13.01.1950
Efri deild: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

51. mál, tollskrá o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er nærri því auðséð af meðferð þessa máls, að það er eitt af stórmálum Alþingis. Það virðist vera að verða nokkuð ríkur siður hér á Alþ., að afgreiðsla hinna smæstu mála taki lengstan tíma og mest af störfum þingsins, en stærstu málin eru iðulega afgreidd af mikilli skyndingu, og nú á að gera það án þess, að boðað hafi verið með dagskrá. (Forseti: Það var boðað hér á næsta fundi á undan.) Það var boðað, er um helmingur deildarmanna var hér á fundi. Þeir, sem ekki voru viðstaddir, munu tæplega hafa fengið tilkynningu um það. Ég tel þetta óhæfilega meðferð máls, þar sem um er að ræða álögur, sem nema tugum milljóna króna. Ég greiddi ekki atkv. á móti afbrigðum við 1. umr., því að segja hefði mátt, að eðlilegt væri, að málið gengi nú til nefndar. En nú er það ekki látið nægja, heldur látið hjá líða að vísa málinu til nefndar, og er ætlazt til, að öllum umræðum sé lokið á fáeinum mínútum, án þess að dm. vissu, að málið átti að taka og afgreiða í dag. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og tel þau fyrir neðan virðingu Alþingis.

Ég mun hins vegar ekki ræða efni þessa frv. eða praktíska þýðingu þess að svo stöddu, en aðeins lýsa yfir, að ég er á móti þessum aðferðum til að fara ofan í vasa almennings eftir tekjum handa ríkinu. Sósíalistaflokkurinn hefur bent á aðrar tekjuöflunarleiðir fyrir ríkið, og er á móti þessu frv.

Ég get ekki stillt mig um að vekja með örfáum orðum athygli á þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að þrátt fyrir það að engin lög hafa um þetta gilt frá 1. jan. s.l., þá hefðu þessir tollar verið innheimtir, eins og lögin væru enn í gildi. Mér finnst þetta athyglisverð yfirlýsing og ástæða til, að hv. dm. taki eftir henni. Ég sé ekki betur en ríkisstj. líti þannig é, að það sé alveg á hennar valdi, hvaða tollaupphæðir heimilist að leggja á söluverð vara til neytenda. Ef ríkisstj. hefur talið sig bæra um að gera þetta frá 1. jan., án þess að styðjast við lög, þá er hún alveg eins bær um að gera það áfram lagalaust. Ef þetta væri svo, sé ég enga ástæðu til að framlengja þessi lög. Ég vil hins vegar ekki styðja þann skilning, að ríkisstj. þurfi ekki á lagaheimild að halda til að innheimta þessa tolla af almenningi, og jafnvel þótt lög hér um væru framlengd, er ég á móti að framlengja þau fyrir allt árið, og jafnvel frá sjónarmiði þeirra, sem telja þessar ráðstafanir réttmætar, væri ekki rétt að láta þær ná til alls ársins.

Það hefur verið mjög mikið um það talað hér á Alþ. að undanförnu, að í næsta mánuði lægi fyrir hv. Alþ. að taka fjármál og atvinnumál ríkisins til alveg sérstakrar athugunar og leita úrræða til frambúðar. Þykir mér sennilegt, að þá komi mjög til umræðu tekjuöflunarleiðir ríkisins, og því er engin ástæða til og ekki rétt að framlengja ákvæði þessa frv. nema þá til bráðabirgða. Mér þykir líklegt, að um þetta hefði verið rætt hér í n., ef málinu hefði verið vísað til nefndar, rætt um að framlengja þessi lög til bráðabirgða, en láta frambúðarlausn bíða í sambandi við allsherjarathugun og væntanlega lausn þessara mála, sem svo mikið er um talað.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar, en ítreka það, að ég bið hv. dm. að gefa sérstakan gaum að þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að þessir tollar hafi verið innheimtir í ríkissjóð án þess að gilt hafi um það lög frá 1. janúar. Það er alveg nýtt fyrirbæri í framkvæmdastjórn ríkisins.