04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það væri náttúrlega eðlilegt að ræða um skýrslu eins og þessa, en ég ætla þó ekki að gera það í neinu verulegu atriði. Það er eðlilegt að skýrsla um þennan drátt, sem orðið hefur á því, að gerðar hafi verið nokkrar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, sé rædd í sambandi við þær ráðstafanir, sem bornar eru fram. Og dómurinn um það, hve miklar ástæður hafa verið til þess, að slíkur dráttur varð, hlýtur að fara eftir því að verulegu leyti, hve stórvægilegar ráðstafanir eru bornar fram og hvað langan tíma hefur þurft til að undirbúa þær. Það liggur ekki fyrir á þessu stigi málsins að ræða um það, en þó er ástæða til að vekja athygli á því, að þær ráðstafanir, sem hér eru bornar fram sem bráðabirgðaráðstafanir og hæstv. forsrh. minntist nokkuð á, þær eru í senn bráðabirgðaráðstafanir og geta líka orðið, ef ríkisstj. þóknast og fær ekki samþ. sínar ráðstafanir, allvaranlegar ráðstafanir, því að, eins og tekið er fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir, þá geta þessar ráðstafanir gilt vertíðina út, og að því er virðist, þá gilda aðrar ráðstafanir í samræmi við þann kostnað, sem þarf til að halda útgerðinni gangandi allt árið, og eru þær upphæðir ekki smávægilegar, þar sem er um að ræða 30% söluskatt á alla aðflutta vöru, sem á að gilda fyrir allt árið. Ríkisstj. hefur það þannig í hendi sér samkv. þessum bráðabirgðaráðstöfunum, hvort hún lætur þessar ráðstafanir gilda áfram eða ekki. Eins og ég sagði í upphafi, þá er eðlilegast, þó að hæstv. forsrh. hafi lítils háttar minnzt á þetta frv.. sem hér hefur verið lagt fram að umr. um það sé frestað, þangað til málið liggur hér fyrir til meðferðar, því að þær umr. verða sjálfsagt mjög víðtækar. Ég vildi aðeins taka það fram hér, að þögnin er engan veginn sama og samþykki. Dómurinn um þann frest, sem orðið hefur á því, að ráðstafanir yrðu gerðar til að bjarga framleiðslunni, hlýtur að verða eftir því, hvernig ráðstafanirnar sjálfar dæmast, en í fljótu bragði virðist hér vera um að ræða uppprentun á gömlu frv., með breyttum tölum, og lítið annað.