12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefason):

Herra forseti. Ég held, að þær upplýsingar, sem ég gaf, hafi verið alveg nauðsynlegar. Ég hef sýnt glögglega fram á það, að þetta ákvæði um lifrarverðábyrgðina er svo illa í hendur ríkisstj. búið, að það er ekki framkvæmanlegt eins og það er. Það er að því leyti engin hliðstæða við frílistann. Það er sagt hér í þeim ákvæðum, sem samþ. hafa verið við frv. um lifrarábyrgðina, að það skuli heimilt að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs það, sem á kann að vanta, að söluverð lýsis tryggi bátaútveginum á sama tíma kr. 1,30 fyrir hvern lítra af lifur. Hvernig á ríkisstj. að búa til um þetta nokkra reglugerð t.d. í janúar? Hvernig á hún að geta vitað þá um söluverð á ýmsum tegundum af lýsi, með jafnfallandi markaði og er á þeirri vöru? Nei, það verður að bíða eftir því, að viðkomandi lýsiskaupmaður og lýsisverkandi sé búinn að selja lýsið og hann komi svo til ríkisstj. og segi: Þetta lýsismagn hef ég sent út og selt það fyrir þetta og þetta verð, og það er úr þetta og þetta mörgum lítrum af lifur. Ég þarf að fá svo og svo mikið til þess að geta borgað þessa eina krónu og þrjátíu aura fyrir lifrarlítrann. — Virðist það nú ekki fyrir augum hv. 1. þm. S-M., þó að hann sé nú ákaflega laus við það að vera tortrygginn maður, virðist það nú ekki augljóst fyrir honum, að lýsisútflytjandinn mundi ekki í slíkum kringumstæðum hafa neinn sérstakan áhuga fyrir því að spenna upp lýsisverðið við söluna, ef slíkur útflytjandi væri í kapphlaupi við annan mann um að selja vöru lágu verði? Því að hann á þá greiðan aðgang til þess hjá ríkinu, að það borgi sér, að vísu ekkert ákveðið verð sem uppbót á lýsið, heldur það, sem á kann að vanta, til þess að söluverð lýsisins tryggi bátaútveginum kr. 1,30 fyrir lifrarlítrann. Með slíku fyrirkomulagi væri sá spori, sem eðlilega er á öllum útflytjendum yfirleitt um að ná sem beztu verði fyrir útflutningsvöruna, þá burt numinn hér. Hann væri þá settur á þann bekk, sem við erum að harma að þurfa að setja útvegsmann á, að geta sett sína áhyggju á ríkið. Menn hafa harmað að þurfa að tryggja bátaútvegsmönnum visst verð fyrir fiskinn, því að þar var viss hemill tekinn af þeirra framleiðslukostnaði. En hér á að færa þetta út og láta útvegsmenn eina um það, hvaða verð þeir fái fyrir lýsið, en það á svo bara að bæta þeim upp það, sem á kann að vanta, að þeir geti greitt kr. 1,30 fyrir lifrarlítrann. — Ég hygg, að hv. 1. þm. S-M. sjái, hve þetta er einstaklega broslegt.