12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. hefur nú sýnt fram á það mjög ljóslega, að það þarf meira, en rétt að taka lifrina, það þarf líka að bræða hana og gera hana að vöru. — Hv. 1. þm. S-M. sagði, að það, sem væri aðaldrifkrafturinn hjá sér í þessu, væri það, að með því að hafa ekki lifrina með í ábyrgðinni, þannig að ábyrgzt væri verð fyrir hana, þá væri ekki vissa fyrir hlutarsjómenn um, hvaða verð þeir fengju fyrir lifrina. Það hefur aldrei verið vissa um það á þessum tíma árs, og hefur því aldrei verið hreyft fyrr, að nauðsyn væri á að slá því föstu með ábyrgð á lifrarverðinu, sem gerð væri í byrjun vertíðar, enda mun það vera torvelt. Það hefur ekki heldur verið undan því kvartað hingað til, þó að menn hefðu ekki þennan hluta af sjávarafla sínum verðtryggðan með ríkisábyrgð. Þessi óvissa hefur alltaf verið fyrir hendi, en ein vissa er í þessu máli, sú, að eftir því sem skip fær meira fyrir sína lifur, þeim mun betri verður hlutur hlutarmannsins, annars væri hann ekki hlutarmaður, og þar fara saman hagsmunir útgerðarmanns og hlutarmanns. Hv. 1. þm. S-M. er því, að minni hyggju, að ganga á móti sanngjörnum óskum útvegsmanna til þess að þjóna ímynduðum hagsmunum hlutarsjómanna.

Svo er annað atriði í þessu máli, sem ég sé ekki, að hv. 1. þm. S-M. hafi enn drepið á, sem er þó veigamikið. Og það var alls ekki hjá mér sagt út í bláinn, þegar ég sagði, að það væri eiginlega ómögulegt að framkvæma þessa ábyrgð, eins og ákvæði standa nú um í frv. og hafa staðið í brtt. framsóknarmanna. M.a. hef ég minnzt á kontrolið og kostnaðinn við það. Látum gott heita, að ríkið hafi marga launaða starfsmenn til þess að passa upp á lifrina frá hverjum bát, það má náttúrlega segja, að það megi framkvæma allt. En þegar hv. 1. þm. S-M. er að bera saman ábyrgðina á blautfiskinum og saltfiskinum við lifrarábyrgð, þá gleymir hann því, eða læzt gleyma því, að um leið og blautfiskinum eru tryggðir þessir 75 aurar, þá er ákveðið í sjálfum l., hvaða verð hraðfrystihúsin eigi að fá, og það er ákveðið, hvaða verð saltfiskframleiðendur eigi að fá, og þessar verðákvarðanir eru þannig samstilltar. Og það hefur þannig verið reiknað út af sérfróðum mönnum, að verðið, sem hraðfrystihúsunum er ábyrgzt í l. annars vegar og saltfiskframleiðendunum hins vegar, það sé í samræmi við og hæfilegt, miðað við hráefnisverðið. Hvað lifrina snertir hins vegar, þá vill hv. 1. þm. S-M. tryggja hrálifrarverðið og hafa það tryggt í l. En það er ekkert ákvæði, sem hann vill taka inn viðvíkjandi því að verðtryggja unnu vöruna, lýsið, sem fæst úr lifrinni, eins og er varðandi hraðfrysta fiskinn og saltfiskinn. Þar er nefnilega meginmunurinn á þessu máli hjá hv. þm. Til þess að þetta væri hliðstætt og að öllu leyti samsvarandi fiskábyrgðinni og forsvaranlegt gagnvart þeim, sem eiga að framkvæma það, þarf að tiltaka, hvaða lágmarksútflutningsverð lýsisútflytjandinn ætti að fá fyrir meðalalýsi, t.d. 1.000 eða 1.200 vítamíntölu. Mætti jafnvel byrja á 800 sem lægsta flokki. Það þyrfti að standa í frv. ákvæði um það, hvaða verð útflytjendum skyldi ábyrgzt fyrir þetta lýsi, og sömuleiðis ef lýsið stæði í 1.200–1.500, 1.500–2.000, 2.000–2.500, 2.500 –3.000 og loks 3.000–3.500, af því að þá er komið upp í það, sem hér er mest vítamíninnihald lýsisins. Ég játa, að í Hornafirði hefur vetrarlýsið farið yfir 3.500 að vítamíninnihaldi, og jafnvel yfir 4.000. Og þessi skali er miðaður við það, sem útvegsmenn hafa alla tíð á undanförnum árum miðað sín útboð við og komið sér saman um, hvað þeir byðu í hvern gæðaflokk fyrir sig. Og þá þyrftu enn fremur að vera í frv. ákvæði um það, hvað hið svo kallaða lágmark á verði væri fyrir þetta. Það er alveg rökrétt, að ef ákvæðin um ábyrgð á verði fyrir lifrina ættu að vera sambærileg við ábyrgðarverð fyrir hráefni af fiski, þá þyrfti að flokka þetta allt. Og þegar þetta er athugað, þá ætla ég, að flestir muni geta séð, að það er ekki neitt óþægilegt að eiga, t.d. í byrjun vertíðar, að búa til verðskala á hinum ýmsu lýsistegundum, eins og markaðurinn fyrir þessa vöru hefur sýnt sig að geta hvikað, svo sem á árinu sem leið. Þetta hefur hv. 1. þm. S–M. og öðrum, sem honum fylgja að málum, sézt yfir að leiðrétta. — Ég hef ekki hirt um að taka þetta fram fyrr en í lokaþætti afgreiðslu þessa máls. En héðan af er bezt að segja það eins og það er, að eftir þessum skala þyrfti að verðleggja þessa unnu vöru, og þá þyrftu að vera skýr ákvæði í frv. um það, ef hér ættu að vera um ábyrgðina á lifrarverðinu samsvarandi ákvæði við ákvæði um verðábyrgð á fiskinum.