20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Eins og ég skýrði frá í framsöguræðu minni og hv. þdm. sjá, er 1. mgr. aðalbrtt. n. fólgin í umorðun á 1. gr. frv. Að sumu leyti á að færa hana til betra máls, en að öðru leyti er hún vegna þess, að nú er annar tími. Bera brbl. með sér, á hvaða tíma þau eru sett, og n. var öll sammála um að breyta orðalaginu hér og láta sjást, að hér er um liðinn tíma að ræða. En við nánari athugun sýnist mér, að n. hafi ekki gengið nógu rækilega til verks. Þar sem stendur í brtt. n.: „Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast bráðabirgðalán, er Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands h/f veita, til þeirra útgerðarmanna, er síldveiðar stunduðu sumarið 1949“, — var að því leyti farið eftir orðalagi frv. En það gæti skilizt svo, að heimild væri til að ábyrgjast framhaldandi ný lán, aðeins ef þeir hefðu stundað síldveiðar á þessum tíma. Ég hef því borið fram þessa litlu brtt. við brtt. n. á þskj. 242: „Við tölul. 1. Fyrir orðið „veita“ í fyrri málsgr. komi: veittu“, svo að skýrt komi í ljós, að hér er um engin ný lán að ræða. Mér þótti ekki taka því að kalla n. saman vegna svo lítils.

Um megintill. n. get ég vísað til þess, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði viðvíkjandi Grænlandsveiðunum. Atvmrh. sagði í gær, að ríkisstj. hefði engin loforð gefið viðvíkjandi veiðunum við Grænland. Ég talaði heldur aldrei neitt um það. En hæstv. ráðh. bar aldrei á móti því, sem stendur í greinargerð forstjóra Njarðar, að ríkisstj. hafi verið því mjög hlynnt, að þessi tilraun væri gerð. Hæstv. dómsmrh. sagði margt athyglisvert um þetta í gær, og var ég honum um ýmsa hluti sammála. En hvað þetta atriði snerti, fannst mér hann ekki draga að öllu leyti réttar ályktanir af þeim forsendum, sem hann flutti. Ég fæ ekki séð þann mikla eðlismun, sem hann virtist telja að væri á síldveiðaaflabrögðum og fiskveiðum við Grænland. — Fiskveiðar við Grænland eru auðvitað enginn sérstakur atvinnuvegur og aðeins þáttur í fiskveiðum okkar. En þær eru hins vegar nýjung. Og ég verð að telja, að þeir, sem brjóta nýjar brautir, eigi ekki síður stuðning skilið en þeir, sem fara troðnar slóðir. Sú skoðun kom fram hjá hv. þm. Barð. Hins vegar sagði hann, að hér hefði það verið fiskimálasjóður, sem hefði átt að hlaupa undir bagga. Er það í sjálfu sér rétt. En sjóðurinn er bara þannig stæður, að hann er ekki fær um að veita mikla aðstoð, og hefði hann átt að veita styrk, hefði orðið að semja um það við sjóðsstjórnina áður, en tilraunin var gerð.

Hæstv. dómsmrh. sagði réttilega, að gróða af Grænlandsútgerðinni, ef hann hefði einhver orðið, mundi ekki hafa verið skilað í ríkissjóð. — En dettur honum í hug, ef stórgróði hefði orðið á síldveiðunum í sumar, að honum hefði verið skilað í ríkissjóð? Ég held við getum orðið sammála um, að svo mundi ekki hafa verið gert, og sé ég því ekki, að þessar röksemdir hans hafi mikið að segja út af fyrir sig.

Þá taldi hæstv. dómsmrh., að jafnvel þótt það yrði að ráði að hjálpa Grænlandsleiðangrinum, þá ættu tillögur um það ekki heima í þessu frv., heldur væri það rétt að bera þær fram sem brtt. við fjárlög. Þetta getur nú verið álitamál, og kann að vera, að þetta eigi ekki reglulega vel heima í þessu frv. Líka gæti komið til mála að flytja um þetta sérstakt frv. En ætti að flytja þetta mál sem brtt. við fjárlög, þá mundi leiða af því, að hjálpin kæmi of seint. Það er nefnilega ekki aðalatriði í þessu að bæta útgerðarmönnum tjónið. Till. er ekki um styrk. Hún er um lán til að leysa sjóveð af bátunum, til þess að sjómennirnir, sem þar unnu, fái sitt kaup og tryggt sé, að bátarnir geti gengið áfram á veiðar. Till. er ekki um neinar gjafir, heldur um lán, sem síðar yrðu innheimt, ef kostur yrði á. Og ég vil leyfa mér að halda því ákveðið fram, að þar sem Alþingi hefur gert ráðstafanir til að leysa sjóveð af öðrum skipum, og það ekki í fyrsta skipti á þessu þingi, þá er mér ómögulegt að skilja, hvers vegna þessir fáu sjómenn, sem stundað hafa fiskveiðarnar við Grænland, mega ekki verða hins sama aðnjótandi. — Tökum til dæmis, að útgerðarfélagið Njörður gerir út tvo báta, annan á síldveiðar og hinn á Grænlandsmið. Nú munu sjómennirnir yfirleitt hafa ráðið sig á bátana til veiða án þess að vita, hvar þær yrðu stundaðar, og eins konar tilviljun ráðið því, hvaða bátar fóru til Grænlands og hverjir á síldveiðarnar. Þá ræður líka tilviljun um það, hvor hópurinn fær sína lágmarkstryggingu greidda að loknum veiðum, því að mér skilst, að úr því að svona hátt sjóveð hvílir á skipunum, þá sé þar a.m.k. að einhverju leyti um kaup sjómannanna að ræða. Sjá allir, hvaða réttlæti er í þessu.

Það er ekkert atriði fyrir mér í sjálfu sér, að till. um þessa aðstoð komi fram í þessu frv. En það var farið fram á það, að þetta væri borið fram í sambandi við frumvarpið um ábyrgðarverð á fiski, og það vildi n. ekki fallast á, að skjóta þannig aukaatriði inn í það stóra mál. Hér gegnir öðru máli.

Það, sem hv. 11. landsk. sagði um sinn fyrirvara, hef ég ekki mikið að athuga við. Hann benti á, að það, sem stæði í grg. h/f Njarðar, væri umsögn forstjórans og engin trygging væri fyrir því, að niðurstöður væru réttar. Það er rétt. En þetta er heldur engin fyrirskipun til ríkisstj., heldur heimild til að veita þessa aðstoð, og þarf hún ekki að reiða neitt af höndum, fyrr en hún hefur gengið úr skugga um, að málið sé svo vaxið sem það er fyrir lagt. Fyrirtækið hefur bókhaldsskyldu, og á ríkisstj. auðveldlega að geta sannfært sig um það, hvernig þessu er háttað. Mæli ég ekki með því, að hjálp yrði veitt, ef það kæmi upp úr dúrnum, að hér væri um plötuslátt að ræða.

Varðandi þær hugleiðingar, hvaða áhrif aðstoð þessi hefði á þá, sem hjálpa sér sjálfir, vil ég segja það, að mér hefur staðið mjög stuggur af þeim hugsunarhætti, sem skapazt hefur í okkar þjóðfélagi, að allt eigi að heimta af ríki og bæ, þegar bjátar á, en komast þó hjá að borga skatta á móti. Ég hef aldrei skilið, hvernig menn koma þessu saman í sínum —huga. Til þess að þetta geti gengið, þyrfti að vera um einhverjar aðrar uppsprettur auðs að ræða heldur en framleiðslu þjóðarbúsins. — En þegar út í þessa vitleysu er komið á annað borð, þá virðist það vera álitamál, hvort það eigi að taka mjög fámennan hóp og meina honum að sitja í þessu efni við sama borð og aðrir. (Einhver: En einhvers staðar verður þó að spyrna fótum við.) Það er rétt, en með aðgerðum í miklu stærri stíl. Og hvers vegna eiga síldveiðisjómenn, sem atvinnu hafa stundað hjá sérstöku fyrirtæki, að fá sitt kaup, en þeir, sem stundað hafa fiskveiðar við Grænland hjá sama fyrirtæki, að ganga slyppir frá borði? Það sé ég ekki. — Mér er þetta ekkert persónulegt áhugamál. Ég þekki ekki þá menn, sem hér standa að, og hef engar skyldur að rækja við hlutafélagið á Ísafirði, en eftir atvikum fannst mér samt sanngjarnt að verða við beiðni þessara manna.

Hv. þm. Barð. taldi, að nauðsyn væri að bæta því ákvæði við gr., að ábyrgðin sé bundin við þau lán, sem tekin séu eftir 12. ágúst. Eftir skýrslu hæstv. atvmrh. skilst mér, að ekki sé þörf á því. Það er búið að framkvæma bráðabirgðalögin, og ef brtt. verður samþ., verður ekki um önnur lán að ræða en þau, sem þegar er búið að taka ábyrgð á.

Hv. þm. fór fram á það, að n. drægi till. sína til baka. Það get ég ekki gert fyrir n. hönd, og sé enda enga hættu í því, að atkvæði fái að ganga um hana. Mér skilst nú helzt, að horfur séu á, að ábyrgðin verði ekki veitt. Ég veit ekki, hvort deildinni sýnist og ráðh., að fresta skuli umræðum, svo að n. geti athugað, hvort draga skuli till. til baka. En ég sé nú enga þörf á þessu.

Ég hef áður minnzt á fiskimálasjóð í sambandi við þetta og þarf ekki að svara hv. þm. Barð. viðvíkjandi því. En varðandi það, sem hann sagði um 3. gr., vildi ég leggja á það áherzlu, — og þykir illt, að hæstv. atvmrh. og fjmrh. skuli ekki vera hér viðstaddir, og vil biðja hæstv. dómsmrh. að koma því á framfæri í ríkisstj. — að hér er ekki um styrk að ræða, heldur ábyrgð. Ég vil því leyfa mér að óska þess, að hæstv. ríkisstj. geri sitt ýtrasta til þess að útvega hlutaðeigendum lán, sem hún yrði að vera í ábyrgð fyrir, og sú upphæð, sem yrði veitt á fjárlögum, yrði ekki há. Þó yrði að taka lánin inn á fjárlög, ef bankarnir ganga að. En á meðan ekki er vitað, hvað tapast, er ekki ástæða til að taka þetta inn á útgjaldareikning á fjárl. og rétt að gera ráð fyrir, að meiri hlutinn innheimtist. Síldveiðar gætu gengið miklu betur í sumar, en áður, og gætu menn þá endurgreitt lánin. Ég mæli þannig ekki með frv. í þeim skilningi, að féð eigi að gefa.

Skal ég svo láta útrætt um þetta að sinni og ekki tefja umræður frekar.