17.01.1950
Neðri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

22. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur nú dregizt hjá mér að gefa út nál., en það er ekki ætlunin að tefja málið, og mun ég láta nægja að gera nú grein fyrir afstöðu minni.

Þetta er staðfesting á bráðabirgðalögum um gengisbreytingu íslenzku krónunnar vegna breytingar á gengi sterlingspundsins gagnvart dollar. Röksemd ríkisstj. fyrir nauðsyn þessara ráðstafana er sú, að þar sem viðskipti okkar eru bundin við Bretland og önnur lönd á sterlingsvæðinu, verði ekki hjá þessu komizt, svo að íslenzkar útflutningsafurðir lækki ekki í verði. Og sannleikurinn er sá, að ekki er unnt að aðskilja þetta eða tala um breytingar á þessum ráðstöfunum, nema með því að breyta í heild okkar viðskiptapólitík. Í lögunum frá 1940 var gengi íslenzku krónunnar bundið við dollarinn, svo fremi hann lækkaði ekki gagnvart sterlingspundi. Þeir, sem settu lögin þá, 1940, voru svo bjartsýnir, að íslenzka krónan átti að standa, þótt sterlingspundið félli. Nú er sá draumur búinn, enda mundi nú hafa staðið allt öðruvísi á, ef við hefðum t.d. haft viðskipti að hálfu við önnur lönd en þau, sem við erum nú bundnir við. Það er eðlileg afleiðing af allri okkar viðskiptapólitík, að við erum þannig neyddir til að lækka gengið, og það ætti nú engum að dyljast, hve sú pólitík er skaðleg. Ég vil t.d. minna á, að öll olía hefur nú af þessum sökum hækkað í verði, og ein aðalröksemd útvegsmanna nú fyrir því, að útvegurinn þyrfti aðstoðar, hefur verið hækkunin á olíunni vegna gengisfallsins. Enn fremur hækka ýmsar vörur aðrar, sem engilsaxnesku auðhringarnir „notera“ í samræmi við gengisfall pundsins, þótt þær séu ekki framleiddar í brezka heimsveldinu. Þeir gera allt til að halda sínum „monopolum“ og aðstöðu til að kaupa hráefnin á sem lægstu verði og selja þau síðan unnin við okurverði. Í baráttu okkar við þessi öfl hefðum við staðið allt öðruvísi og betur að vígi, ef við hefðum ekki bundið viðskipti okkar við þau lönd, þar sem hringarnir eru einvaldir á viðskiptasviðinu — hefðum við t.d. eins og 1947 haft a.m.k. 1/3 af mörkuðum okkar fyrir austan járntjald, eins og það er kallað. En okkar viðskiptapólitík hefur mjög breytzt síðan, og þetta er afleiðingin, að gengi krónunnar hefur þannig lækkað. Þess vegna er ekki gott að taka beinlínis afstöðu gegn þessu frv. út af fyrir sig. Þar er um ráðstöfun að ræða, sem er afleiðing af stjórnarstefnu með víðtækar afleiðingar. Til dæmis um hana hefur það sýnt sig í frv., sem enn liggur fyrir Ed., að gerðar hafa verið ráðstafanir til að fella í verði íslenzka útflutningsvöru til Póllands og borga til Landsbankans nokkuð af því fé, sem fæst fyrir þá sölu. Það hafa þannig verið gerðar ráðstafanir til að draga úr verði á útflutningsvörum okkar til landa með gullgengi.

Ég hlýt að vera andvígur þessu frv. sem einum hlekk í orsakakeðju skaðlegrar stjórnarstefnu, afleiðingu skammsýnnar og rangsnúinnar viðskiptapólitíkur, þeirrar, að tengja öll okkar viðskipti við Marshalllöndin. En aðeins með því að breyta til og verzla við bæði viðskiptasvæðin væri okkur gert mögulegt að sporna við gengisfalli okkar krónu. Og úr því sem komið er og út af fyrir sig get ég þannig ekki greitt atkvæði á móti frv. Það er afleiðing þess, sem er búið og gert. Ég mun því sitja hjá við atkvgr., eftir að hafa þannig gert nokkra grein fyrir afstöðu minni.