12.01.1950
Sameinað þing: 18. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. S-M. segir, að ríkisstj. eigi að reikna út og ákveða og tilkynna lýsisútflytjendum, hvaða verð þeir þurfi að fá fyrir ýmsar lýsistegundir að hennar dómi, til þess að geta staðið undir því að greiða kr. 1,30 verð fyrir lítrann af lifur. Við hvað á ríkisstj. að miða í þessu efni? Við sínar fyrri hugmyndir eða markaðsverðið í dag, eða hvað? Við skulum segja, að ríkisstj. geri þetta og hún segi: Þetta skal lýsið kosta, nr. 1, nr. 2 og nr. 3 o.s.frv. Gott og vel. Svo tekur kaupandinn við þeirri reglugerð. Segjum, að hann falli ekki í þá freistni að selja lýsið of lágu verði vegna samkeppni. En svo fær hann ekki nóg verð fyrir það samt, samkv. reglugerð ríkisstj., til þess að standa undir lifrarverðinu, kr. 1,30 fyrir lítrann. Hvað segja þá lögin? Það er ætlazt til þess, að ríkissjóður verði látinn ábyrgjast það, sem á kann að vanta, að söluverð lýsis tryggi bátaútveginum kr. 1,30 fyrir hvern lítra af lifur. Hann getur þess vegna á hvaða stundu sem er viðkomandi útflutningsverðinu komið með bakreikning á ríkisstj. og ríkissjóðinn og virt allar reglugerðir að vettugi. Það er lagastafurinn, sem gildir í þessu sambandi, en ekki reglugerð.