17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég vil aðeins minna hv. þm. á, að till. ríkisstj. eru gagnslausar, ef þær eru ekki þannig, að þær komi útveginum af stað. Það er megintilgangur till. að koma útgerðinni af stað. Ríkisstj. verður líka að treysta sér til að koma fram fyrir þingið með till. varðandi þær kvaðir, sem yrðu lagðar á, ef á að fara einhverja leið, sem kostar fé úr ríkissjóði. En hvernig getur hann eða ég eða nokkur annar gert sér grein fyrir, hvað það sé, sem þurfi að bera fram fyrir þingið til þess að fá útgerðina úr vör, áður en útvegsmenn treysta sér sjálfir til að segja það? Það er ekki fyrr en 15. des., að þeir koma með sínar till., og hraðfrystihúsin eru ekki enn búin að gera sér fulla grein fyrir þessu. (EystJ: Ég hef rætt um þetta atriði). Já, en við ræðum það kannske hvor frá sínu sjónarmiði. Mér skilst, að ef það er viðurkennt, — og það er ekki hægt að komast undan að viðurkenna það, — að till. stj. hljóti að miðast við það að ýta útgerðinni úr vör, þá sé það frumskilyrðið að vita, hvað útgerðin fer fram á, jafnvel þó að um bráðabirgðalausn sé að ræða, auk þess sem ástandið getur verið það alvarlegt, að maður treysti sér ekki til að bera fram bráðabirgðalausn, en það treysti ég mér ekki til að dæma um, fyrr en ég sé framan í till. En ég verð að segja það, að ef sá maður, sem ætlaði fyrir beiðni forseta Íslands að mynda stjórn, hefði fyrst átt að vera búinn að gera sér grein fyrir, hvernig ætti að sinna útveginum og hans þörfum, þá hygg ég, að sá frestur, sem gefinn var, hefði skammt hrokkið til þeirrar athugunar. Og ef við þm. hefðum gert þær kröfur til sjálfra okkar, þá hefði það leitt til þess, að við hefðum hér nú utanþingsstjórn, sem ég skal ekkert illt um segja, en það sýnir þó, að ef sá háttur hefði verið hafður, sem hv. þm. talar hér um, þá hefði það haft áhrif á fleira, en gang þessa eina máls.