25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Finnur Jónsson:

Það er enginn vafl á því, að það var bæði rétt og nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert með þessum brbl. á síldarvertíðinni. En þess ber líka að gæta, að þessar ráðstafanir hafa, vegna þess hvað vertíðin mistókst, náð mjög skammt. Það er kunnugt, að allur þorri sjómanna hefur komið heim með lítið annað, en þá litlu kauptryggingu, sem sjómenn yfirleitt hafa á síldarvertíðinni, og eins og ástandið er nú, má segja, að það væri til lítils fyrir sjómenn, þótt þeir færu að afhenda lögfræðingi þessar kröfur til innheimtu, og að því leyti er sjóveðið orðið harla lítils virði. Þar sem svo er ástatt, að allur þorri þeirra sjómanna, sem voru á síldveiðum í sumar, mun eiga inni verulegan hluta af kaupi sínu., vil ég spyrjast fyrir um það hjá fjmrh., hvort hann eða ríkisstj. hafi ekki gert neinar tilraunir í þá átt að fá bankana til þess að kaupa sjóveðskröfurnar og koma þannig því til vegar, að þessar kaupgreiðslur gætu farið fram. Sannarlega mundi það ekki örva menn til síldveiða í framtiðinni, ef ekki verður farið að gera eitthvað í þessu og síldveiðarnar fá það orð á sig, að menn fái ekki borgað það, sem þeir eiga að fá. Það mundi ekki verða til þess að örva til síldveiða í framtíðinni. Ég hefði talið rétt, að ríkisstj. athugaði það við bankana í framhaldi af þessari bráðabirgðalagasetningu, hvort þeir væru ekki fáanlegir til að leysa úr þessu kaupgreiðsluvandamáli sjómanna, þar til Alþingi gerir þær ráðstafanir, sem væntanlega þarf að gera.