17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru örfá orð. — Ég þakka hæstv. atvmrh. fyrir, að hann hefur svarað þessum fyrirspurnum, þó að, eins og ég tók fram, það hefði átt betur við um aðra þeirra að beina henni til hæstv. núv. fjmrh. Þó vil ég segja út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um fjárlagaræðuna, sem væri svo seint á ferðinni vegna ráðherraskiptanna, að úr því að hæstv. fyrrv. fjmrh. útbjó fjárlfrv. og lagði það fyrir þingið, þá hefði verið mjög eðlilegt, að hann hefði fylgt því úr hlaði með framsöguræðu. Sá fjmrh., sem við tók, gat að sjálfsögðu komið á framfæri við fjvn. og Alþingi þeim aths., sem hann óskar að gera við frv. Það er fullt samræmi í því, fyrst fyrrv. hæstv. fjmrh. samdi frv. og lét útbýta því í þinginu, þá hefði hann einnig haft framsögu fyrir því máli hér á þingi. Væri málið þá fyrir löngu komið til n.

Ég held, að það sé ekki venjulegt, að þingnefndir fáist við mál, fyrr en búið er að vísa þeim til þeirra til athugunar. Það getur vel verið, að fjvn. gæti það. Hún mun þó ekki hafa unnið enn að afgreiðslu frv. á þessu sinni.

Þá er það viðvíkjandi síðari liðnum, um ríkisreikninginn. Þar upplýsir hæstv. ráðh., að áður en langt líður, megi vænta þess, að ríkisreikningurinn fyrir 1946 verði lagður fyrir Alþingi. Ég tel, að ef nokkurt lag væri á þessum hlutum og reikningshaldið væri eins og það á að vera, þá ætti nú að leggja fyrir Alþingi ríkisreikninginn 1946, 1947 og 1948. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það þætti slæm ráðsmennska og léleg vinnubrögð heima í minni sveit, ef hreppsnefndin þar væri ekki farin að leggja fyrir sýslunefnd hreppsreikninginn fyrir 1946 né fyrir þau ár, sem síðan eru liðin. Og ég held að hreppsnefndaroddviti, sem trassaði þannig sín störf, mundi naumast í hávegum hafður og tæpast kemba hærurnar í þeirri stöðu. Nú má segja, að ríkisreikningurinn sé umfangsmeiri en reikningar eins sveitarfélags. En benda má þá einnig á það, sem þar vegur mjög á móti, að ríkisstj. hefur mikið og frítt lið — m. a. í fjmrn. — ráðh. til aðstoðar við þessi störf. — Annars skal ég ekki — af því að langar umr. eru nú þegar orðnar utan dagskrár — fara lengra út í þessa sálma. En ég tel það eitt viðunandi í þessum efnum, að við fáum að sjá á þessu þingi ekki aðeins ríkisreikninginn fyrir 1946, heldur einnig fyrir árið 1947 og 1948.