til vatnsorkuvirkjana

Emil Jónsson:

Herra forseti. Af ræðu hæstv. landbrh. skildist mér, að þær framkvæmdir, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið sér saman um, þ. e. virkjun Sogsins og Laxár og bygging áburðarverksmiðju, séu svo fjárfrekar, að ekki verði ráðizt í aðrar framkvæmdir fyrr en þeim, sem þegar eru ákveðnar, hefur verið séður farborði hvað fjárhag snertir. Þetta þýðir, að ákvörðun yrði ekki tekin um byggingu sementsverksmiðju á næstu tveim árum. Þetta þykir mér trúlegra en það, sem hv. þm. Borgf. segir. En ég vil undirstrika það, að í þeim drögum að áætlun um notkun Marshallfjár, sem gerð voru fyrir tveim árum, var gert ráð fyrir byggingu sementsverksmiðju, og vildi ég leggja á það mikla áherzlu, að hún yrði ekki felld úr áætluninni. Hv. þm. Borgf. sagði að vísu, að ekki mundi þurfa Marshallfé til sementsverksmiðjunnar, þar sem hún mundi sjálf geta staðið undir eðlilegum lánum, en það er svo um þetta fyrirtæki sem önnur, að það má gera því misjafnlega auðvelt eða erfitt fyrir um starfsemi, og ef á að taka lán til sementsverksmiðjunnar með 4–5% vöxtum í stað Marshallláns með 2,5% vöxtum, þá er henni allmikið íþyngt. Það væri því æskilegt, að sementsverksmiðjunni yrði ekki sleppt úr þeirri framkvæmdaröð, sem fyrst var áformuð, þegar rætt var um skiptingu Marshallfjárins, heldur verði henni haldið innan þess ramma.