23.11.1949
Neðri deild: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

17. mál, siglingalög

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Um mánaðamótin júlí–ágúst s.l. bárust ríkisstj. fregnir af því, að skipstjórar á síldveiðiskipum fyrir norðan land mundu ekki vegna fjárhagsörðugleika, sem leiddi af aflabresti fyrri hluta vertíðar, geta fengið keyptar vistir til skipa sinna, nema kröfur, sem stofnað væri til á þennan hátt, yrðu látnar njóta sjóveðsréttar. En í l. nr. 30 1. febr. 1946, um breyt. á og viðauka við siglingal. frá 1914, er svo ákveðið, að þessar kröfur njóti ekki sjóveðsréttar. Nú þótti það viðurhlutamikið, að síldveiðiskipin yrðu kannske um miðja vertíð að hætta veiðum, vegna þess að þessi réttur væri ekki fyrir hendi. Þess vegna voru gefin út um það brbl., að kröfur, sem skipstjórar stofnuðu til á þennan hátt vegna úttektar á vistum til skipa sinna, sem síldveiðar stunduðu 1949, yrðu látnar njóta þessa sjóveðsréttar. Frv. fjallar um þetta og þetta eitt, þ.e. að sjóveðsrétturinn er bundinn við sumarsíldveiðarnar 1949 og nær ekki til neinna annarra skipa heldur en þeirra, sem þær veiðar stunduðu. Af þeim orsökum, sem ég hef nú greint, liggur þetta mál svo ljóst fyrir, að ekki ætti að vera þörf frekari skýrslu um það. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.