31.01.1950
Efri deild: 42. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

29. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. voru brtt. þær, sem fjhn. hafði borið fram, og brtt., sem ég bar fram, teknar aftur til 3. umr., og því er þessara till. getið í dagskrá til 3. umr., en þær eru nú teknar aftur að fullu og öllu, en í stað þeirra eru bornar fram á tveim þskj. till., sem hafa sama innihald. Í fyrsta lagi eru á þskj. 270 till. frá fjhn. allri, og ganga þær aðeins út á það að færa frv. til betra máls, að því er n. finnst, og geri ég ráð fyrir, að allir séu sammála um þetta. Þá hefur það orðið að ráði, að sá meiri hluti, sem stóð að síðari málsgr. 1. brtt. á þskj. 242, beri það sama fram nú á þskj. 271, að inn í frv. komi ný gr. um það efni og við fyrirsögnin. bætist tilsvarandi, og bætist þar við „o.fl.“ Þessi till. er um það, sem rætt var við 2. umr., að veita bátum, sem veiðar stunduðu við Grænland s.l. sumar, lán, enda sé tryggt, að þeir stundi veiðar nú. Þetta atriði var svo þrautrætt við 2. umr., að ég sé enga ástæðu til að innleiða um það umræður nú, enda munu ganga um það atkv. Og þó að ég heyrði ekki rök fyrir því, að rétt væri að falla frá þessari till., þá er langt frá því, að þetta sé mér nokkuð persónulegt áhugamál, og eins hygg ég að segja megi um meiri hl. n., að hún sjái ekki ástæðu til að falla frá þessu, en hún gerir það ekki að neinu kappsmáli, en telur, að þessi bátur eða bátar eigi alveg eins mikinn rétt á að fá þessa hjálp eins og bátar þeir, er síldveiðar stunduðu, því að það var tilviljun, að bátur þessi stundaði veiðar við Grænland, en fór ekki á síldveiðar hér við land, og þó ekki alveg af tilviljun, heldur af hvatningu opinberra aðila. Ég sé nú ekki ástæðu til að karpa um þetta. Alþ. ákveður, hvort það verði samþ., og síðan hæstv. ríkisstj., hvort hún vill nota heimild þessa, og ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. meti ástæður og sannprófi rök þau, sem hlutaðeigandi útgerðarmaður hefur borið fram.