12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. sagði, að hann vildi leiðrétta það, sem ég sagði um verðið á lifrinni. Það var ástæðulaust að hafa þau orð þar um, að leiðrétta, því að ég tók það fram greinilega, að það mundi hafa verið sama verð á lifrinni í hverri veiðistöð fyrir sig á sömu vertíð, miðað við lítratölu. Hitt sagði ég ekki, að sama verð hefði verið á lifrinni í öllum verstöðvum yfir vertíðina í sama skipti. Hér þurfti hann því ekki neitt að leiðrétta. En hann benti á, að víða væru erfiðleikar fyrir menn að taka lifur fyrir kr. 1,30 lítrann, þó að slíkt væri hægt á sumum stöðum. Og hann benti á sem hliðstæðu þess, að erfitt væri að taka við fiski í frystihúsin, af því að gæði fisksins væru ekki alls staðar hin sömu. Það er satt, að það er ekki alls staðar hagkvæmt að taka fisk fyrir 65 eða 75 aura. Samt sem áður hafa menn ekki horfið frá því að hafa sama verð á fiskinum alls staðar. Og það er ekki farið fram á annað gagnvart ábyrgð á lifrarverðinu en það, sem á að gera viðkomandi ábyrgðinni á fiskinum. Mér er það ljóst, að það er allt of mikið gert úr erfiðleikum í þessu sambandi. Hér er um svo rúma heimild að ræða, viðkomandi þeim, sem bræða lifur, að ríkisstj. gæti, ef hún vildi, samkv. þessu frv. tekið tillit til þess, ef lifrin væri eitthvað lakari í einhverjum landshlutum en þar, sem hún er bezt á vetrarvertíðinni, og tekið til athugunar að bæta mönnum halla, sem yrði á þessu atriði. Og þetta er ekkert erfiðara með lifrina en með fiskinn. Hæstv. atvmrh. sagði, að það væri sá reginmunur á þessu, sem hann hefði ekki viljað benda á fyrr en nú, að þetta væri ekki hliðstætt, því að í l. væri ákveðið, hvað útflutningsverðið væri á saltfiski og freðfiski, en í ákvæðunum um að ábyrgjast lifrarverðið væri ekkert um það sagt, hvað lýsisverðið skyldi vera. En vitanlega á ríkisstj. að setja reglugerð um það, hvaða útflutningsábyrgð hún tekur samkv. heimildinni á lýsinu, og munurinn er því enginn annar en sá, að það er tiltekið í löggjöfinni sjálfri, hvert útflutningsábyrgðarverðið skuli vera á hraðfrystum fiski og saltfiski, en ríkisstj. á að ákveða, með aðstoð sömu sérfræðinga, sem leitað hefur verið til um ábyrgðarupphæðina fyrir fiskinn, saltfiskinn og hraðfrysta fiskinn, hvaða útflutningsverð á að vera á lýsinu. Og auk þess má benda á til að sanna, hversu brosleg ástæða sú er, sem færð er fram móti lifrarábyrgðinni, að í frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir föstu verði fyrir annað af hraðfrysta fiskinum en fyrir flökin, og svo á ríkisstj. bara að finna út samsvarandi verð á öðrum útfluttum fisktegundum hraðfrystum, og það eru því ekki örðugleikar á þessu efni að þessu leyti.

Hæstv. atvmrh. sagði, að ég vildi í þessu tilliti skaða útvegsmenn og að það væri nú ekki ástæða til að vera óánægður með það, þó að ekki væri ákveðið í byrjun vertíðar fast verð fyrir lifrina, það hefði ekki verið á undanförnum árum. En það er sú ástæða fyrir því að vera ekki ánægður með, að lifrarverðið sé ekki fast, sem hæstv. atvmrh. gekk alveg fram hjá, að ef þorskalýsið er á frílista, þá veit ég, að það dregst að ákveða, hve álagið skuli vera mikið í sambandi við það. Í sambandi við það benti ég á, að óvissan með verðið á þorskalýsinu væri meiri en nokkru sinni fyrr, og það verður erfiðara að vita en nokkru sinni fyrr, hvað á að borga fyrir lifur, sem gengur kaupum og sölum á vertíðinni. Þetta vita allir, sem komið hafa nokkuð nálægt þessum málum, og þá vita þeir, sem selja lifur, ekkert, hvar þeir standa, og það á eins við útvegsmenn sem við hlutarmenn. Og þetta verður aldrei ágreiningsmál milli útvegsmanna og hlutarmanna, því að hagsmunir þeirra fara þarna saman um þetta atriði, en hættan er fólgin í því, að hvorki útvegsmenn né hlutarmenn vita, hvernig þetta dæmi kemur út, ef farið er inn á frílistaleiðina í sambandi við lifrina og lýsið. Þá verður allt í óvissu um lifrarverðið lengi vel. Og það er fullkomlega vafasamt, að þetta komi allt rétt út að lokum, ef frílistaleiðin verður farin. Þá er fullkomlega vafasamt, að allir útvegsmenn og hlutarmenn fái út úr þeim viðskiptum það, sem þeir mundu ætlast til, sem ákvæðu að setja lýsið á frílista.