23.01.1950
Efri deild: 40. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Þó að ég sem frsm. n. hafi rétt til að halda hér ræðu, þá mun ég ekki nota þann rétt að neinu ráði, heldur láta nægja stutta aths., og það því fremur sem hæstv. dómsmrh. er hér ekki viðstaddur; og vil ég því síður fara mikið út í það, sem hann sagði hér, og get haft um , það fá orð. En hans ræða síðast í þessu máli gekk aðallega út á það, hvað brtt. fjhn. væri um óskylt efni því, sem frv. þetta fjallar um. Og beindi hann því jafnvel til forseta, hvort ekki bæri að vísa þessari brtt. frá atkvgr. sökum þess, hvað hún væri um óskylt efni.

Ég verð nú að segja það strax, að ég gat ekki sannfærzt af þessum rökum hæstv. dómsmrh. Fyrst og fremst finnst mér það nú í eðli sínu ekki svo sérlega óskylt mál, hvort bátur stundar síldveiði eða aðra fiskveiði. Fiskarnir skiptast nú í ýmsar tegundir. Og ég hef nú alltaf heyrt — a.m.k. stóð það í mínum kennslubókum fyrir 50 árum —, að síldin væri fiskur, og aldrei hef ég orðið var við, að gerður væri greinarmunur á því, hvort veiddur væri þorskur eða ýsa eða lúða o.s.frv. En það er hægurinn hjá að benda á atriði, sem sett var hér á þessu þingi inn í lagafrv., sem ég held að enginn geti haldið fram, að hafi verið skyldara aðalefni frv. heldur en þessi brtt. nú er skyld þessu frv., sem hér liggur fyrir. Og það var frv. um ábyrgð á útflutningsvörum bátaflotans, sem er nú það stærsta mál, sem þingið hefur enn fjallað um. Þá setti hv. Nd. inn í það frv. ákvæði um það, að þessi ábyrgð skyldi einnig gilda um útfluttar landbúnaðarvörur. Og þá kom engin till. fram um það í sambandi við það mál hér í hv. þd. — a.m.k. ekki frá hæstv. dómsmrh. — að fella það ákvæði niður, enda eru alls konar fordæmi fyrir því, að nokkuð óskyld atriði eru tekin inn í frv. frá því, sem frv. fjalla um í fyrstu. Annars skal ég segja það, að þótt það líti út fyrir, að það sé ýmsum hér kappsmál að koma þessari till. n. fyrir kattarnef, er mér það ekki kappsmál að fá hana samþykkta. Mér fannst það sanngjarnt, eftir atvikum, þetta erindi frá hlutafélaginu Nirði, og þess vegna féllst ég á, að þessi brtt. yrði borin fram, en er það ekki á neinn hátt kappsmál. Ekki veit ég, hvort nokkuð er þarna á bak við, sem mér er ekki ljóst, en það virðist vera undarlega mikið kapp um þetta. — Ég hef tekið til athugunar það, sem hv. þm. Barð. sagði, hvort ekki væri þörf á að hækka ábyrgðarheimildina, ef þessi till. yrði samþ., en eftir þeim upplýsingum, sem ráðh. gaf hér við fyrri hluta umr., held ég, að ekki þyrfti til þess að koma. Nú, það sem hér hefur komið fram nú síðast hjá hv. þm. Barð. og ráðh. ég held báðum —, er það, að óviðkunnanlegt væri að breyta verulega atriðum í brbl., heldur bæri einna helzt að samþykkja þau óbreytt. Þessu er því til að svara, að Alþ. hefur endalaust gert þetta, eins og allir þm. vita, og hefur breytt brbl. meira og minna, eins og hverjum öðrum lagafrv., þó að meginefnið hafi haldið sér, og vitanlega verður ríkisstj. ekki dregin fyrir dóm vegna breyt., sem gerðar kunna að verða, eftir að brbl. hafa verið lögð fram.

Þá gaf hv. þm. Barð. nú síðast þá skýringu, að þetta væri í raun og veru ekki gert fyrir sjómennina á þessum skipum, því að þeir gætu látið selja sjóveðin og þannig fengið sitt kaup greitt. Þetta er út af fyrir sig rétt. En það 3~afa nú áður og oftar en einu sinni verið gerðar ráðstafanir til þess að leysa sjóveð af skipunum, af því að það hefur fram að þessu þótt neyðarúrræði, að veiðiskip væru sett á nauðungaruppboð. Ég veit ekki, hvort eitthvað sérstakt gildir um þetta skip, Hafdísi, og geri ekkert til með það, en bjarga beri öðrum skipum frá slíku, en ég hef ekki heyrt rök fyrir því. En eftir upplýsingum, sem fram koma í þeirri grg., sem ég hef hér í höndum frá Nirði, virðist mér þetta ekki eins óskylt síldveiðum og ætla mætti í fljótu bragði, því að meiningin var að gera þessi skip út á síldveiðar, og kemur hér fram, að komið hafi um það bending frá stjórnarvöldunum, má nærri því segja, að reynt væri að senda annan bátinn á Grænlandsveiðar, en hinn á síldveiðar. Vil ég leyfa mér að lesa hér upp úr grg.:

„Þegar líða tók á s.l. vor, fór ég að velta því fyrir mér, hvernig mögulegt mundi vera að koma hinum tveimur Svíþjóðarbátum félagsins, Freydísi og Hafdísi, til veiða yfir sumarmánuðina. Átti ég tal um þetta við aðalbjargvætt útvegsins á Ísafirði, þáverandi bankastjóra Útvegsbankans, Halldór Halldórsson, en fékk daufar undirtektir. Taldi hann litlar líkur til, að bankinn mundi hætta meiru fé til síldveiðanna en orðið væri. Leitaði ég þá eftir láni eða fyrirframgreiðslu hjá síldarverksmiðju, er við höfðum áður skipt við, en án árangurs. Nokkru síðar átti ég viðræður við nokkra menn í Reykjavík, er áhuga höfðu á Grænlandsveiðum og voru í þann veginn að stofna til leiðangurs í því skyni. Skýrðu þeir mér frá, að margir hv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu áhuga á þessu máli og mundi ríkisstjórnin Leggja leiðangrinum verulegan stuðning, var um talað, að leiðangurinn mundi geta lagt af stað um mánaðamót maí—júní. Um þetta leyti fóru að berast fregnir um uppgripaafla við Grænland, og um svipað leyti komu fram upplýsingar frá S.Í.F. og Fiskifélaginu gegnum blöð og útvarp um það, að batnandi horfur væru á sölu saltfisks og landsmenn hvattir til að auka framleiðslu hans. Átti ég þá aftur tal við bankastjóra Útvegsbankans á Ísafirði og skýrði honum frá þessum upplýsingum. Taldi hann hyggilegt að draga að einhverju leyti og strax úr þeirri miklu áhættu, er síldveiðunum fylgdi, og virtist hann hafa áhuga fyrir, að rannsakað yrði, hvort þarna gæti verið um að ræða gullnámu fyrir íslenzka vélbátaflotann. Þá bentu og allar líkur til, að síldveiðiflotinn mundi á undanförnum 4 árum hafa skilað allt að því sama aflamagni á land, enda þótt veiðiskipin hefðu verið helmingi færri. Endalok okkar viðræðna urðu, þau, að bankinn lofaði að kaupa af félaginu ávísun að upphæð kr. 125 þús., er greiddist með andvirði fyrsta aflans á Grænlandsmiðum. Vegna þessa láns reyndist kleift að koma báðum bátunum á veiðar, öðrum á síldveiðar, en hinum á Grænlandsveiðar.“

Þarna finnst mér koma fram, að félagið ætlaði sér að gera bátana út á síldveiðar, en hafi af opinberum aðilum frekar verið hvatt, en latt, til að láta ekki nema annan bátinn fara á síldveiðar og senda heldur hinn á þessar Grænlandsveiðar, svo að mér finnst þetta ekki hvort öðru eins óskylt og haldið hefur verið fram.

Hv. þm. Barð. hefur endurtekið tilmæli sín um það, að n. taki til athugunar, hvort hún vilji draga þessa till. til baka, t.d. til 3. umr. Ég vil ekki segja annað um þetta en það, sem ég hef minnzt á áður, að ég get ekki gert slíkt upp á mitt eindæmi, ef ekki gefst tækifæri til að ræða við n. um það. Það gengur nú svona misjafnlega að fá n. saman á fund. Nú er ákveðinn nefndarfundur kl. 41/2 í dag, sem er fastur fundartími n., og skal ég þá gjarna bera þetta undir hana. Sjálfur hef ég út af fyrir sig ekkert á móti því, að sjálfsagðar leiðréttingar á frv. séu bornar fram og afgreiddar sérstaklega og svo þessi efnistill. aftur við 3. umr. Mér er nú málið ekki meira kappsmál en það, en í því formsatriði mun ég þó ekki skera mig úr leik frá meðnm. mínum. Ég skal sem sagt bera það undir n., því að ég geri ráð fyrir, samkvæmt því sem hér hefur áður verið sagt, að forseti láti ekki atkvgr. fara fram um þetta mál, nema því aðeins að atvmrh. sé viðstaddur, og þar af leiðandi verði að fresta því núna í dag hvort sem er.