17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Það snertir ekki þær umr., sem hér hafa farið fram. Mig langar til að bera fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Því miður sé ég hann ekki í sínu sæti en mér dettur í hug, að hæstv. atvmrh. mundi ef til vill bera honum þessa spurningu mína, og reyndar snertir málið hann, því að það er ekki langt síðan hann lét af störfum fjmrh. Það, sem ég vildi spyrja um, er það, hverju það sæti, að frv. til fjárl. fyrir árið 1950 skuli ekki enn hafa verið tekið til 1. umr. Það mun hafa verið venja, hér áður fyrr a. m. k., að láta líða mjög skamman tíma. frá því þing hófst og þar til frv. var lagt fyrir þingið. Þá var algild regla að taka frv. fljótt til 1. umr. og koma því til n. Nú mun hæstv. fyrrv. fjmrh., sem nú er atvmrh., hafa lagt frv. fyrir. að ég hygg um það bil hálfum mánuði eftir að þing hófst, en síðan eru liðnir hart nær 20 dagar, og enn er ekki farið að taka frv. til 1. umr. Mér finnst þetta óhæfilegur dráttur og hér sé spillt miklum tíma, því að fjvn. hefði getað notað þennan tíma, ef frv. hefði fljótt verið tekið til 1. umr., til að athuga það. Þetta verður því til að lengja þinghaldið að óþörfu. Ég vænti, að það sé ekki þörf að vekja athygli hæstv. stj. á því að, að réttu lagi á að vera búið að afgr. frv. sem l. fyrir lok þessa árs. Það er að vísu orðinn siður upp á síðkastið að stjórna landinu án fjárl. fyrri hluta ársins, misjafnlega langan tíma. Það ástand tel ég óviðunandi með öllu og að það eigi ekki að halda slíku áfram. Ég sem sagt beini þeirri fyrirspurn til hæstv. stj., hvernig á því standi, að fjárlfrv. er ekki enn þá komið til 1. umr.

Þá er önnur spurning, sem ég vil leyfa mér að beina til hæstv. stj., og geri frekar ráð fyrir, að hæstv. fyrrv. fjmrh. geti svarað en sá, sem nú gegnir því embætti. Hvernig stendur á því, að við skulum ekki enn, eftir að þing hefur setið 5 vikur, vera farnir að sjá lagðan fyrir þingið ríkisreikninginn fyrir árið 1946 og þá auðvitað ekki heldur þá, sem á eftir koma, reikninginn fyrir 1947 og 1948, en reikningurinn fyrir öll þessi ár hefur enn ekki verið lagður fyrir þingið til úrskurðar? Mér finnst þetta ákaflega kynlegur dráttur, sem orðið hefur á þeim málum í seinni tíð. Ég vildi heyra frá hæstv. atvmrh., hvernig á þessum ósköpum stendur, að ríkisreikningurinn fyrir 1946 skuli ekki enn vera kominn fyrir Alþingi.