25.11.1949
Neðri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það er nú hvað snertir fjárreiður bátaútvegsins að vissu leyti og öllu leyti annað viðhorf nú fyrir hendi, en var eftir síðustu síldarvertíð, þar sem í millitíðinni voru sett lög og reglur um það, á hvern hátt skyldi reyna að losa bátaútveginn við þær miklu kröfur, sem á honum hvíldu. Nú, skilanefndin hefur þessi mál með höndum, og veit ég, að margir bátar hafa lagt fram beiðni um skuldaskil, og um leið og þau fara fram, eru þeir orðnir lausir við það í bili að þurfa að standa við skuldbindingar sínar, sem annars eru aðkallandi, ef einstakir skuldheimtumenn sjá sér hag í að ganga að bátunum. Má segja, að sú löggjöf, sem sett var, þurfi endurbóta við, og ákvæði hennar eru ekki nærri svo tæmandi sem skyldi. Einkum hefur mér verið á það bent af þeim, sem standa fyrir framkv. l., að þótt til þess sé ætlazt og gengið út frá því, að kreppulánin, sem veitt hafa verið á undanförnum árum, verði ekki innheimt af hálfu ríkissjóðs, þá gæti þetta samt sem áður orðið mjög erfitt í framkvæmd og jafnvel gengið of nærri stjskr., að skilanefndin skeri niður kröfur einstakra kröfuhafa án þess að hafa leyfi til að greiða eða tryggja kröfuhöfum a.m.k. þann hluta, sem þeim er ekki ætlað að missa. Þetta er nú í sérstakri athugun, og hef ég mjög óskað eftir því við skilanefndina, að hún kæmi fram með till. til breyt. á þessari löggjöf, sem hægt væri að leggja fyrir Alþ., og hafði ég hugsað mér að gera það áður, en ég hætti ráðherrastörfum, ef mér vinnst tími til, ef ég fæ þessi gögn í hendur nægilega tímanlega frá sérfræðingunum, sem um þetta fjalla.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. (FJ) sagði, þá er viðhorfið að því er snertir ríkisstj. og bátaútvegsmenn þá, sem síldveiðar stunduðu, ekki það sama nú eða birtist að minnsta kosti ekki í sömu mynd og það gerði s.l. ár. Ég hef hér lýst þessum tilraunum ríkisstj., sem gerðar voru á miðju s.l. sumri. Það var gert án þess að einstakir útvegsmenn bæðu um það, en samkvæmt áliti t.d. stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins og annarra þeirra, sem höfðu svona nokkra yfirsýn yfir það ástand, sem ríkti, var talið, að það mundi hafa afdrifarík áhrif fyrir bátaútvegsmenn og sjómenn, ef ekki yrði eitthvað gert í þá átt, sem hér var lýst. En eftir að síldveiðunum lauk, skeði það á síðasta ári, að þá barst til rn. í gegnum vissa aðila beinlínis beiðni um það, að hafizt yrði handa til þess að leysa kreppu þá, sem á bátunum hvíldi, og það var gert, eins og þm. munu muna, með sérstakri nefndarskipun og sérstöku fjárframlagi úr ríkissjóði, og hefur skilanefndin eða kreppunefndin með höndum úthlutun á þessu fé, en verkefni hennar hefur svo samkv. löggjöf frá síðasta þingi um skuldaskil verið fært yfir á annað og víðtækara starfssvið, þar sem eru þessi skuldaskil, sem ég minntist á í ræðu minni og þurfa nokkurrar betri athugunar við. Þeir hafa kannske álitið það þýðingarlítið, en það hafa alls ekki komið neinar slíkar málaleitanir til rn., og það er varla þess að vænta, að slík mál séu tekin upp að fyrra bragði af ríkisstj. Hins vegar hef ég sem sjútvmrh. í öllu og einu við báða bankana reynt að hafa áhrif á það, að menn fengju a.m.k. það lágmark af peningum til útgerðarinnar, sem þyrfti til þess að standa undir mannakaupi. Það hefur vitaskuld verið meira í tilmælaformi af minni hálfu, því að ég hef ekkert valdboð notað í því efni, en eftir megni reynt að liðka fyrir, þar sem komið hefur til, að menn hafa borið sig upp um það, að þeir fengju, ekki aðstoð bankanna, en það hefur ekki komið fyrir á þessu hausti, hvað snertir mannakaup. En það hefur verið t.d. mjög kvartað yfir því, að bankarnir lánuðu svo lítið út á faxasíld, það sem fryst er til beitu, að menn gætu tæplega starfað að því vegna þess, hvað bankarnir lána lítið út á hverja tunnu, og út af þeim tilmælum gerði sjútvmrn. tilraun við báða bankana til að fá þá til að auka útgerðarlánin til beitufrystingar, og benti á þá miklu þjóðarnauðsyn, sem á því er, að næg beita sé fryst. Það lenti, eins og um margt annað, í allmiklu þófi um þetta milli rn. og bankanna. Hvort þeir hafa aukið það eða hummað það fram af sér, skal ég ósagt láta. En sums staðar fór það svo, að veiðin var það ör, að við losnuðum við þá hættu, sem þótti yfir vofa, að hér yrði ekki fryst nóg beita og yrði að kaupa hana frá útlöndum eins og síðast, og því vildi ég og aðrir, sem um petta fjölluðu, forða, ef unnt væri, og það var ekki sízt með þeirri röksemd, sem ég hef reynt að fá bankana til að lána meira út á síldina heldur en þeir gerðu.

Eins og ég sagði áðan, þá hafa engin tilmæli eða skýrslugerð farið fram af minni hálfu eða Fiskifélagsins á ástandinu hjá bátaútveginum, en einhvern veginn er ég undir þeim áhrifum, að yfir höfuð hafi bátarnir gert ljósar þær kröfur, sem á þeim hvíldu vegna fólksins. A.m.k. í þeirri verstöð, þar sem ég er kunnugastur og dvaldist um tíma í haust, heyrði ég ekki talað um neitt tilfelli, þar sem útgerðarmenn hafi ekki getað leyst frá sér fólk. Hins vegar er ég ekki að vefengja, að það kunni að hafa verið einhver brögð að þessu, en ég vil benda á, að það hefur ekki verið leitað til ríkisstj. til að leysa þann vanda, enn sem komið er.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á 3. gr., þar sem stendur: „Taka skal á fjárlög fyrir 1950 fjárveitingu til endurgreiðslu lánanna, er samsvari því, sem ógreitt er af þeim 31. jan. n.k.“ Þessi gr. er eiginlega sett inn af þeim ástæðum, að það varð að sýna bönkunum fram á, að það væri meiningin, að þetta fé yrði ekki vanskilafé, þótt þeir féllust á að lána einstökum útgerðarmönnum, og þess vegna var það sett í l., að það, sem kynni að vera ógreitt 31. jan. n. k., skyldi tekið á fjárl. fyrir árið 1950. Það er fyrirheit af hálfu ríkisstj. — fyrirheit, sem Alþ. tekur að sér, ef það samþ. þessa ráðstöfun. Ætla ég, að ég hafi með því gert grein fyrir því gagnvart hv. þm., hvers vegna þessi 3. gr. er þannig orðuð. Það er nú þannig með lánsfé nú á tímum, ekki sízt það lánsfé, sem lánað er undir þessum kringumstæðum, að það er kannske meiri vonarpeningur heldur en annað, og ríkisstj. getur ekki farið fram á það, að bankarnir geri svona hluti, nema þeim sé tryggt á einhvern forsvaranlegan hátt, að þeir tapi ekki fé, og það getur ríkisstj. og Alþ. einvörðungu tryggt með því að bindast fastmælum um það að endurgreiða bönkunum samkv. ábyrgð ríkissjóðs það, sem þeir kunna að missa af þessu lánsfé sökum vandræða skuldunauta sinna.