13.01.1950
Efri deild: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

51. mál, tollskrá o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umræður til muna. Þó er þetta merkilegt mál, en ég veit ekki, hvort allir hv. dm. hafa veitt því athygli.

Ef einhver hefði nú neitað að greiða toll síðan 1. janúar og hefði samt heimtað að fá vörur sínar tollafgreiddar, þá hefði ekki verið hægt að neita honum um það. Hefði þessi maður siðan farið til verðlagseftirlitsins og siðan selt vörurnar, er fyrirsjáanlegt, að ekki hefði verið hægt að innheimta tollinn eftir á. Ég vil aðeins benda á, að svona hefði farið, ef einhver hefði neitað að greiða tollinn. Ég fyrir mitt leyti veit, að þetta hefur dregizt af vangá og það hefur verið venja að framlengja þessa tekjustofna fyrir allt árið, og geri ég ráð fyrir, að !það sé ekki óeðlilegt. En ég er ekki með því, að lögin séu látin verka aftur fyrir sig. Ég er með framlengingunni, en ekki með afturverkun, því að með henni er eins og verið að gefa til kynna, að þetta sé eðlilegt. En það get ég ekki gert, og það er ekki rétt hjá hv. þm. Barð., að það skipti neinu í því sambandi, hvort þetta hefur dregizt af vangá eða ekki. Reglan er hin sama, hvort sem um vangá er að ræða eða ekki, að lög eiga ekki að verka aftur fyrir sig. Svo að nú er það súra eplið, sem hv. þm. Barð. verður að bíta í, ef hann ætlar að fylgja þessu máli, að hann samþykki að láta lög verka aftur fyrir sig.