12.12.1949
Neðri deild: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

22. mál, gengisskráning o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Hv. 2. þm. Reykv. gat um það, að með lögum þessum væri úr því skorið, að krónan skyldi fylgja pundinu, en ekki dollarnum. Það má vel vera, að þetta sé rétt hjá honum, að gengi krónunnar hafi á sínum tíma verið miðað við gengi dollarsins, en mig minnir, að það hafi verið miðað við gengi dollarsins og pundsins. Það út af fyrir sig hefur ekki neina raunhæfa þýðingu, eins og sakir standa. Þó að tekið sé fram í l., að gengi pundsins skuli vera kr. 26,22, þá væri það í raun og veru ekki nema eðlilegt, eins og viðskiptum okkar er nú háttað, að íslenzka krónan fylgdi þeirri mynt, sem Íslendingar hafa mestöll viðskipti sín í, og það er öllum ljóst, að viðskipti okkar hljóta nú að fara fram við þau lönd, sem byggja viðskipti sín á sterlingspundinu. Þess vegna verð ég að segja, að mér þykir út af fyrir sig ekkert einkennilegt, þó að svona sé tekið fram í brbl.