15.12.1949
Efri deild: 14. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég segja það, um leið og ég staðfesti það, sem hv. þm. Str. sagði, að þessum fundi Landssambands ísl. útvegsmanna er nýlokið, og það liggja tæplega fyrir í föstu formi þeirra óskir, og liggja eiginlega ekki fyrir. Um leið og ég ítreka það að það væri ákaflega æskilegt, að till. yrðu lagðar sem allra tafarminnst fyrir Alþ., þá treysti ég mér ekki til þess á þessu stigi málsins að fullyrða um það, hvort ríkisstj. treystir sér til að bera hér fram, kannske með eins eða tveggja daga fyrirvara, till. þess eðlis, að hún telji þær frambærilegar og líklegar til samkomulags á Alþ. annars vegar og hins vegar, að þær fullnægi þó þeim megintilgangi að koma útgerðinni af stað. Það er varla með sanngirni hægt að ætlast til, að ríkisstj. treysti sér til að segja um þetta, fyrr en hún hefur séð þær kröfur og óskir, sem útgerðin ætlar að bera fram. En það skal ekki verða neinn ónauðsynlegur frestur á vinnubrögðum ríkisstj. í þessum efnum.