20.12.1949
Sameinað þing: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef nýverið skýrt frá því í báðum deildum Alþingis, að ríkisstjórnin bíði tillagna frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um, hvaða verð þessir aðilar teldu nauðsynlegt, að bátaútvegurinn fengi fyrir afla sinn og frystihúsin fyrir vinnslu sína til þess að rekstur þessi yrði hallalaus. Lýsti ég því yfir, að fyrr en slíkar tillögur lægju fyrir, væri ríkisstj. að sjálfsögðu ekki auðið að átta sig á, hverjum tökum bæri að taka málið, og þ. á m. hvort hægt mundi að tryggja með bráðabirgðaráðstöfunum, að útgerð gæti hafizt upp úr áramótum eða hvort bíða yrði róttækari ráðstafana í samræmi við fyrirætlanir Sjálfstfl., ef hann hefði náð meiri hluta á Alþingi við kosningarnar í haust. En það er mikið verk og vandasamt að ganga endanlega frá slíkum tillögum. Jafnframt gat ég þess, að vel mætti svo fara, að ríkisstj. treystist ekki til að gera tillögur til Alþingis í þessum efnum fyrr en henni hefði unnizt nokkur tími til að athuga álitsgerð útvegsmanna og frystihúsaeigenda og ræða málið við þessa aðila. Er það og kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarin ár hafa samningar um þessi efni staðið yfir vikum og mánuðum saman milli stjórnarinnar og útvegsins, áður en stjórnin treystist til að flytja álit sitt og tillögur inn á Alþingi.

Hinn 15. þ. m. bárust stjórninni tillögur Landssambands ísl. útvegsmanna, en tillögur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna ekki fyrr en í gær.

Ríkisstjórnin hefur þess vegna, enn sem komið er, tæplega getað gert sér tölulega grein fyrir því, hvaða baggar væru bundnir ríkissjóði, ef ábyrgð yrði tekin samkvæmt þeim óskum; er nú hafa verið bornar fram. En þó virðist málið liggja nægilega skýrt fyrir til þess, að stjórnin telur rétt að tilkynna Alþingi, að henni sé ekki auðið, án frekari rannsókna og samninga, að gera ákveðnar tillögur um viðunandi lausn.

Þessu til rökstuðnings eru meðal annars eftirfarandi staðreyndir:

1) Afkoma ríkissjóðs á árinu 1949 hefur orðið miklu lakari, en gert var ráð fyrir, er fjárlög voru sett. Hefur orðið greiðsluhalli, sem nemur mörgum tugum milljóna, og mun hæstv. fjmrh. ræða það og skýra í fjárlagaræðu sinni í dag.

2) Í fjárlagafrv. því, er nú liggur fyrir Alþingi, er ekkert ætlað til verðuppbóta á útfluttri framleiðsluvöru landsmanna, enda er það eindregin skoðun Sjálfstfl. og raunar margra annarra, að hverfa verði af þeirri braut.

3) Kröfur útvegsins eins og þær liggja fyrir mundu kosta ríkissjóð yfir 95 milljónir króna, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum fiskábyrgðarnefndar, og er þá gert ráð fyrir sama aflamagni og verðlagi á erlendum markaði sem á þessu ári.

Veit ég að vísu, að útvegsmenn mundu sætta sig við eitthvað lægra verð, en útreikninga sína hafa þeir byggt á því, að ábyrgðarverðið hækki úr 65 aurum í 104 aura fyrir kílóið af slægðum fiski með haus. En hitt er jafnvíst, að án mikillar hækkunar bæði sjómönnum og útvegsmönnum til handa getur útvegurinn ekki hafizt. Sést það bezt á því, að frá því að fiskábyrgðarlögin voru sett í árslok 1946, hefur vísitalan hækkað allverulega. Hefur þó verið varið mörgum milljónatugum úr ríkissjóði til að greiða hana niður. Jafnframt hafa orðið miklar grunnkaupshækkanir. — Samkvæmt skýrslu, er ég hef fengið frá Vinnuveitendasambandi Íslands, nema þær víða milli 20 og 30% og allt upp í 42%, auk aukinna fríðinda. En ákvæðisvinnutaxtar hafa á þessu tímabili hækkað mjög mikið. Sem dæmi nefni ég, að hækkun þessi er í Reykjavík við fiskþvott frá 51–63% og við síldarsöltun 32%. Af þessu sést, að kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags hefur haldið mjög hratt áfram. Verður því ekki komizt hjá að rétta hag útvegsins. Skal ég aðeins nefna, að þótt hækkunkröfur útvegsins yrðu ekki teknar til greina nema að hálfu leyti, mundu útgjöld ríkisins af slíkri ábyrgð samt verða yfir 70 millj. kr. Mun reynast ærið erfitt að benda á nýja skatta fyrir þessum útgjöldum, þótt eigi yrðu meiri en 70 millj. kr., hvað þá 95 milljónir. Þá hafa útvegsmenn og borið fram óskir um sömu gjaldeyrisfríðindi sem þeir urðu aðnjótandi á þessu ári, sem og að fríðindi þessi yrðu látin ná til fleiri vörutegunda.

4) Sem kunnugt er, hafa nær allir hinna eldri togara legið við festar nú um langt skeið, sakir undangengins hallarekstrar þeirra. Nú hefur Landssamband ísl. útvegsmanna borið fram óskir um aðstoð þessum skipum til handa og jafnframt sýnt fram á, að fiskframleiðslan er allmiklu ódýrari á þeim, en vélbátunum. Ef verðuppbótaleiðin yrði farin, er hæpið, að auðið yrði að vísa þessum óskum á bug, en yrðu þær teknar til greina, mundu útgjöld ríkissjóðs enn aukast um milljónatugi. — Rétt þykir og að geta þess, að Landssamband ísl. útvegsmanna hefur skýrt stjórninni frá því, að mikill halli hafi orðið á rekstri margra nýsköpunartogaranna að undanförnu, svo að afkomuhorfur þessara nýtízku fyrirmyndarskipa eru nú einnig orðnar uggvænlegar, ef ekki rætist fljótt úr og betur en líkur benda til.

5) Fyrir Alþingi liggja nú margvíslegar kröfur um aukin útgjöld ríkissjóðs, þ. á m. um 20% bráðabirgða kauphækkun til starfsmanna ríkisins. Er það í samræmi við framkvæmdir fyrrv. stjórnar á þingsályktun frá 18. maí síðastl. Verður vart hjá þeim útgjöldum komizt, enda ekki þess að vænta, að starfsmenn ríkisins uni því lengur að vera einir settir hjá, þegar allar aðrar stéttir fá hækkanir og sumar árlega.

Það er ófrávíkjanleg krafa Sjálfstfl., að fjárlög verði afgr. greiðsluhallalaus, enda vitað, að án þess er ekki hægt að stöðva vöxt dýrtíðarinnar, en síðustu þrjú árin hefur skort um 175 milljónir króna á, að svo hafi verið.

Ríkisstjórnin getur því ekki, án þess að henni gefist tími til nokkurrar íhugunar á þessu viðhorfi, sem án efa er skuggalegra en menn hafa átt von á, gert rökstuddar tillögur til Alþingis um, hversu snúizt skuli við því. Mun ríkisstjórnin þó vegna hinnar brýnu nauðsynjar á því að forðast drátt á málinu viðhafa allan þann hraða, sem auðið er. Mun stjórnin vinna sleitulaust að því, ásamt sérfræðingum þeim, er hún hefur sér til aðstoðar. Hlé á fundum Alþingis um jólin er á þessu stigi málsins sízt til tafar, enda hafa hæstv. forsetar Alþingis ákveðið fundarhlé í samráði við stjórnina.

Stjórnin mun leggja tillögur í málinu fyrir Alþingi svo fljótt sem auðið er eftir áramótin, hvort heldur sem þær hníga að bráðabirgðalausn sem undanfara róttækari tillagna eða hinar síðarnefndu verða lagðar fram, og þá eins fljótt og við verður komið án slíks undanfara.

Ég hef talið rétt og raunar skylt að bregða upp þessari ófullkomnu mynd úr atvinnu- og fjármálalífinu í því skyni, að þingmönnum og þjóðinni allri gefist kostur á að virða hana fyrir sér. Tillögur þær, er ríkisstjórnin mun bera fram, ber að skoða í ljósi þessara staðreynda. Leyfi ég mér að vænta þess, að Alþingi geri sér ljóst, að nú ríður meira á samhentu liði til þess að ráða fram úr örðugleikunum en brigzlyrðum og metingi um, hvort betur eða miður hafi reynzt heilræði eða bjargráð eins eða annars.