20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

95. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. er að vissu leyti gamall kunningi. Það lá fyrir síðasta þ., um að frestað væri að taka endanlega ákvörðun um eignaraukaskattinn til 31. des. 1949. En nú liggur þetta frv. fyrir hér, þar sem ákveðið er, að frestað skuli álagningu eignaraukaskattsins til ársins 1950. N. hefur athugað þetta og þótti rétt, að í staðinn fyrir „1950“ kæmi: fyrir árslok 1950: Taldi hún þetta skipta einhverju, því að eigi var ætlazt til, að framtalsn. hefði lengri frest. Þessari n. var falið að leggja eignarskattsaukann á þá af landslýðnum, sem hann áttu að bera skv. eignakönnuninni. Hefur það þó dregizt, og er gerð grein fyrir því, hvernig á því hafi staðið, í aths. við frv., þó að það sé eigi rétt í öllum skattumdæmum, að þurft hafi að senda gögn aftur til skattan. til athugunar. Það var t.d. ekki gert í Dalasýslu, umdæmi mínu, en þó er þetta umfangsmikið mál, og taldi framtalsn. sig eigi geta lokið þessu árið 1949 nema að litlu leyti. Eitthvað hef ég heyrt um, að hún hafi byrjað þá á þessu verki, en hún ætti að geta orðið búin með það á árinu 1950. En n. vildi sýna vilja sinn í því efni, að þetta mætti eigi dragast lengur og að óvilja hennar væri, ef fresturinn yrði enn framlengdur — fram yfir það, sem orðið er og frv. ber með sér.