20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umræðurnar neitt að ráði. Það er eingöngu varðandi brtt. á þskj. 242, að ég vildi bæta örfáum orðum við það, sem kom fram hjá hv. frsm. fjhn. í frumræðu hans um þetta mál.

Ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir, hversu miklu stórskotaliði hefur verið teflt fram varðandi þessa till. Ég hygg, að hv. frsm. n. hafi gert grein fyrir henni. Fer umrædd brtt. fram á, að sú fyrirgreiðsla, sem er í frv., aðstoðin til útgerðarmanna, er síldveiðar stunduðu 1949, um sumarið, verði einnig látin ná, aðallega til eins báts, er stundaði fiskveiðar við Grænland á sama tíma, og e.t.v. tveggja smærri báta í viðbót. Það eru í hæsta lagi þrír bátar, sem koma til greina. Sjóveðin, er hvíla á þeim, nema um 70–80 þús. kr. Hér er og bundið við, að þeim bátum einum verði veitt þessi aðstoð, sem ganga munu, svo að tryggt sé, til fiskveiða hér við land á komandi vertíð í vetur, og þeir eru eigi nema þrír. Sé ég ekki ástæðu til að leggjast eins á móti þessu og kom fram hjá tveim hv. þm., og ólíklegt er, að hv. þm. Barð. hugsi til þess að binda fylgi sitt við frv. því, hvort brtt. verður samþ. eða ekki. Í l. um ábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins er ákveðið að leggja 11/2 millj. kr. til tryggingar því, að þessi löggjöf komi að notum, þ.e.a.s. til að afstýra því, að bátarnir geti eigi komizt á sjó fyrir sakir áhvílandi sjóveða. Er samur tilgangurinn hér, þótt um sé að ræða staðfestingu á því, sem gert var í sumar. Hvort tveggja: þau lög og þetta frv. —miðar bara að því að tryggja, að flotinn geti notað þessa aðstoð, svo að hann sé eigi bundinn af ógreiddum kröfum. Kemst nú nær allur flotinn af með hana, nema þessi þrír bátar. Ég hygg það vera nægilega upplýst, að til þess eru engin líkindi, að útgerðin komist af stað á komandi vertíð, nema hægt sé að leysa sjóveðskröfurnar, og ómögulegt sé fyrir hana að færa sér í nyt fríðindi þau, sem ákveðin eru í l., fyrir sakir sjóveða. Er eðlilegt, að l. séu látin gilda um hina örfáu báta frá Ísafirði, er fóru til Grænlands, eins og um flotann almennt. Skiptir að því leyti engu máli, hvort bátar hafi stundað veiðar hér við land á sumarsíldveiðivertíðinni eða við Grænland. Viðkomandi félag á tvo báta. Annar þeirra fer á síldveiðar, hinn til Grænlands. Ég hygg of mikla smámunasemi, ef þetta atriði á að vera því til fyrirstöðu, að þessi bátur, og hinir tveir, geti notað sér fríðindi l. í sama mæli. Ég vil því mæla með því, að brtt. n. verði samþ. Vona ég, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að láta fyrirgreiðsluna ná einnig til 2–3 báta. — Þá er hér aðeins um heimild að ræða, og er viðeigandi að láta hana ná til alls flotans.

Það var minnzt á reikningsyfirlit af hæstv. ráðh. Veit ég vel, að slíkar grg. verða að liggja fyrir.

Ég held, að það hafi verið hæstv. dómsmrh., sem sagði, að leita mætti til hv. fjvn. með umsóknir um styrki. En bið getur orðið á, að menn komist á vertíðina, ef biða á eftir því, að slík hjálp berist.