16.02.1950
Efri deild: 56. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

82. mál, síldarsoð

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft frv. þetta til athugunar og hefur tekið það fyrir á nokkrum fundum og rætt það ýtarlega. Áður en það væri afgr. úr n. þótti rétt að leita um það álits sérfræðinga, og kvaddi n. í því skyni formann stjórnar SR, Svein Benediktsson, til viðræðna um málið og til þess að fá hjá honum upplýsingar; enn fremur sendi hún frv. til umsagnar Þórði Þorbjarnarsyni, starfsmanni við atvinnudeild háskólans að ég hygg, og er svar hans prentað sem fylgiskjal með áliti n. á þskj. 328.

Eins og fram kemur í grg., hefur stjórn SR athugað þetta mál gaumgæfilega og komizt að þeirri niðurstöðu, að nauðsynlegt væri að koma upp vinnslustöð til hagnýtingar þeirra efna, sem nú fara forgörðum við síIdarvinnsluna. Virðast líkur benda til, að slík stöð geti borið sig, miðað við áætlaðan kostnað og það verð, sem nú er hægt að fá fyrir vöruna á heimsmarkaðinum.

Um þá kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið, gildir þó hið sama og aðrar slíkar áætlanir nú, að þær verður að taka með nokkrum fyrirvara. Mun þó sá verkfræðingur, sem gerði hana, hafa lagt sig fram um að vinna það starf af fullri samvizkusemi, og hæfni hans til þess dreg ég ekki í efa. Samt var nokkur efi í huga nm. um það, að áætlunin standist. Hefur n. því þótt rétt að vekja athygli á því í grg., að ef í þessa framkvæmd verði ráðizt, beri að gæta fyllsta sparnaðar og sérstaklega að athuga það, hvort ekki verði hægt að komast hjá því að byggja þegar í upphafi alla verksmiðjuna. Sú hugmynd hefur komið upp, að t.d. mætti spara verulegan hluta af stofnkostnaðinum með því að byggja ekki sérstakan ketil, heldur nota í byrjun katla síldarverksmiðjanna. Þetta hefur n. viljað benda á til athugunar fyrir þá menn, sem með málið hafa að gera. — Áð öðru leyti telur n. rétt að ráðast í bygginguna, í trausti þess, að áætlanir séu í svo góðu lagi sem frekast er kostur á. Þykir þó n. það of fast að orði kveðið, að ríkisstj. sé falið að láta reisa verksmiðjuna, en telur réttara að gefa henni aðeins heimild til þess. Væri það líka í samræmi við lögin um síldarverksmiðjur frá 1928.

Í annan stað telur n. ekki heppilegt að slá því föstu, að verksmiðjuna skuli reisa á Siglufirði, því að líka virðist geta komið til mála, að hún yrði reist á Raufarhöfn t.d. Og vegna þess, að rök fyrir þeirri ákvörðun virðast ekki liggja nógu greinilega fyrir, telur n. ekki rétt að binda hendur ríkisstj. um þetta, heldur skuli það vera á hennar valdi að taka um þetta ákvörðun að fengnum till. síldarverksmiðjustjórnarinnar.

Annars er það eindregið álit n., að lögin beri að samþykkja með þeirri breytingu á 1. gr., sem lögð er til á þskj. 328.