20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur gengið í gegnum hv. Nd. og er komið hér til 2. umr. Mér þykir rétt að benda hér á einstök atriði og gera nokkru nánari fyrirspurnir til hæstv. ríkisstj., í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og þá einkum í sambandi við framkvæmd á ábyrgðinni, þar sem hér er um heimildarl. að ræða, samkv. 1. gr. frv. Ég vildi þá gjarna fyrst mega spyrja hæstv. ríkisstj. um það, hvort það hafi ekki verið ásetningur hennar, þegar brbl. voru gefin út, að greiða ábyrgð fyrir öllum þeim útgerðarskuldum, sem kynnu að myndast hjá sílveiðiflotanum eftir 12. ágúst á s.l. sumri, vegna þess að menn héldu, áfram veiðum beinlínis fyrir tilmæli ríkisstj., eða var hugsað, að ríkissjóður bæri ábyrgð á öllum þeim skuldum, sem kynni að verða stofnað til vegna síldarútgerðarinnar yfir allan veiðitímann, en þó innan þeirra takmarkana, sem getið er um í 2. gr., að samanlögð ábyrgð ríkissjóðs vegna þessara lánveitinga megi ekki fara fram úr kr. 2.250.000,00? Mér þykir nauðsynlegt að fá upplýsingar um þetta, áður en hv. d. afgr. málið, og helzt áður, en þessari umr. lýkur. Það hefur verið upplýst af hæstv. ríkisstj., að hún hafi séð sig tilneydda til að gefa út þessi brbl., svo að síldveiðiflotinn stöðvaðist ekki á síðasta sumri. Ég held, að ekki verði deilt um það, að þetta hafi verið nauðsynlegt, og ég hygg, að ekki hafi komið fram nein mótmæli við umr. eða ásakanir til hæstv. ríkisstj. um þessi atriði, enda teldi ég það ekki rétt. Á hinu er talsvert mikill eðlismunur, hvort hæstv. ríkisstj. hefur hugsað sér að ábyrgjast allar skuldir, sem stafa af því, að haldið er áfram veiðum, eða hvort hún hefur hugsað sér að ábyrgjast einnig þær skuldir, sem myndast áður en hún tekur á sig þessa ábyrgð. Sé það meiningin, að ekki sé tekin ábyrgð á öðrum skuldum en þeim, sem myndast eftir 12. ágúst, þá er meiningarlaust, eins og hæstv. dómsmrh. benti á, að samþ. brtt. hv. 1. þm. Eyf., því að hún er um algerlega óskylt mál, eins og hún er um óskylt mál líka, þó að hugsað væri að greiða allan kostnaðinn yfir síldveiðitímann. Þetta kemur til af því, að með því að tryggja það, að síldveiðiflotinn sé á veiðum, er verið að gera tvennt: Annars vegar er verið að afla gjaldeyris í þjóðarbúið — og má segja, að þeir hafi gert það sama, sem fóru til Grænlands —, en hins vegar, og er það ekki síður þungt á metaskálunum, er verið að tryggja síldarverksmiðjum ríkisins afla, og það er frá mínu sjónarmiði ákaflega mikilsvert atriði. Síldarverksmiðjur ríkisins hafa því verkefni að gegna að taka á móti þeim afla, sem berst að yfir síldveiðitímann og gera úr honum verðmæti, og þarna eru bundnar tugmilljónir króna, og engir möguleikar eru fyrir eigendur síldarverksmiðjanna að reka þessi fyrirtæki nema yfir síldveiðitímann. Mér finnst því sú ráðstöfun, að tryggja sem lengstan veiðitíma og sem mestan afla, vera hárrétt, einmitt með tilliti til þess að stöðva ekki þessi atvinnufyrirtæki, en þetta á að sjálfsögðu ekki við um þá, sem stunduðu veiðar við Grænland í sumar. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir því, þó að þessir menn hefðu leitað til ríkisstj. í byrjun síldveiðitímans um ábyrgðarheimild, að hún hefði þá tekið að sér að ábyrgjast greiðslur vegna taps á útgerðinni, og hefði ekki talið það nauðsynlegt, en þess vegna tel ég heldur ekki eðlilegt, að ríkissjóður taki á sig ábyrgð á öðrum taprekstri en þeim, sem verður á útgerðinni eftir að ríkisstj. stöðvar viðkomandi útgerðarmenn í því að hætta síldveiðum, og þeir taka á sig áhættuna við síldveiðarnar frá 12. ágúst og út veiðitímann. Mér finnst því eðlilegast að binda þetta í l. við það, að ábyrgðin sé ekki tekin á öðrum skuldum en þeim, sem myndazt hafa eftir þann tíma.

Þá vil ég í sambandi við þetta leyfa mér að gera fyrirspurn um það, hvort gert hafi verið ráð fyrir því, þegar ábyrgð ríkissjóðs hefur verið gefin til að leysa áfallin sjóveð, að útgerðarmenn hafi áður greitt til sjómanna a.m.k. 55% af brúttóaflaverði hvers skips. Það er vitanlegt, að það er sem næst því að vera 55%, sem skiptist eftir ákveðnum reglum milli skipshafnarinnar. Þar að auki er útgerðarmanninum skylt að ábyrgjast lágmarkskaup til sjómanna. Þessi 55% hefur útgerðarstjórinn ekki undir neinum kringumstæðum leyfi til að taka til þess að greiða með þeim aðrar skuldir né kröfur. Ef því ábyrgðin er eingöngu bundin við að greiða sjóveð, sem féllu á bátana, þá skilst mér, að gæta verði þess, að greitt hafi verið til fólksins fyrst og fremst þessi 55% af öllum brúttóafla, sem á skipið hefur komið á tímabilinu. Og þar að auki skilst mér, að geti komið til greina að ábyrgjast fram yfir þetta aðeins þá upphæð, sem fellur undir sjóveð. Ég vildi því gjarna heyra, hvort þetta hefði verið gert, bæði í sambandi við þessa ábyrgð og líka í sambandi við ábyrgðina 1948. Ég hef heyrt því fleygt, að í mörgum tilfellum hafi þessa ekki verið gætt, en að sjálfsögðu hefur hæstv. ráðh. um það fulla vitneskju. Sé þetta ekki gert, getur skapazt það ástand, að útgerðarmaðurinn taki kannske svo og svo mikinn hluta aflans og vanræki að greiða sjómönnunum þau 55% af heildaraflanum, sem hann í raun og veru ekki á, og láti síðan leggja sjóveð á skipin, og síðan verður ríkið að greiða miklu hærri lögveðskröfur en eðlilegt væri, ef þessari reglu væri fylgt, sem ég hef nú gert fyrirspurn um.

Þá þykir mér rétt að spyrjast fyrir um það, hvort í fjárlagafrv. fyrir 1950 hafi nokkrar tekjur verið áætlaðar til að mæta þeim gjöldum, sem þarna koma til greina samkv. 3. gr. frv., og ef svo er, hve mikið er þá hugsað að taka inn á fjárl. nú á þessu ári? Er þá hugsað að taka alla fjárhæðina inn á fjárl., eða kemur aðeins einhver hluti hennar til greina strax? Ég vildi svo fá það upplýst, hve háa fjárhæð bankarnir hafa lánað þessum skipum vegna ríkisábyrgðarinnar og hve mikið er búizt við að endurgreitt verði fyrir 31. þ.m. Þær upplýsingar, sem ég bið hér um, hafa veruleg áhrif á afgreiðslu fjárl. Að síðustu vildi ég svo spyrja um það, hvort tilraunir hafa verið gerðar til þess að fá nokkurn gjaldfrest á þeim eftirstöðvum, sem ógreiddar kynnu að verða 31. þ.m., svo að ekki þurfi að taka alla þá upphæð inn á fjárl. þessa árs, einkum ef útgerðarmenn yrðu þess megnugir að endurgreiða lánið á þessu ári.

Ég minntist nokkuð á þessi atriði við 1. umr. málsins og bjóst við að hv. fjhn. mundi afla sér þessara upplýsinga, en nú hefur það ekki orðið, og hef ég þess vegna óskað eftir, að umr. væri frestað, þar til þessar upplýsingar lægju fyrir. Samkv. 3. gr. frv. er beinlínis fyrirskipað að taka á fjárl. 1950 þá fjárveitingu, sem hér um ræðir, til endurgreiðslu lánanna, og nú hefur hæstv. sjútvmrh. upplýst, að það sé ekki tekin nein upphæð inn á frv., eins og það liggur fyrir nú á þskj. 49, og þess vegna þurfi að bæta inn á fjárlagafrv. útgjöldum samkv. 3. gr. þessa frv., svo framarlega sem ekki er hægt að komast að samkomulagi við lánveitendur, eins og ég minntist á.

Mér þykir rétt að ræða nokkuð brtt., sem fram hefur komið við 1. gr. frv. Það er eðlilegt, að orðið hafi að umorða gr., vegna þess að afgreiðsla málsins hefur dregizt fram yfir áramót. Ég ræddi einnig við hv. form. n. í gær um það, að nauðsynlegt mundi vera að breyta einu orði í 1. gr. frv., og sé ég, að hann hefur borið fram brtt. um það á þskj. 250. En mér finnst, að kveða þyrfti nánar á um þessi atriði í greininni, og ég vildi biðja hv. form. n. að athuga, hvort ekki væri rétt að bæta aftan við gr.: „til áframhalds veiðitímans eftir 12. ágúst“, því að eins og gr. er orðuð nú, þá má skilja hana þannig, að það skuli heimilt að ábyrgjast lán til þeirra útgerðarmanna, sem síldveiðar stunduðu sumarið 1949, þó að það hafi ekki beint verið til þess, að hægt væri að starfrækja útgerðina við síldveiðarnar. Að vísu eru þetta heimildarl. og hægt að fara þannig með þetta í framkvæmdinni, að ekki sé greitt til annarra, en eins og gr. er orðuð, er ekki vafi á því, að heimilt er að veita ábyrgðarlán útgerðarmönnum, sem gera út allt árið og hafa tapað fé á annars konar útgerð heldur en síldveiðum, ef þeir uppfylla aðeins þau skilyrði að hafa stundað síldveiðar sumarið 1949. Vænti ég, að hv. form. n. taki þetta til athugunar. Ég hef hins vegar heyrt því fleygt, að sumir af þeim útgerðarmönnum, sem fengu lán eftir 12. ágúst, hafi hætt veiðum strax er þeir höfðu fengið lánið, og hefur það náttúrlega ekki verið ætlan hæstv. ríkisstj., að eftir að búið var að veita mönnum þessi fríðindi og þeir voru búnir að fá peningana í hendurnar, þá notuðu þeir fyrsta tækifærið til að hætta við veiðarnar. Mér er sagt, að nokkur brögð hafi verið að þessu, og væri gott að fá það upplýst undir meðferð málsins.

Í sambandi við brtt. þá, sem n. ber fram, seinni málsgr. hennar, þá er ég alveg sammála hæstv. dómsmrh. um það, að þessi gr. á ekki við í þessu frv., og væri mjög æskilegt, að n. vildi draga þessa till. til baka og leitast við að koma henni fram á öðrum vettvangi, því að það kynni svo að fara, ef þessi gr. verður samþ., þá yrðu það einhverjir þm., sem ekki vildu fylgja frv., en væru fúsir til að fylgja því, ef gr. væri ekki með. Þetta eru alveg óskyld atriði, og á að greiða um það atkv. sérstaklega, án þess að binda það við þetta frv., hvort veittur skuli styrkur til þessa eða ekki. Annars er það alveg ljóst, að styrk til slíkrar starfrækslu og hér um ræðir á að veita úr fiskimálasjóði. Hann hefur það hlutverk fyrst og fremst að styrkja menn til þess að reyna ný veiðisvæði, nýjar veiðiaðferðir og til að leita nýrra markaða o.s.frv. Þetta er hans fyrsta og aðalhlutverk. Hann hefur hins vegar farið inn á annað verksvið, sem hann hefur a.m.k. einnig heimild til að gera, og skal ég ekki ræða um þetta frekar hér. En fyrst og fremst er það hans að standa undir slíkum kostnaði og hér um ræðir, og það er ákaflega óeðlilegt að leggja þennan kostnað á ríkissjóð, þegar Alþ. hefur gengið þannig frá l. um fiskimálasjóð, að það hefur tryggt honum verulegar árlegar tekjur til þess að standa undir þessari fyrstu skyldu sjóðsins.

Ég mun því ekki sjá mér fært að greiða atkv. með þessari brtt. í sambandi við þetta mál. Ég hef afhent hæstv. atvmrh. þessar fyrirspurnir skriflegar í gær og vænti þess, að hann vilji gefa upplýsingar um þetta mál.