10.01.1950
Efri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér hefur fundizt gæta nokkurs misskilnings hjá þeim hv. þm., sem hafa látið ljós sitt skína hér. En það var út af framískoti hv. 1. þm. N–M., að ég vildi segja nokkur orð, en hann skaut því inn, að ríkisstj. væri ekki vön að fylgja þeim frv., sem hún stæði að, úr hlaði. Það er sagt, að um þá dauðu eigi ekkert að segja nema gott, og ég held, að hv. þm. hefði átt að tileinka sér það og minnast þess, að frv. þetta var flutt af fyrrv. ríkisstj., en það er erfitt fyrir hana, sem er löngu komin í dauðra reit, að vera viðstödd og veita frv. brautargengi hér í hv. d., enda átti hún í lifanda lífi öfluga stuðningsmenn hér í hv. d., sem hún gat treyst á, að mæltu með frv. fyrir hennar hönd.

Mér hefur skilizt, að umr. mótuðust aðallega af því, að hv. þm. gerðu sér ekki ljóst, að frv. er aðeins staðfesting á bráðabirgðalögum, og þar af leiðandi kemur fyrirsögnin mönnum einkennilega fyrir sjónir, eins og kom fram hjá hæstv. forseta, en það verður allt skiljanlegra, þegar athugað er, að aðeins er um staðfestingu á bráðabirgðalögum frá 12. ágúst 1949 að ræða. En eins og mönnum er kunnugt, var ljóst, þegar nokkuð var liðið á síldveiðitímann, að töluverður hluti síldveiðiskipanna mundi hverfa frá veiðunum, áður en fullreynt væri, hvort ekki mundi úr rætast, ef ekki væru gerðar ráðstafanir til að hjálpa þeim til að halda veiðunum áfram. Ríkisstj. fékk öruggar fregnir um það, að viðbúið væri, að sjómenn hlypu af bátunum, þar eð þeir fengju engar vistir, þar sem útgerðarmenn fengu ekki úttekt í verzlunum, þar sem ekkert aflaðist og þeir gátu þar af leiðandi ekki goldið úttektina. En það er reynsla, að oft hefur veiðzt mikil síld eftir miðjan ágúst, og auk þess var búið að festa mikið fé í útgerð þessara báta, og því taldi ríkisstj. stórhættulegt, ef mikill hluti flotans færi af miðunum. Öruggasta ráðið til að koma í veg fyrir slíkt var að veita þeim, sem verst voru staddir, bráðabirgðalán. Bankarnir töldu, að útgerðarmenn væru nú svo illa staddir, að samkv. útlánsaðferðum sínum mættu þeir ekki veita þeim lán, og varð ríkissjóður því að ganga í ábyrgð fyrir þá, eins og gert hafði verið árið áður, en sá munur var á þessu, að Landsbankinn óskaði eftir formlegum heimildum, og eftir að ráðh. höfðu talað hver við sinn flokk til að tryggja bráðabirgðalögunum fylgi, voru svo lögin sett 12. ágúst til að afla lánsheimildar, til þess að bankarnir fengjust til að lána fé það, sem talið var óhjákvæmilegt til þess, að útgerðin stöðvaðist ekki, á meðan hægt var að telja. veiðivon. Þegar á þetta er litið, held ég, að málið sé nægilega skýrt og sett í annað ljós, heldur en gert var af þeim hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M. Hv. þm. Barð. lét sér tíðrætt um, hvort ákveðin upphæð í fjárl. hefði verið sett til að standa undir þessu. Ég vil benda á það, að samkvæmt frv. sjálfu og bráðabirgðal., eins og þau voru samin, þá er ætlazt til að þetta verði fyrst ákveðið eftir 31. janúar n.k., þannig að fyrr verður ekki hægt að ákveða upphæðina. Hitt er matsatriði, hvort heildarupphæðin til endurgreiðslu lána dugi til eða ekki; slíkt fer eftir skoðun hv. fjvn. og Alþ., hvort nóg verður lagt til, til að fullnægja 3. gr. frv. eða hvort sett verða ný ákvæði. Hitt er sagt í frv. sjálfu, að ekki sé ætlazt til, að inn á fjárl. sé tekin sérstök fjárhæð í þessu skyni, fyrr en eftir 31. jan. n.k., einfaldlega af því, að það er ekki hægt fyrr.

Það er mín skoðun, að fyrrv. ríkisstj., sem stóð óskipt að frv., hafi aflað sér upplýsinga um það, að hún hefði nóg fylgi á bak við sig, svo að henni væri áhætt að setja þessi bráðabirgðalög, því að annars hefði engin trygging verið í setningu þeirra.