19.01.1950
Efri deild: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Þorsteinn Þorsteinsson:

Forseti. Ég vil leyfa mér að gera grein fyrir fyrirvara mínum í nál., sem fylgir þessu frv. Frv. þetta, með þeim brtt., sem nú hafa verið lagðar fram við það, er í raun og veru tvíþætt. Annar hluti þess er staðfesting á brbl., sem út voru gefin 12. ágúst s.l., en hinn hlutinn felst í síðari málsgr. 1. gr. skv. brtt. og er algerlega óskyldur hinu málinu, sem felst í brbl. Lög þessi, ef samþ. verða, eru aðeins heimildarlög, og er því farið gætilega í málið. Annar þátturinn er spunninn um gamlan atvinnuveg og gamla atvinnuhætti og er því mjög skiljanlegur. Hinn þátturinn spinnst um nýja atvinnugrein. Samkvæmt skýrslu, sem hér liggur fyrir frá h/f Nirði, er gerð grein fyrir bráðabirgðauppgjöri um veiðarnar við Grænland, og er þar gerð grein fyrir um 80 þús. kr. rekstrarhalla á þeirri útgerð. Þar er ekki gerð grein fyrir lausaskuldum félagsins, og væri því æskilegt, að hæstv. ríkisstj. léti athuga þetta nánar, áður en frekar verður farið út í þetta mál, ef samþ. verður.

Eftir því sem fyrir liggur hjá n., munu það vera aðeins 2 eða 3 bátar, sem bera sjóveð enn á herðum sér, og munu þeir að sjálfsögðu leita aðstoðar ríkisins. Ég geri fastlega ráð fyrir, að jafnvel þótt þessir bátar hefðu ætlað að spila upp á eigin spýtur, þá muni eigendur þeirra, er þeir sjá þetta frv., leita til ríkisins um aðstoð til að leysa sjóveðin. Mér finnst þegar vera orðin of mikil ásókn á fé ríkisins, þótt ekki sé verið að lofa miklum fúlgum fyrir fram og gefa undir fótinn með styrki, eins og hér er gert.

Ég tel, að þing og stjórn hafi verið of víðfaðma í sinni styrkjapólitík, og vel má vera, að þegar þeir, sem skilvísastir hafa verið, sjá, að öðrum, sem meira mega sín, er veitt aðstoð, þá dragi það úr sjálfsbjargarviðleitni þeirra og þeir reyni ekki eins að losa sig úr skuldum sínum.

Að öllu þessu athuguðu og einnig því, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan, að 2. mgr. 1. gr. eigi hér alls ekki við, því að það, sem þar er talað um, sé alveg óskylt, þá vildi ég helzt, að þessi brtt. hefði aldrei komið fram. Ég sé mig alveg tilneyddan að greiða atkv. á móti henni, þótt ég aftur á móti sæi ekki ástæðu til að kljúfa n., þar sem öll n. var sammála um meginatriði frv.