27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að því að gera grein fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir, vil ég taka fram, að ríkisstj. hefði gjarna kosið, að málið hefði fyrr komið fyrir þingið vegna þeirra bráðabirgðaráðstafana, sem bundnar eru við 1. marz. Ríkisstj. hafði frv. tilbúið 2. febr. og var því ekkert að vanbúnaði að leggja það fram fyrstu dagana í febrúar, en vegna eðlis málsins taldi hún sjálfsagt að freista þess að tryggja því öruggt fylgi, áður en það væri lagt fram á Alþingi. Þess vegna skrifaði stjórnin Framsfl. og Alþfl. 2. febr. og spurðist fyrir um, hvort þessir flokkar vildu tilnefna samninganefnd til viðræðna um málið. Hinn 6. febr. sendi ríkisstj. báðum flokkunum frv. án grg., en hinn 16. febr. sendi hún Framsfl. nokkur eintök frv. með greinargerð. Allt fram að síðustu helgi hafa farið fram vinsamlegar umræður milli Sjálfstfl. og Framsfl. um málið, þótt þær enn sem komið er hafi ekki leitt til árangurs. Ríkisstj. væntir þess, að sé þingvilji fyrir framgangi þessara tillagna, þá hafi þessi málsmeðferð ekki orðið til að tefja málið, heldur öllu frekar til að greiða fyrir því.

Sjálfstfl. gerði sér ljóst, þegar hann tókst á hendur að mynda ríkisstjórn í byrjun desember, að ástandið í efnahagsmálum landsins væri orðið svo uggvænlegt vegna dýrtíðar og taprekstrar atvinnuveganna, að svo búið mætti ekki lengur standa. Flokkurinn taldi það því fyrstu skyldu og meginhlutverk ríkisstj., ef henni yrði nokkurs lífs auðið, að leita ráða, er leyst gætu hin efnahagslegu vandamál, og leggja tillögur um það fyrir þingið. Ríkisstj. lýsti síðan yfir því á Alþingi, að hún mundi svo fljótt sem unnt væri leggja fyrir þingið tillögur um varanlega lausn í vandamálum bátaútvegsins og annarrar útflutningsframleiðslu, sem nú horfir fram á stórfelldan taprekstur. Til þess að ná þessu takmarki þarf að gera ýmsar ráðstafanir til að ná jafnvægi í efnahagskerfi þjóðarinnar, samræma fjárfestinguna sparnaðinum í landinu og stefna að því að gera verzlunina frjálsa.

Síðan um miðjan desembermánuð hefur verið unnið að því sleitulaust að undirbúa þessar tillögur. Ríkisstj. kvaddi sér til aðstoðar tvo kunna hagfræðinga, dr. Benjamín Eiríksson og prófessor Ólaf Björnsson. Hafa þeir í samráði við stjórnina samið álit og tillögur til úrlausnar þeim vandamálum, sem fyrir liggja. Á grundvelli þessara tillagna hefur svo ríkisstj. látið semja lagafrv. það, sem nú hefur verið lagt fyrir þingið, ásamt álitsgerð hagfræðinganna.

Frumvarp þetta, ef að lögum verður, markar mjög djúp spor í hagþróun landsins og bindur endi á síðasta þátt þess áratugs, sem síðar mun, af ýmsum orsökum, verða talinn einhver viðburðaríkasti og umsvifamesti í sögu þjóðarinnar. Með frv. er stefnt að því að leiðrétta það stórfellda misvægi, sem orðið hefur á undanförnum árum á efnahagskerfi landsins. Þetta misvægi ógnar nú öllu fjármálalífi landsmanna og af þeim sökum eru höfuðatvinnuvegirnir komnir að stöðvun, en afkoma almennings er í yfirvofandi hættu. Ég ætla nú ekki að rekja þær orsakir, sem þessu alvarlega ástandi valda. Þær hafa verið ræddar og raktar og eru alþjóð kunnar í meginatriðum. Hitt skiptir nú mestu máli, að þjóðin geri sér grein fyrir því, að hætta er á ferðum, að hún geri sér ljóst, undandráttarlaust, hvernig hag hennar er nú komið, og marki sér leið samkvæmt því. Það skal fúslega játað, að allt frá ófriðarbyrjun og fram á síðustu tíma hefur þjóðin þurft að glíma við margvísleg vandamál á sviði atvinnu- og fjármála, sem mörgum þjóðum, er meiri reynslu hafa en Íslendingar í þessum efnum, hefur reynzt erfitt að fást við. Enginn stjórnmálaflokkur verður mæltur undan ábyrgð í þessum efnum og þá ekki heldur þjóðin sjálf. Má um það satt kyrrt liggja. En aðalatriðið er, að menn komi nú auga á sjúkdómseinkennin í efnahagslífinu og skilji, að engin þjóð getur látið undir höfuð leggjast að leita lækningar á þeim, ef hún vill halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu og metur nokkurs atvinnuöryggi almennings.

Ég skal nú í fáum dráttum lýsa því, hvernig viðhorfið er í dag og í hvert óefni er komið í efnahagsmálunum, sem gerir lífsnauðsynlegar þær aðgerðir, er frv. stj. fjallar um.

Gjaldeyrisöflun þjóðarinnar byggist nær eingöngu á sjávarútveginum. Engin þjóð í Evrópu er hlutfallslega jafnháð útflutningsframleiðslunni um afkomu sína og Íslendingar. Á síðasta ári mun þessi framleiðsla nær öll hafa verið rekin með tapi, og aðalþáttur hennar, bátaútvegurinn, með stórfelldu tapi, sem bætt hefur verið með ríkisstyrk. Engin þjóð getur til lengdar rekið aðalatvinnurekstur sinn með tapi. Slíkur háttur raskar öllu efnahagskerfinu og leiðir að lokum til gjaldþrots. Þetta leiðir til öfugstreymis í þjóðlífinu, sem rennur fram því hraðar sem það stendur lengur. Sú hefur og reynslan orðið hér. Taprekstur bátaútvegsins kostaði ríkissjóð á síðasta ári 37 millj. kr. Ef haldið verður áfram á sömu braut á þessu ári, kostar hann ekki minna en 70 millj. kr., og á næsta ári getur hann kostað yfir 100 millj. kr. Þetta er tap á bátaútveginum eingöngu. Landsmenn eiga enn nokkra togara af eldri gerð, sem enginn treystist til að gera út á veiðar vegna þess, að af rekstrinum mundi leiða stórkostlegt tap. Þessi skip liggja nú aðgerðarlaus og undir skemmdum, en löggjafarvaldið hefur ekki treyst sér til að veita þessum skipum rekstrarstyrk eins og bátaflotanum. Nýi togaraflotinn mun að vísu enn vera allur á veiðum. En skipin munu nú undantekningarlaust síðustu mánuðina hafa verið rekin með tapi. Sum skipin hafa tapað svo miklu, að útgerðin er að komast í þrot og áhöfn skipanna hefur ekki fengið greitt nema lítið eitt af launum sínum. Þrettán skip af nýja togaraflotanum hafa ekki getað staðið við samningsbundnar afborganir til stofnlánadeildarinnar, og hefur ríkissjóður orðið að greiða yfir milljón krónur fyrir þessi skip. Af þessum skipum eru 9 í eigu bæjarfélaga að öllu eða verulegu leyti, en 4 skipin eru eign hlutafélaga. — Auk þessarar greiðslu vegna togaranna hefur ríkissjóður orðið að greiða afborganir til stofnlánadeildarinnar fyrir 80 mótorbáta, er nema samtals um 21/2 millj. kr., og 24 frystihús og niðursuðuverksmiðju, sem nema tæpri 1/2 millj. kr. Eins og sakirnar standa nú og eins og útlitið er á þessu ári með sölu á afla togaranna, er ekkert framundan annað, en stórkostlegt rekstrartap þessara skipa. Eigendur þeirra, hvort sem um bæjarfélög eða hlutafélög er að ræða, geta fæstir haldið rekstrinum áfram að öllu óbreyttu, og þessi útgerð horfir því fram á stöðvun mjög bráðlega. Þótt ríkið vildi taka að sér reksturinn, hefur það enga fjárhagslega möguleika til þess, að óbreyttu ástandi. En ef út í slíka ófæru væri lagt, mundi árangurinn verða upplausn og ringulreið.

Þannig er nú ástandið í rekstri útflutningsframleiðslunnar, sem afkoma þjóðarinnar byggist á frekar nokkru öðru. Framleiðslan er komin að stöðvun og það meðal, sem til þessa hefur verið notað til að halda henni gangandi, er ekki tiltækilegt lengur. Ef þetta meðal (ríkisstyrkinn) ætti að nota enn um skeið, mundi efnahagskerfið gliðna sundur með þeim afleiðingum, að þjóðin mundi missa tök á allri fjármálastjórn og skipulegur atvinnurekstur legðist niður. Þjóðin á ekkert val annað en að gera útflutningsframleiðsluna arðberandi, ef hún vill hafa heilbrigðan atvinnurekstur og lifa sæmilegu menningarlífi í landinu.

Áhrifin af taprekstrinum og fjárfestingunni hafa svo komið fram í ýmsum myndum. Verzlun landsmanna og athafnafrelsi hefur verið fært í viðjar sívaxandi hafta og opinberrar skipulagningar, til þess að halda í skefjum þeim falska kaupmætti, sem tapreksturinn og fjárfestingin hefur sett í umferð. Af þessu hefur svo myndazt gífurleg eftirspurn um erlendan gjaldeyri, með þeim árangri, að nú þjakar þjóðina svo mikill gjaldeyrisskortur, að til fullkominna vandræða horfir. Verzlunin hefur af þessum sökum að ýmsu leyti orðið óhagstæðari en ella og ýmsir annmarkar komið í ljós, sem oftast fylgja slíku ástandi, svo sem svartur markaður á mörgum vörum. Einn alvarlegasti þátturinn í þessum efnum er sá, að flutt hefur verið til landsins út á lögleg leyfi talsvert af vörum, sem ekki hefur verið hægt að greiða. Þetta hefur stórspillt fyrir viðskiptum landsins út á við og rýrt álit þess, enda er nú í sumum löndum varað opinberlega við því að eiga nokkur viðskipti við íslenzka aðila, nema gegn fyrirframborgun. Ég þarf varla að fjölyrða um það, að þjóðir, sem standa í vanskilum með skuldbindingar sínar út á við, verða ekki til lengdar taldar sem æskilegur þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu.

Þjóðinni er nú einna mest nauðsyn á því að öðlast frjálsari verzlunarhætti og öruggari gjaldeyrisafkomu, en nú er. Það getur því aðeins tekizt, að gerðar verði ráðstafanir til að lyfta af gjaldeyrisverzluninni þeim gífurlega þunga, sem nú hvílir á henni af þeim ástæðum, er að framan greinir. Verði það ekki gert, heldur áfram að magnast sú öfugþróun, sem nú er í þessum málum og endað getur aðeins á einn veg í vanskilum og niðurlægingu.

Áhrif taprekstrarins og fjárfestingarinnar hafa komið fram í ört vaxandi dýrtíð, vegna þess, að fjármagnið, sem notað hefur verið til hvors tveggja, hefur fyrst og fremst verið tekið með aukinni verðþenslu, en ekki af sparifé landsmanna. Það er ekki lengur fyrir hendi. Af þessum sökum — hafa útlán bankanna og annarra lánsstofnana aukizt úr hófi fram síðustu árin. Í árslok 1944 voru, útlánin 279 millj. kr., en voru komin upp í 915 millj. kr. í nóvemberlok 1949, samkvæmt skýrslu frá Landsbankanum. Á síðastliðnum fimm árum hafa því útlánin aukizt um 636 millj. kr. Fer aukningin langt fram úr því, sem öruggt og skynsamlegt getur talizt í hlutfalli við það fé, sem til umráða er í þessu skyni. Fyrsta skilyrðið til þess, að hægt sé að stöðva þessa hættulegu rás útlánanna, er að stöðva taprekstur útflutningsframleiðslunnar og greiðsluhalla ríkisins. Raunverulega hafa lánsstofnanirnar í heild ekkert handbært fé til útlána lengur, nema með því að innheimta í stórum stíl þau lán, sem nú eru útistandandi. Handbært fé í opinberum sjóðum er nú ekki lengur til, svo að neinu nemi. Mest af því er komið í byggingar og aðra fjárfestingu. Þjóðin hefur ekki lengur neitt fé til að leggja í nýjar framkvæmdir, nema það, sem hún sparar frá ári til árs af útflutningsverðmætum sínum, eða það, sem hún notar ekki til neyzlu.

Þá kem ég að síðasta meginþættinum í því sjúklega efnahagsástandi, sem hér hefur myndazt síðustu árin. Þessi þáttur er hagur og afkoma ríkisins, sem sýnir betur en flest annað, hversu sjúkleiki ástandsins er langt á veg kominn. Greiðsluhalli fjárlaganna undangengin 3 ár er um 175 millj. kr., sem að mestu. er bein afleiðing fjárfestingarframkvæmdanna, ábyrgða ríkissjóðs og ýmiss konar lagasetninga siðan fjárfestingin hófst. Vegna þessa greiðsluhalla hefur ríkið stofnað lausaskuldir, sem nú eru yfir 100 millj. kr., og enn er ógreitt af fjárlögum síðasta árs um 35 millj. kr., sem kallar á greiðslu, en ríkissjóður hefur ekkert handbært fé til þess að mæta. Ábyrgðir ríkissjóðs um síðustu áramót voru um 330 millj. kr., og hafa þær vaxið síðan í árslok 1945 um 234 millj. kr. (Voru þá 96 millj. kr.) Þessi aukning ábyrgðanna hefur komið fram sem aukin lánsfjárþensla í landinu, og féð hefur aðallega verið tekið úr bönkunum og opinberum sjóðum, sem nú eru að mestu tæmdir. Ýmis fyrirtæki, sem njóta ríkisábyrgðar, hafa ekki getað gert nýbyggingar sínar arðberandi og því ekki staðið í skilum með afborganir og vexti af lánum. Hefur ríkissjóður neyðzt til vegna ábyrgðarinnar að greiða áfallnar skuldbindingar þeirra. Til 1. febr. 1950 hefur ríkissjóður lagt út 141/2 millj. kr. af þessum sökum. Útlit er fyrir, að ríkissjóður verði að taka á sig þungar byrðar á næstunni vegna þessara ábyrgða, ef engin breyting verður á, og er ógerlegt að áætla, hversu miklu það kann að nema. Vegna togarabygginga og bátasmíða, sem ríkið hefur haft bein afskipti af, hefur ríkissjóður orðið að leggja út 31 millj. kr., og er óvist um, hvernig og hvenær ríkissjóður getur fengið þetta endurgreitt. Vegna laga um aðstoð ríkisins handa byggingarsamvinnufélögum hefur ríkisábyrgð á skuldabréfum þessara félaga verið veitt fyrir 47 millj. kr. undanfarin þrjú ár. Þessi mikla fjárhæð hefur nær eingöngu verið tekin úr opinberum sjóðum, og hafa þeir nú, eins og áður er sagt, fæstir nokkurt handbært fé lengur. Í lok ársins 1949 voru í smíðum í landinu skólar, er áætlað var, að mundu kosta fullsmiðaðir 85 millj. kr. Af þessari fjárhæð er ríkissjóður skyldaður til samkv. lögum að greiða 521/2 millj. kr. Í lok þessa árs er talið, að áfallinn kostnaður við þessar byggingar verði um 68 millj. kr. og hluti ríkissjóðs af því 44 millj. kr. Af þessu hafði ríkissjóður um síðustu áramót greitt 24.9 millj., en ógreitt var þá 8.9 millj. Á þessu ári er talið, að falli til greiðslu af hluta ríkissjóðs 10.2 millj. kr. Raunveruleg skuld ríkissjóðs við þessar byggingar verður því á þessu ári 19.1 millj. kr., sem ekki hefur verið hægt að standa skil á. Er ekki annað sjáanlegt, en að brestur verði á framlagi ríkissjóðs um stundarsakir, sem hlýtur að seinka þessum framkvæmdum um óákveðinn tíma. Þess er varla að vænta, að bæjar- eða sveitarfélög geti ein staðið undir þessum útgjöldum, og munu mörg þeirra þegar komin í erfiðleika af þessum sökum.

Þetta snýr að fjárhag ríkisins í sambandi við fjárfestingarstefnuna, og er þó margt ótalið. Fjárhagur ríkisins. og skuldbindingar eru fullkomið áhyggjuefni. Fyrsta skrefið til að rétta við fjárhaginn er að ná jafnvægi í efnahagsástandinu. Að öðrum kosti sígur stöðugt meira á ógæfuhliðina.

Sú fjárfestingar- og fjármálastefna, sem löggjafarvaldið hefur fylgt undanfarin ár, hefur reynzt fjármálakerfinu ofviða. Það hefur þess vegna færzt svo úr skorðum og komizt svo stórkostlega úr jafnvægi, að fjármál hins opinbera eru í beinni hættu og atvinnurekstur þjóðarinnar er kominn að stöðvun. Nú er því enginn annar kostur fyrir hendi, til þess að fyrirbyggja stöðvun og upplausn, en að koma á jafnvægi með ráðstöfunum, sem koma atvinnurekstri landsmanna á réttan kjöl og halda fjárfestingunni innan þeirra takmarka, sem sparnaður þjóðarinnar og efnahagur leyfir. Til þess að ná þessu marki hefur verið rætt um þrjár leiðir, sem kalla mætti styrkjaleiðina, verðhjöðnunarleiðina og gengisfellingarleiðina. Ég skal nú í fáum orðum ræða hverja af þessum leiðum fyrir sig.

Það kemur þá eðlilega fyrst til greina að athuga þá leið, sem undanfarin þrjú ár hefur verið notuð til þess að halda í rekstri stórum hluta útflutningsframleiðslunnar, bátaútveginum. Það er styrkjaleiðin, eða uppbótaleiðin. Hún er í því fólgin, eins og kunnugt er, að ríkið ábyrgist útgerðinni ákveðið lágmarksverð fyrir fiskinn og greiðir þann mismun, sem kann að verða á hinu raunverulega útflutningsverði og ábyrgðarverðinu. Þessari ábyrgð eru engin takmörk sett, þar sem útborgunin fer eftir aflabrögðum og verðlagi fisksins á erlendum markaði. Hvort tveggja getur verið slíkum sveiflum háð, að ríkissjóður hafi engin tök á að standa við þessar skuldbindingar. Reynslan hefur orðið sú, að með hverju ári hefur þurft hærri uppbætur, og erfiðleikar á því að afla tekna til að standa undir þeim hafa farið mjög vaxandi. Í rauninni hefur aldrei reynzt unnt að afla nægilegra tekna og hallinn, sem af þessu stafar hjá ríkissjóði, hefur orðið til þess að auka mjög dýrtíðina í landinu. Auk þess er rétt að benda á það meginatriði í þessu sambandi, að öflun tekna til þess að standa straum af uppbótunum er ekki möguleg nema sem skattur á neyzlu þjóðarinnar, sem eykur dýrtíðina í hlutfalli við útgjöldin vegna uppbótanna. Aukning dýrtíðarinnar hækkar svo aftur rekstrarkostnað útvegsins, sem síðan heimtar hærri uppbætur, er kalla á enn hærri skatta. Á þennan hátt heldur hjólið áfram að snúast og skrúfar uppbæturnar og dýrtíðina upp á víxl.

Undanfarin ár hafa útgjöld ríkissjóðs vegna fiskábyrgðarinnar verið sem hér segir:

1947 24 millj. kr.

1948 25 — —

1949 37 — —

Á þessu ári þyrfti varla minna en 70 millj. kr., og á næsta ári mætti hugsa sér, að uppbæturnar gætu komizt yfir 100 millj. Ætti það að vera hverjum manni ljóst, að þjóðin getur ekki haldið lengra á þessari leið, ef hún vill ekki horfa fram á ríkisgjaldþrot vegna þessara ráðstafana.

Um þessa leið segja hagfræðingarnir svo á áliti sínu:

„Reynsla undanfarinna ára sýnir augljóslega, að til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum, eða jafnvel til þess aðeins að halda öllu í horfinu, er uppbótaleiðin ekki fær. Hún skapar ekki nein skilyrði til þess, að hægt verði að stöðva dýrtíðina, koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn og þá um leið jafnvægi á við útlönd og létta höftum af verzluninni. Uppbótaleiðin gefur ekkert loforð um betra í framtiðinni. Hana skortir allt hið jákvæða, sem fylgir gengislækkuninni eða niðurfærsluleiðinni. Af þessum þremur leiðum er sú leið, sem nú er farin, minnst æskileg og er í rauninni ekki lengur framkvæmanleg vegna þess, hve ósamræmið milli innlends og erlends verðlags er orðið mikið.“

Ef ætti að halda áfram á þessari leið, þá er enginn mögulegur vegur til að afla tekna í svo stórkostleg útgjöld, nema með því að skattleggja allan innflutning til landsins eða neyzlu almennings, sem þessum gjöldum nemur. Mundi það verka sem bein gengislækkun, án þess að leiðrétta á nokkurn hátt það háskalega misvægi, sem nú er í allri efnahagsstarfsemi þjóðarinnar, og að engu leyti hjálpa öðrum höfuðaðila útflutningsframleiðslunnar, togaraútgerðinni, sem nú horfir fram á algera stöðvun vegna taprekstrar. Reynslan sýnir því ljóslega, að uppbótaleiðin er gersamlega ófær til frambúðar, vegna þess fyrst og fremst, að hún leysir ekki þau höfuðvandamál, sem mest kalla að. Það er að stöðva dýrtíðina, koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn, ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd og létta höftunum af verzluninni. Raunverulega vinnur uppbótaleiðin gegn því, að þessum höfuðmarkmiðum sé náð. Þess vegna getur hún ekki komið til greina.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á það, að eitt af því, sem uppbótaleiðin hefur flutt í kjölfari sínu, er hinn svo kallaði frjálsi gjaldeyrir, sem útgerðin hefur fengið til að bæta hag sinn. Um þetta segja hagfræðingarnir svo í áliti sínu:

„Það, sem frjálsi gjaldeyririnn þýðir í raun og veru, er, að erfiðleikarnir, sem hafa myndazt í skjóli haftanna, eru orðnir þannig, að kerfið er að gliðna sundur, og er það álit okkar, að verði haldið áfram á sömu braut, þá biði á næstu árum ekki annað, en fullkomin upplausn þess og að atvinnulífið færist meir og meir í óskapnaðar horf. Eftir því sem upplausnin vex, eftir því verði fleiri og fleiri hagsmunahópar, sem hafa hag af ófremdarástandinu, og því erfiðara verður að breyta því til batnaðar, því lengur sem er beðið með grundvallarráðstafanir til úrbóta.“

Næsta leiðin, sem kemur til álita, er verðhjöðnunarleiðin. Aðalástæðan til þeirra vandkvæða, sem nú er við að etja í atvinnulífinu, er það misræmi, sem nú er milli verðlags og framleiðslukostnaðar hér á landi og verðlags og framleiðslukostnaðar þeirra landa, sem við verðum að keppa við á erlendum markaði í sölu fiskafurða og annarra útflutningsvara. Norðmenn lýsa nú yfir því, að eftirspurnin um fiskafurðir þeirra sé meiri, en þeir geti fullnægt. Íslendingar búast við á þessu ári miklum erfiðleikum í sambandi við sölu sinna sjávarafurða. Skýringin er mjög einföld. Framleiðslukostnaður Norðmanna, sem stafar af því. að gengi íslenzkrar krónu er rangt skráð, er miklu lægri, en Íslendinga. Norðmenn geta því boðið sínar afurðir fyrir miklu lægra verð. Það má líka orða þetta þannig, að misræmið milli peningateknanna innanlands annars vegar og verðsins á erlendum gjaldeyri hins vegar sé ein aðalorsök erfiðleikanna. Peningatekjurnar innanlands, sem nú eru í krónutali 3–5 sinnum hærri, en fyrir stríð, skapa meiri eftirspurn um erlendan gjaldeyri, en hægt er að fullnægja með núverandi gengisskráningu eða verði á erlendum gjaldeyri, sem er hið sama og var fyrir stríð. Það hefur því ekkert hækkað, og gjaldeyririnn er óeðlilega ódýr. Hinn hái framleiðslukostnaður, sem er afleiðing verðlagsins innanlands, orsakar taprekstur í útflutningsframleiðslunni. Þetta misræmi má lagfæra með því að færa niður verðlag og tekjur og lækka þannig framleiðslukostnaðinn innanlands. Verðhjöðnunina yrði að framkvæma með beinum og óbeinum aðgerðum. Beinu aðgerðirnar kæmu fram í því að lögbjóða lækkun kaupgjalds og innlends verðlags, að svo miklu leyti sem það verðlag myndast ekki vegna innfluttra hráefna eða vara. Meðal almennings, sem engin tök hefur á að kynna sér þessa leið til hlítar, virðist þessi leið njóta talsverðra vinsælda. Ég á hér við skoðun þess hluta þjóðarinnar, sem gerir sér ljóst, að einhverjar aðgerðir séu óhjákvæmilegar, en ekki þess hluta, sem ekkert vill hugsa og vill hindra allar aðgerðir, sem á einhvern hátt breyta núverandi peningatekjum landsmanna. Þeir menn gera sér ekki grein fyrir því, að verði ekkert gert til breytingar, hlýtur öll atvinna að stöðvast í landinu innan skamms tíma. Þeir, er hallazt hafa að verðhjöðnunarleiðinni, virðast hafa myndað sér þá skoðun, að hægt sé að leysa vandann með því að lækka kaupgjald og vöruverð í sama hlutfalli. Þessi hugsunarvilla er almenn. Mun ég koma að þessu atriði síðar.

Óbeinu aðgerðirnar í sambandi við þessa leið eiga að koma í veg fyrir myndun nýrrar dýrtíðar. Eru þær fólgnar í því að lækka peningatekjurnar með hækkun skatta í viðbót við beinu tekjulækkkunina, enn fremur með því að lækka ríkisútgjöld og draga úr útlánum bankanna. Mundi hið síðarnefnda þýða, að bankarnir innkölluðu lán í stórum stíl.

Verðhjöðnunarleiðin mundi koma mjög hart niður á þeim, sem ráðizt hafa í framkvæmdir og skulda mikið í því sambandi. Tekjur þeirra mundu í krónutali lækka mikið, en skuldirnar og afborganir þeirra haldast óbreyttar. Þeir, sem á undanförnum árum hafa keypt íbúðir með hinu háa verðlagi, mundu ekki fá staðið í skilum með afborganir og vexti, ef tekjur þeirra í krónutölu ættu að lækka, t.d. um þriðjung, en skuldin að standa í stað. Fjöldi hinna efnaminni borgara, sem þannig stæði á fyrir, mundu verða að missa íbúðir sínar og það fé, sem þeir hafa lagt í þær. Til þess að koma í veg fyrir þetta þyrfti að efna til allsherjar skuldaskila í landinu, þannig, að nafnverð eigna, skuldabréfa, verðbréfa, innstæðna í peningastofnunum og innlends gjaldmiðils yrði fært til samræmis við lækkun vinnulauna og innlends verðlags. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að engin þjóð með séreignarskipulagi hefur nokkru sinni lagt út í slíkt ævintýri með alla sina efnahagsstarfsemi, enda er ógerlegt að sjá út yfir, hvort slíkar aðgerðir væru framkvæmanlegar eða hvaða áhrif ~þær kynnu að hafa á starfsemi og efnahagskerfi þjóðfélagsins. Með þessu væri líka eyðilagður einn helzti tilgangur verðhjöðnunarleiðarinnar, að auka gildi sparifjár og peningaeigna.

Í áliti hagfræðinganna segir svo um þessa leið, meðal annars:

„Á almennri og stórfelldri verðhjöðnun er ekkert að græða, sem ekki er fáanlegt á einfaldari hátt eftir öðrum leiðum. Séu almenn skuldaskil þáttur í verðhjöðnuninni, þá hefur í rauninni ekki annað gerzt, en að almennt verðgildi peninganna hefur breytzt fyrir alla í jöfnu hlutfalli og að um leið hefur erlent og innlent verðlag verið samræmt. Almenn breyting á verðgildi peninganna er ekki annað, en að mælíkvarðinn í fjárhags- og atvinnulífi breytist. Hann er stækkaður, og er í sjálfu sér ekkert unnið við að mæla í stórum, fremur en smáum einingum. Og samræmingu innlends og erlends verðlags er hægt að framkvæma á miklu einfaldari hátt með gengislækkun, einkum þegar misræmið er mikið.“

Sú aðgerð, sem hér hefur verið rædd, miðar að því einu að samræma kaupgjaldið og allt annað við gengið í stað þess að samræma gengið við allt annað. Hugmyndin með verðhjöðnuninni er því aðeins sú að breyta mörgum flóknum og erfiðum atriðum til samræmis við eitt, sem á að halda óbreyttu, — það er gengi krónunnar. Það væri sama og að fara yfir lækinn til að sækja vatn og eiga það á hættu að lenda í miklum hrakningum á leiðinni.

En nú er rétt með fáum orðum að gera grein fyrir áhrifum kauplækkunar og innlendrar verðlækkunar á framleiðslukostnaðinn í landinu, og hvort þessi leið getur náð því marki, er hún stefnir að, en það er að gera útflutningsframleiðsluna samkeppnishæfa á erlendum markaði.

Samkvæmt athugun, sem gerð var 1947, þurfti þá launalækkun að nema 30–50% á 60 tonna mótorbáti og lækkun annars kostnaðar að nema 15–28%, til þess að útgerðin gæti borið sig. Síðan hefur framleiðslukostnaður bátaflotans hækkað mikið. Einnig var reiknað út af hagstofustjóra 1947, hvaða áhrif það hefði, ef kaupgjadlið væri greitt með vísitölu 200. Það mundi þýða 38,5% kauplækkun, en framfærsluvísitalan mundi þá hafa lækkað úr 325 niður í 272 stig, sem væri 16,3% lækkun á vísitölunni. Jöfn lækkun kaupgjalds og vöruverðs getur ekki fylgzt að. Innlenda verðlækkunin yrði afleiðing af lækkuðu kaupgjaldi, að svo miklu leyti sem kaupgjaldið er hluti vöruverðsins. Kaupgjaldið mundi því alltaf verða að lækka meira en vöruverðið, og launþegar þess vegna ekki fá nægilega lækkun á vöruverði til þess að bæta sér upp kauplækkunina. Hins vegar þarf ekki að fara í neinar grafgötur til að gera sér ljóst, að ógerlegt er í framkvæmdinni að lækka kaupgjaldið um 40%, án þess að á móti kæmu uppbætur til launþegans í einhverri mynd að mjög verulegu leyti. En slíkar uppbætur mundu ekki fást með verðhjöðnunarleiðinni nema að nokkrum hluta. Auk þess má fullyrða það, sem hér skiptir mestu máli, að slík kaupgjaldslækkun mundi ekki leysa vandkvæði bátaflotans.

Hagfræðingarnir segja svo um niðurstöðurnar af athugunum sínum á verðhjöðnunarleiðinni: .

„Niðurstöður okkar um samanburð á verðhjöðnun og gengislækkun verða þessar: Verðhjöðnun, sem næði sama árangrí og gengislækkun, mundi í bili leggja miklu þyngri byrðar á herðar launafólks, en gengislækkunin og mundi taka miklu lengri tíma að ná tilætluðum áhrifum.“

Það er því enginn vafi á, að verðhjöðnun, er að gagni kæmi, þyrfti að vera svo stórkostleg og mundi leggja svo þungar byrðar á launþegana í landinu, a.m.k. fyrst um sinn, að telja má gersamlega útilokað að fara slíka leið, auk þess sem hún mundi valda slíkri byltingu á efnahagskerfi landsins, að hún mundi að líkindum reynast óframkvæmanleg. Þeir, sem þessa leið vilja fara, munu allir hafa sér það til afsökunar, að þeir hafi ekki kynnt sér málið og afleiðingar þess til hlítar.

Þá kem ég að þriðju leiðinni, gengislækkunarleiðinni, sem sérfræðingum kemur saman um, að sé án efa áhrifamesta og skjótasta leiðin til leiðréttingar á því misræmi, sem myndazt hefur í efnahagsmálunum. Sérhver leið, sem valin verður út úr ógöngunum, verður dæmd eftir því, hversu skjótan afturbata hún veitir atvinnulífinu, hversu þungar byrðar hún leggur á landsmenn og hversu auðveld hún er í framkvæmd. Gengislækkun, eins og áður er sagt, er í rauninni ekki annað en það, að gengið er samræmt þeim mörgu liðum í efnahagsstarfseminni, sem aflaga hafa farið, í stað þess að samræma alla þá liði við gengið og halda því óbreyttu. Þetta skýrir betur, en flest annað, að gengislækkunarleiðin er miklu auðveldari í framkvæmd og skjótvirkari en aðrar leiðir, er til greina geta komið.

Liggur þá næst fyrir að gera sér grein fyrir, hversu skjótan og varanlegan bata þessi leið veitir atvinnulífinu.

Þegar rætt er um afkomu útflutningsframleiðslunnar í sambandi við gengislækkun, þá gildir sama meginreglan um þessa leið og aðrar leiðir að því leyti, að ráðstafanirnar verða að miðast við það markaðsverð, sem fáanlegt er um það leyti, sem ráðstafanirnar eru gerðar. Verði mikið og skyndilegt verðfall á afurðunum á erlendum markaði, þá getur gengislækkunin eða hver önnur ráðstöfun orðið ófullnægjandi. En í því efni verður að láta hverju ári nægja sína þjáningu. Til þess að gengislækkunin komi að notum, verður að miða hana við það krónuverð, sem meginhluti útflutningsframleiðslunnar (bátaútvegurinn), þarf að fá til þess að standast allan framleiðslukostnað, eins og hann er nú, ásamt eðlilegum rekstrarhagnaði vegna fyrninga o. fl. Bátaútvegurinn hefur undanfarið ekki selt afurðir sínar fyrir kostnaðarverð og því fengið uppbætur úr ríkissjóði. Útflutningsafurðir bátaflotans, aðrar en síldarafurðir, námu kringum 140 millj. kr. 1949 og eru því meginþáttur útflutningsins. Gengislækkun verður fyrst og fremst að miðast við, að þessi rekstur fái borið sig. Við gengislækkun fær þessi og önnur framleiðsla til útflutnings beina hækkun í krónutölu á verði afurðanna, sem nemur allri gengislækkuninni, og er tiltölulega auðvelt að áætla, hversu mikla gengislækkun reksturinn þarf til að bera sig. Með þessari leið er því hægt að tryggja rekstrarafkomu meginhluta framleiðslunnar. En hvort slík trygging er varanleg, veltur á því, hvaða ráðstafanir eru gerðar samtímis til þess að hindra framhald verðhækkunar og kauphækkunar í landinu. Hagfræðingarnir segja í áliti sínu, „að með almennum kauphækkunum verður ekkert að ráði af neinum tekið nema útflutningsframleiðendum, sem eru varnarlausir þegar varðveita á gengið.“ Það eru því meginskilyrði fyrir því, að gengislækkun nái tilgangi sínum, að gagnsemi hennar fyrir framleiðsluna sé ekki að engu gerð með nýrri kaup- og verðþenslu. Sama gildir um allar aðrar ráðstafanir, sem gerðar kynnu að verða.

Ég kem síðar að því atriði, hvort gengislækkun sú, sem lagt er til að verði framkvæmd, sé fullnægjandi fyrir útflutningsframleiðsluna. En um það mun ekki vera deilt af þeim, sem skyn bera á þessi mál, að engin leið veiti atvinnulífinu skjótari og áhrifaríkari hjálp til að komast út úr taprekstrinum en gengislækkun. Er þá næst að athuga, hvaða byrði gengislækkunin leggur á þjóðina með skerðingu á núverandi lífskjörum. Um þetta segja hagfræðingarnir í áliti sínu á þessa leið:

„Það hefur oft verið látið í veðri vaka, að ekki væri hægt að gera neinar ráðstafanir, sem að. gagni kæmu, til úrbóta atvinnu- og fjárhagsvandamálunum, nema slíkar ráðstafanir hefðu í för með sér skerðingu lífskjara þjóðarinnar í heild, einkum launþega. Varðandi launþegana skal vakin athygli á því, að hagsmunir þeirra og þjóðarinnar verða ekki aðskildir, þar sem 80–90% af þjóðinni eru annaðhvort beinlínis launþegar eða lifa við svipuð kjör og þeir, t.d. bændastéttin. Þessi hugsunarháttur er að okkar áliti alrangur, eins og við munum leiða rök að. Markmið heilbrigðrar stjórnarstefnu hlýtur ávallt að vera það að skapa almenningi í landinu sem bezt lífskjör, þannig að prófsteinninn á réttmæti ákveðinna ráðstafana í atvinnu- og fjárhagsmálum hlýtur einmitt að vera sá, hvort þessar ráðstafanir séu til þess fallnar að bæta lífskjör almennings í bráð og lengd, og á það auðvitað einnig við um tillögur þær, sem hér eru lagðar fram.“ Síðan ræða þeir þær leiðir, sem til greina koma, aðrar en gengislækkunarleiðina, og segja svo: „Við teljum því, að veigamesta röksemdin fyrir að fara þá leið, sem við mælum með, sé einmitt í því fólgin, að hún mundi skapa almenningi mun betri lífskjör en þær leiðir, sem til greina koma.“

Þeir segja síðan, að það, sem mundi skapa grundvöll fyrir bættum kjörum, ef þessar ráðstafanir væru gerðar, miðað við það sem ella er í vændum, sé einkum þrennt:

1. Gengislækkunin mundi samræma erlent og innlent verðlag. Útflutningsframleiðslan mundi aukast og þjóðartekjurnar jafnframt.

2. Nokkur samdráttur yrði á fjárfestingu, en við það mundi aftur verða bætt úr tilfinnanlegum skorti á ýmsum neyzluvörum.

3. Kleift yrði að létta höftum af verzluninni, sem mundi gera hana miklu hagstæðari landsmönnum, en hún er nú. Óheilbrigðir verzlunarhættir, sem nú gera vart við sig, mundu hverfa.

En hver verður þá hin raunverulega byrði almennings vegna gengislækkunarinnar? Um þetta er komizt svo að orði í álitsgerð hagfræðinganna:

„Augljóst er, að sumar vörur, það er að segja, innfluttu vörurnar, stiga í verði (fob-verðið stígur), en útsöluverð þeirra stígur talsvert minna, en sem nemur gengislækkuninni. Svo er og fjöldi afurða og þjónusta, sem ekki stígur neitt í verði eða þá mjög litið. Útkoman verður sú, að verðlagið í heild sinni, og þá sérstaklega framfærslukostnaðurinn, stígur aðeins brot af því, sem gengislækkuninni nemur, og verður sú hækkun rædd síðar. Gengislækkunin getur náð tilgangi sínum, þó að einhver verðlagshækkun verði, og þó að nokkur kaupgjaldshækkun sé veitt. Gengislækkunin frá 1939 er sérstaklega mikilvæg í þessu sambandi. Hún sýnir glöggt, að verðlagið steig þá langtum minna en svaraði gengislækkuninni.“

Í sambandi við gengislækkunina 1939 var ákveðið að veita nokkrar uppbætur handa launþegum fyrir verðhækkun, sem af henni leiddi. Reynslan varð sú, að þótt gengi krónunnar væri lækkað um 18%, hafði verðlagið þremur mánuðum eftir gengislækkunina aðeins stigið um 2,1%. Það er því fjarstæða að fullyrða, að verðlag muni stíga til móts við gengislækkunina. Eins og nú standa sakir, er að vísu búizt við, að verðlagið stigi meira hlutfallslega, en 1939, og gera hagfræðingarnir ráð fyrir, að í sambandi við þá gengislækkun, sem nú er fyrirhuguð, muni verðhækkunin nema 11–13%. Segja þeir, að nettóaukning þjóðarteknanna í peningum muni nema um 110 millj. kr., og er það um 8,5% af þjóðartekjunum. Þeir halda því fram, að þessi hækkun á þjóðartekjunum gefi nokkurt hugboð um þá almennu verðlagshækkun, sem vænta má.

Hækkun vísitölunnar vegna gengislækkunarinnar er hægt að reikna nokkuð nákvæmlega út með því að athuga, hverju verðhækkunin nemur á fob-verð þeirra erlendu vara, sem taldar eru í vísitölureikningnum. Smásöluverð þessara vara er um 35% af vísitölunni, en þegar frá verðinu dregst álagning, tollar og flutningsgjald, verður fob-verðið ekki meira, en sem svarar 16–17% af vísitölunni. Ef þessi hluti vísitölunnar hækkaði um 74%, samsvarar hækkunin 12%, eða 12 vísitölustigum miðað við vísitölu 100. Þetta er að líkindum mesta beina hækkun, sem getur orðið, en líklegt er, að hækkunin verði minni. Byrði launþeganna er því samkvæmt þessu mest 12% hækkun á framfærslukostnaði vegna gengislækkunarinnar. En á móti því kemur samkvæmt þeim tillögum, sem liggja fyrir, kauphækkun, sem vísitöluhækkuninni nemur, og mikið bættir verzlunarhættir, enda er einn megintilgangur gengislækkunarinnar að gera verzlunina frjálsa og fella niður viðskiptahöft og athafnaskerðingu. Um leið fellur niður allur styrkur til sjávarútvegsins úr ríkissjóði, og léttist skattabyrði landsmanna sem styrkjunum nemur. Tapreksturinn hættir, og hverfur við það ein aðalorsök vaxandi dýrtíðar.

Ég ætla nú í stuttu máli að ræða nokkuð einstakar gr. frv.

1. gr. Ég hef þegar fært nokkur rök fyrir því, að gengislækkunarleiðin sé sú leið, sem beri að fara, eins og sakir standa. Hér er lagt til, að gengi krónunnar verði lækkað um 42.6%, en það þýðir, að verð erlends gjaldeyris hækki um 74.3% og gengi dollars verði 16.28 gagnvart krónunni. Þetta er mikil röskun, en þessi ákvörðun hefur verið tekin eftir mjög nákvæma athugun. Sú gengisbreyting, sem hér er lagt til að gerð verði, sýnir betur, en flest annað, hversu misvægið í þjóðarbúskapnum er orðið geigvænlegt. Ef enn um sinn ætti að freista þess að fresta öllum raunhæfum aðgerðum, þá þyrfti gengisbreyting síðar að vera enn meiri, en hér er lagt til. Því lengur sem því er skotið á frest að ná jafnvægi í efnahagsmálunum, því meiri þarf gengislækkunin að verða, þegar til þess kemur. Að því munu nú flestir spyrja, hvort svo mikil gengislækkun sé nauðsynleg. Því er til að svara, að engin ríkisstj. mundi hafa hvöt til að lækka gengi meira, en brýn nauðsyn krefur, vegna þess að erfiðleikarnir, sem slíkri aðgerð eru samfara, verða því stærri sem gengisfellingin er meiri. Hins vegar er það að fara úr öskunni í eldinn að lækka gengið án þess, að lækkunin nái þeim árangri, sem að er stefnt. Það, sem gengisbreytingin á fyrst og fremst að afreka, er að gera útflutningsframleiðsluna arðberandi, binda endi á tapreksturinn og leysa verzlunina úr viðjum haftanna. Stærsti þáttur útflutningsframleiðslunnar, bátaútvegurinn, hefur verið rekinn með miklu tapi undanfarin ár. Útflutningsafurðir þessa útvegs 1949 námu um 150 millj. kr., og eru þá síldarafurðir ekki taldar með. Sést af þessu, að bátaútvegurinn er meginstoð gjaldeyrisöflunar landsmanna. Við afkomu þessarar greinar útvegsins þarf því að miða gengisbreytinguna, svo að hún komi að fullum notum. Ábyrgðarverðið á bátafiskinum var síðasta ár 65 aurar, en með öðrum styrkjum munu bátaútvegsmenn hafa fengið sem svarar 75 aurum á árinu. Á þessu ári hefur bátaútvegurinn til bráðabirgða fengið 75 aura ábyrgðarverð, vegna hækkunar, sem orðið hefur á framleiðslukostnaðinum, auk fyrri fríðinda, eða alls um 85 aura. Verð það, sem bátaútvegurinn fær með gengislækkuninni, mun vera kringum 93 aurar, ef miðað er við 10 pence verð fyrir hvert enskt pund af freðfiskinum. Þetta er að vísu lægsta verð, sem freðfiskurinn hefur verið seldur á undanfarið, en mikið magn hefur verið selt á þessu verði. Hins vegar er þess að gæta, að allar líkur benda til þess, að þetta verð fari lækkandi á þessu ári, jafnframt því sem söluerfiðleikar fara vaxandi.

Þegar þetta er athugað, má segja, að gengislækkunin ætli fyrir nokkrum vanhöldum, enda er verðlag útflutningsframleiðslunnar nú svo ótryggt, að annað væri ekki verjandi. Gengislækkunin er áætluð í ríflegra lagi af fjórum meginástæðum:

1. Vegna þess, að launþegum er ætlað að fá fullar bætur fyrir hækkun á framfærslukostnaði, rýrnar hlutur útflutningsframleiðslunnar í því sambandi, og þarf því að taka tillit til þess.

2. Nauðsynlegt er, að hægt sé að taka móti nokkurri verðlækkun á sjávarafurðum, án þess að útvegurinn þurfi að stöðvast af þeim sökum.

3. Þótt gengislækkunin sé miðuð við það, að bátaútvegurinn verði rekinn styrkjalaust, er hún einnig miðuð við það, að hún sé nægileg til að koma á jafnvægi í verzluninni við útlönd, svo að létt verði höftunum af verzluninni, áður en langt um líður, ásamt ýmsum öðrum ráðstöfunum í því sambandi.

4. Og loks má segja, að gengislækkunin þurfi að vera rýmri, en ella, vegna hinnar miklu núverandi lánaþenslu bankanna. Til þess að gengisbreytingin nái tilgangi sínum, þarf þenslan að minnka. Verði henni haldið áfram, heldur dýrtíðin innanlands áfram að vaxa, og útflutningsframleiðslan kemst aftur í taprekstur og erfiðleika þrátt fyrir gengislækkunina.

Að öllu þessu athuguðu verður að telja, að gengislækkunin sé ekki meiri en nauðsyn krefur, og að mikil hætta væri á, að gengislækkunin næði ekki tilgangi sínum, ef farið væri vægar í sakirnar, en hér er gert.

Eins og ég hef áður sagt, er það álit hagfræðinganna, að hækkun á framfærslukostmaði vegna gengislækkunarinnar muni nema 11 –13%. Að vísu hækka erlendar vörur meira, en þessu nemur og þá sérstaklega þær vörur, sem lágt eru tollaðar. En á móti kemur það, að innlendar vörur og þjónusta hækkar lítið í verði.

2. gr. Að því er 2. gr. snertir, er fjallar um gengisskráningu í framtíðinni, þá er ætlunin með þessu ákvæði, að gengisbreytingar skuli ekki ákveðnar með lögum hverju sinni, eins og nú er, heldur er heimilt að breyta genginu, ef nauðsynlegt þykir að dómi ríkisstj., að fengnum tillögum bankastjórnar Landsbankans, til þess að viðhalda jafnvægisgengi, það er að segja, til þess að viðhalda jöfnuði í greiðslum við útlönd án gjaldeyrishafta. Ákvæði þetta er, ef að lögum verður, í raun og veru yfirlýsing löggjafarvaldsins um, að það vilji, að jafnvægi sé í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta ákvæði á að geta komið í veg fyrir það, að sama ástand myndist aftur eins og það, sem nú er verið að ráða bót á.

Afkoma landsmanna er undir því komin, að þeir geti haft vinnu við hagnýt störf. Atvinnan í landinu fer að mestu leyti eftir því, hvernig búið er að útflutningsframleiðslunni. „Þegar henni vegnar vel, þá vegnar þjóðinni vel“, segja hagfræðingarnir í áliti sínu. Gengisskráningin í framtíðinni á að halda svo miklu jafnvægi milli verðlags innanlands og utan, að aðalframleiðsla þjóðarinnar verði ekki styrkþegi hjá ríkissjóði.

3. gr. Flestir munu sammála um það, að sparifjáreigendur hafi orðið fyrir miklu tjóni af völdum verðhækkunarinnar innanlands síðan styrjöldin hófst. Sparifjársöfnun er þjóðinni nauðsyn, en án trausts á gildi peninganna verður ekki um sparifjársöfnun að ræða, svo að nokkru nemi. Sparifjármyndun er undirstaða farsælla efnahagslegra framfara. Þess vegna er nú lagt til, að myndaður verði sjóður, 10 millj. kr., úr þeim gengishagnaði, sem verður á gjaldeyriseign bankanna við gengislækkunina. Um leið og þetta ætti að bæta nokkuð tjón hinna raunverulegu sparifjáreigenda, er það um leið viðurkenning og hvatning til þess hluta landsmanna, er sinnir því nauðsynlega hlutverki að eyða minna, en hann aflar og á þann hátt sjá atvinnuvegum þjóðarinnar fyrir rekstrarfé.

4. gr. Samkvæmt þessari grein er gert ráð fyrir, að nokkur breyting verði á vísitölunni, sem meira er breyting á formi en efni. Vísitölugrundvöllurinn breytist að því leyti, að húsaleiga í nýjum húsum verður tekin upp í hann í stað gömlu húsaleigunnar, eins og nú er. Árangurinn verður sá, að húsaleigan hér eftír vegur meira í vísitölunni, svo að breytingar til hækkunar hafa meiri áhrif og launpeginn fær það meira uppbætt, en verið hefur. Enn fremur er miðað við útsöluverð á kjöti eins og nú er, án frádráttar á kjötstyrk. — Að öðru leyti er engin breyting á vísitölunni.

Vegna þess, að hætt verður að telja dýrtíðaruppbót sem sérstakan lið í launum og kaupgjaldi, sbr. 6. gr., og uppbót og grunnlaun hér eftir talið kaup í einu lagi, þótti heppilegt að byrja á nýjum grundvelli fyrir þær breytingar, sem á eftir koma. Sú vísitala, sem útreiknuð verður fyrir marzmánuð, verður gildandi fyrir þennan nýja grundvöll, og hún verður þá talin jafngilda 100. Allar breytingar, sem síðar verða skv. 7. gr., hafa áhrif til hækkunar eða lækkunar á þá vísitölu á sama hátt og veríð hefur. Þetta breytir ekki launum eða kaupgjaldi að öðru leyti en því, að launþegar losna við þá vísitölubindingu á kaupi, sem nú er, og kaupið tekur aftur að breytast eftir því sem vísitalan breytist til hækkunar eða lækkunar. Þetta er að því leyti mjög í þágu launþeganna.

Til skýringar má geta þess, að gert er ráð fyrir niðurgreiðslum á vísitölunni fyrst um sinn, á svipaðan hátt og verið hefur, til þess að halda verðlaginu í skefjum.

6. gr. Þessi grein þarfnast lítilla skýringa. Ég gat þess áðan. að grunnlaun og verðlagsuppbót verði eftirleiðis hvort tveggja talið í einu lagi. Þetta er nauðsynlegt vegna formbreytingarinnar á vísitölunni og er hins vegar mikill hægðarauki, að felld er niður sú tvískipting kaupgjaldsins, sem verið hefur í gildi frá ófriðarbyrjun. Má segja, að tími sé til kominn að gera hér breytingu á.

7. gr. Samkv. þessari grein skal allt kaupgjald í landinu hækka að sama skapi og framleiðslukostnaður hækkar samkvæmt visítölu. Með þessu er tryggt, að launþegar fá bætta alla þá verðhækkun vegna gengislækkunarinnar, sem vísitalan sýnir, eftir þeim reglum, er lögin ákveða.

Vísitalan skal reiknuð mánaðarlega, og skal greiða uppbót á laun, jafnmikla og hækkun vísitölunnar nemur, ei hækkunin nær 5% eða meira. Fyrstu þrjá mánuðina eftir að lögin taka gildi, skal hækkunin greidd mánaðarlega. En næstu sex mánuði þar á eftir skulu launin ekki breytast skv. vísitölunni, en að þeim tíma liðnum skulu greiddar uppbætur eftir þeim breytingum, sem orðið hafa á þessu tímabili. Næsta sex mánaða tímabil skal farið eins að, og skulu launin næst breytast skv. vísitölunni í júlí 1951. En eftir þann tíma hafa lög þessi engin áhrif á kaupgjaldið. Er þá gert ráð fyrir, að jafnvægi sé náð, svo að vísitalan breytist ekki mikið eftir það.

Í lögunum er það gert að skilyrði fyrir launabótum skv. vísitölu, að ekki verði hækkanir á grunnkaupi eða á annan hátt en lögin mæla. Er það gert til þess að hindra það, að einstakir hagsmunahópar, sem aðstöðu hafa til að knýja fram kauphækkun, nái sérstöðu gagnvart öðrum launþegum og komi af stað nýrri öldu kauphækkunar. Þeir, sem slíkt gera, fá ekki greiddar vísitölubætur á laun sín.

8. gr. þarf ekki skýringar við. Persónulegir styrkir, sem greiðast eiga skv. lögum, skulu taka sömu breytingum og kaupgjald og laun samkvæmt vísitölu.

9. gr. Þessi grein þarf lítilla skýringa við. Ákvæði greinarinnar eiga að draga úr verðhækkun á vörum fyrst í stað, eftir að lögin ganga í gildi.

Innlendar iðnaðarvörur mega ekki fyrstu þrjá mánuðina hækka sem nemur hækkun vinnulauna. En eftir það má reikna launahækkunina í vöruverðinu, en þó aðeins þá launahækkun, sem verður samkvæmt breytingu vísitölunnar skv. lögunum. Verði samþykktar aðrar kauphækkanir, má ekki hækka verðið sem þeim nemur.

Um verðlagningu landbúnaðarvara skal fara skv. ákvæðum gildandi laga. Þó má ekki hækka verð á mjólk fyrstu þrjá mánuðina vegna hækkunar á kaupgjaldi samkvæmt vísitölunni.

Í níu mánuði eftir að lögin ganga í gildi mega innflytjendur eða verzlanir ekki reikna venjulega verzlunarálagningu á þá krónutölu, sem vörurnar hækka um vegna gengislækkunarinnar. Með öðrum orðum, það má ekki leggja á gengislækkunina, ef svo mætti segja, til ársloka 1950. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir, að álagningin fari eftir venjulegum reglum og gildandi verðlagsákvæðum. Taka skal þó tillit til kauphækkunar verzlunarfólks, og er verðlagsyfirvöldunum skylt að leyfa hækkun álagningar í samræmi við slíka hækkun.

10. gr. Þessi grein þarf engrar skýringar við. Viðbótarverðtollur 65%, sem verið hefur í gildi undanfarin ár, skal lækka í 45%. Mun þetta að nokkru draga úr áhrifum gengislækkunarinnar á verð þeirra vara, sem háðar eru háum verðtolli.

11. gr. Með þessari grein er nokkur skattur lagður á afla nýju togaranna. Þótt óvissa sé nú mikil um framtíðarafkomu þessara skipa, þá hafa þau til skamms tíma haft miklu betri afkomu en bátaflotinn. Vegna þess að gengislækkunin er miðuð við afkomu bátanna, er hún talsvert meiri, en togararnir hafa til þessa þurft til sæmilegrar afkomu. Með þessu væri því togaraútveginum gefin miklu betri aðstaða og bátaútvegurinn þess vegna standa höllum fæti í samkeppninni um vinnuaflið. Til þess að jafna metin var það eindregið álit hagfræðinganna, að nauðsynlegt væri að leggja nokkurn skatt á afla nýju skipanna. Miðað við þá verðhækkun, sem togararnir fá í krónum vegna gengislækkunarinnar, verður varla sagt, að þeim ætti að vera ofviða að greiða 25% af ísfisksölum, sem eru umfram 8.500 £ í söluferð, eða 10% af andvirði saltfisks, miðað við gangverð upp úr skipi.

Á sama hátt er lagt til, að 10% útflutningsgjald sé sett á hvalafurðir og 8% á síldarafurðir, miðað við ákveðið magn.

12. gr. Þessi grein ákveður sérstakan skatt á eignir, sem að eðlilegum hætti ættu að hækka í verði vegna gengislækkunarinnar. Skatturinn er miðaður við eignir 31. des. 1949 og leggst á alla, sem skattskyldir eru skv. 1. og 2. kafla hinna almennu skattalaga frá 1935. Allir aðrir, en hlutafélög og samvinnufélög, mega draga 300 þús. kr. frá eignum sínum, áður en skattur er á lagður. Af því, sem þar er fram yfir, skulu þessir aðilar greiða 10% af hreinni eign, er nemur kr. 1.000.000,00, en 12% af því, sem er umfram kr. 1.000.000,00.

Hlutafélög og samvinnufélög fá engan frádrátt frá hreinni eign, en skattur þeirra skal nema 8% fyrir kr. 1.000.000,00 og 10% fyrir það sem er fram yfir.

Ástæðan fyrir því, að einstaklingum er heimilað að draga 300 þús. kr. frá eignum sínum, er sú, að þessi fjárhæð svarar naumast til meira en íbúðar eða íbúðarhúss, og þykir sanngjarnt, að slík eign sé hjá hverjum einum dregin frá hreinni eign, áður en skattur er á lagður.

Vegna þess, að sparifé, peningar, verðbréf og útistandandi skuldir hækka ekki vegna gengislækkunarinnar, skal þetta dregið frá hreinni eign skattgreiðanda. Hlutabréf skulu ekki talin með eignum skattaðila, heldur skal hlutaféð talið eign félaganna. Hins vegar skulu stofnsjóðir samvinnufélaga ekki taldir eign samvinnufélaga, heldur eign félagsmanna.

Þessu til skýringar er rétt að taka ummæli hagfræðinganna í áliti þeirra. Þeir segja svo:

„Í sambandi við athugun á stóreignaskattinum höfum við athugað þann möguleika, að láta menn bera skattinn í beinu hlutfalli við allar eignir í fríðu. Við höfum hins vegar komizt að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri naumast hægt, sökum þess, hvers eðlis eign í hlutafélögum er vegna þeirrar þróunar, sem hlutafélagalöggjöfin og skattalöggjöfin hafa valdið. Í sameiningu hafa þessir lagabálkar gert það að verkum, 1) að arð er erfitt að fá af hlutabréfaeign, þótt félagið sýni rekstrarafgang; 2) að af þeim orsökum væri ekki fært að leggja á sérstakan skatt, sem miðast við það, að hann greiddist af slíkum arði (t.d. vextir af skuldabréfum); 3) að ekki er heldur hægt að ná eign út úr hlutafélagi nema með afarkostum og því heldur ekki hægt að taka slíka eign með skatti hjá einstaklingi, og að ekki er heldur hægt að leggja hlutafélag niður nema með afarkost; um; 4) að þar sem erfitt er að fá hæfilegan arð af heilbrigðum rekstri, þá er það mjög almennt, að hluthafar hafi þá aðferð að fá sem starfsmenn félagsins tekjur af rekstrinum. Um leið veikir þetta fyrirkomulag mótstöðu svona atvinnurekstrar gegn óeðlilegum kaupkröfum. Það leiðir aftur til þess, að rekstur hlutafélaga verður dýrari en ella. Sú staðreynd, að mörg félaganna reka áhættusaman atvinnurekstur, þar sem mikil töp og mikill arður skiptast á, hefur einnig átt sinn þátt í því að stuðla að þessari óheppilegu þróun. — Slíkur rekstur verður sérstaklega fyrir barðinu á skattalöggjöfinni, þótt þetta hafi nú nokkuð verið lagfært. En sú lagfæring er meðfram orsök þess,. að eign í hlutafélagi er ekki til frjálsrar ráðstöfunar á sama hátt og aðrar eignir. Við leggjum því til, að skatturinn verði lagður beint á hlutafélögin.

Lítið hlutafélag, sem skilar hlutfallslega sama raunverulegum arði og stórt hlutafélag, er fjárhagslega jafnvel statt og stærra félagið, og leggjum við því til, að enginn frádráttur verði, áður en skatturinn er lagður á nettóeignir félaganna. Beri lítil félög sig jafnvel og. stór félög, þá er sá, sem á í mörgum litlum félögum, jafnvel stæður til þess að þola skattinn eins og ef hann ætti jafnmikið í einu stóru félagi. Sams konar rök gilda um eignir samvinnufélaga og þeirra félagsmanna. Ef frádráttur ætti að vera frá skattskyldri eign, þyrfti sá frádráttur að miðast við stærð félagsins. En þá má eins veita frádráttinn með því að hafa skattinn lægri hundraðstölu, og það er okkar tillaga.

Þar sem við teljum ekki fært að leggja skattinn á einstaklinga samkvæmt heildareignum þeirra í fríðu, verður ekki hjá því komizt, að skatturinn fellur ekki nákvæmlega jafnt á alla skattgreiðendur, þar sem hann fer að nokkru eftir því, hve mikill hluti eignanna er í hlutafélögum. Sama gildir um skattgreiðendur, sem eiga eign í samvinnufélagi.

Við leggjum til, að skatturinn á samvinnufélögin verði jafn og skatturinn á hlutafélögin. Í samvinnufélögum munu almennt eignaminni menn, en í hlutafélögunum. En þess ber að gæta, að stóreignaskatturinn á persónur sér fyrir þeim mun, þannig að hluthafinn er skatt; lagður utan hlutafélagsins. Auðvitað gildir hið sama um félaga í samvinnufélagi, sem á nettóeignir í fríðu umfram kr. 300.000.00. Enn fremur hafa eignir samvinnufélaganna myndazt við hagstæðari skattalöggjöf, en eignir hlutafélaganna. Og því má bæta við, að samvinnufélögin fást yfirleitt við áhættuminni rekstur, en hlutafélögin. Við teljum samt ekki rétt að leggja hærri skatt á þau, en hlutafélögin af tveimur orsökum. Í fyrsta lagi eru félagsmennirnir yfirleitt efnaminni, en meðlimir hlutafélaganna. Í öðru lagi miðast skatturinn við áhrif verðhækkunarinnar, sem fylgir gengislækkuninni, sem er yfirleitt jöfn fyrir allar eignir í fríðu, og ekki við önnur sjónarmið. Af svipuðum orsökum teljum við, að sérstök skattfríðindi megi ekki koma til greina í sambandi við þennan skatt, t.d. undanþága fyrir Eimskipafélag Íslands. Skatturinn er hugsaður þannig, að þeir, sem mestar hafa eignirnar, taki að sér nokkurn hluta lausaskulda ríkisins, og er því sérstök ástæða, að hann falli á stóreignir, sem myndazt hafa við hagstæða tekjuskattslöggjöf.“

Með þessu er gerð nokkuð skýr grein fyrir því, hvers vegna hlutafélög og samvinnufélög eru skattlögð með þeim hætti sem frv. greinir.

Um skattstigann er það að segja, að hann var ákveðinn að mjög vel athuguðu máli. Hagfræðingarnir höldu., að hann mætti ekki vera hærri né breytilegri, ef skynsemi og sanngirni ætti að ráða. Hér er stefnt að því að taka af skattþegnunum þá verðhækkun, sem kemur á eignir þeirra í fríðu vegna gengislækkunarinnar, og þess vegna verður skatturinn að fara eftir því og öðru ekki.

Auk þessara skýringa á einstökum greinum frv. vísast til greinargerðar, er því fylgir, ásamt álitsgerð hagfræðinganna, sem ræðir allt málið mjög ýtarlega, af mikilli glöggskyggni og víðtækri þekkingu.

Á bak við tillögur þessar liggur mikið starf og gaumgæfileg athugun á því, hvers konar aðgerða efnahagsástandið þarfnast og hver yrðu áhrif þessara aðgerða í framkvæmdinni. Þegar um svo stórbrotnar og margþættar ráðstafanir er að ræða sem þær, er hér eru fram bornar, má jafnan búast við, að einhverja galla eða veilur megi á þeim finna. Hitt er og ríkisstj. ljóst, að skiptar verði skoðanir um tillögurnar að ýmsu leyti, enda er það ekki óeðlilegt, þar sem þær snerta hag allra stétta í landinu. En þótt eitthvað kunni að verða að þeim fundið, þá er það álit og sannfæring ríkisstjórnarinnar, að með tillögunum sé vísað þá einu leið, sem unnt er að fara til þess að komast út úr því öngþveiti, sem atvinnurekstur og fjármál landsmanna eru nú komin í. Það er sannfæring ríkisstj., að með tillögunum verði náð þeim höfuðtilgangi, að gera sjávarútveginn arðberandi, að leiðrétta misvægi efnahagsástandsins, að leysa verzlunina úr viðjum haftanna og á þann hátt að tryggja atvinnu og afkomu landsmanna.

Um það mun nú yfirleitt ekki deilt, að öll útflutningsframleiðslan sé komin að stöðvun sökum þess, að hún er nær undantekningarlaust rekin með tapi. Hitt er almenningi í landinu ekki jafnkunnugt, að atvinnu- og efnahagslífið er allt að komast í sjálfheldu af þessum sökum. Taprekstur framleiðslunnar og hið mikla misvægi í allri efnahagsstarfseminni orsakar nú lömun í öllum framkvæmdum, svo að yfir vofir stórkostlegt atvinnuleysi. Tekjur ríkissjóðs fara hraðminnkandi vegna gjaldeyrisskorts, sem einnig leiðir af sér vöruþurrð, skort á hráefnum og rekstrarvörum. Allur rekstur þjóðfélagsins er í hættu. Ef alvarleg stöðvun verður í einni grein, getur hún breiðzt út eins og eldur í sínu, eins og nú standa sakir, og lamað þjóðfélagsreksturinn. Vér höfum aðeins stuttan frest til þess að verjast áföllunum. Þennan frest verðum vér að nota, — áður en það er orðið of seint, til þess að koma efnahagsmálum þjóðarinnar á réttan kjöl.

Ríkisstj. er ljóst, að örlög þessara tillagna eru komin undir skilningi þings og þjóðar, skilningi á því, hversu mikið er í húfi. Hún hefði helzt kosið, að hægt hefði verið að tryggja tillögunum fyrir fram fylgi meiri hluta þings. Tilraun hefur verið gerð í þá átt síðustu vikurnar, en ekki hefur tekizt að ná slíku samkomulagi, eins og sakir standa, og þess vegna ákvað Sjálfstfl. að leggja tillögurnar fyrir þingið. — Flokknum og ríkisstj. eru ljósir þeir miklu annmarkar, sem á því eru að leggja fyrir þingið frv. um mikla gengislækkun, sem ekki er fyrir fram tryggð skjót afgreiðsla. Ég viðurkenni, að þetta er óvenjulegt. En flokkaskipunin er nú þannig á Alþingi, að stjórnin telur sig ekki eiga annars úrkosti, eins og sakir standa, en að leggja frv. fram og leggja það á vald þingsins, hversu skjóta afgreiðslu það veitir því, með tilliti til þess, hvaða áhrif það getur haft á efnahagsástand landsins, ef afgreiðslan dregst úr hófi. Hættan, sem í því liggur, að frv. er ekki fyrir fram tryggður framgangur, er sú, að afgreiðsla þess verði dregin á langinn. Af því gæti svo leitt það, að gjaldeyrissala stöðvaðist með öllu og lamaði innflutnings- og útflutningsverzlun landsins. Þessa hættu er hægt að forðast með því að frv. fái skjóta afgreiðslu á Alþingi, enda hefur stjórnin lagt frv. fram í því trausti, að svo megi verða.

Þegar lögin um bráðabirgðaaðstoð við bátaútveginn voru sett í janúar, þá var gert ráð fyrir því, að unnt yrði að gera ráðstafanir til frambúðar fyrir 1. marz, er gerði bráðabirgðaráðstafanirnar óþarfar. Málið hefur dregizt meira en ætlað var í fyrstu vegna samningaumleitana. Nú er 1. marz á næstu grösum og ekki líklegt, að þessar tillögur eða aðrar hafi þá tekið gildi, til þess að koma í stað bráðabirgðaráðstafana. Í marzmánuði hefst aðalveiðitími vertíðarinnar, og með hverjum ugga, sem kemur á land hjá bátaflotanum, getur ríkissjóður orðið að greiða fé. — Skuldbindingar ríkisins í þessu efni vaxa því með hverjum deginum sem líður, án þess að nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til tekjuöflunar til þess að standa undir þessum miklu skuldbindingum. Þingið ákvað sjálft að fara þessa leið. Nú verður það að gera sér ljóst, hvert stefnir. Frv. stjórnarinnar, ef samþykkt væri skjótlega, firrir ríkissjóð þessari yfirvofandi hættu.

Enginn vafi er á því, að tillögurnar, eins og þær eru, leysa þau vandamál, sem nú eru mest aðkallandi, ef framkvæmdin getur orðið eins og til er ætlazt. En það er eins með þær og aðrar tillögur, sem til greina koma, að það er hægt að gera þær áhrifalausar, ef launastéttir þjóðfélagsins skera upp herör gegn þeim og fá knúið fram kauphækkanir, sem koma framleiðslunni aftur á kné. Þótt slíkar grunnkaupshækkanir væru næsta fáránlegar, eins og á stendur, og gengju brjálæði næst, mætti hugsa sér, að slíkt gæti gerzt. Þótt það væri að vísu refsidómur þjóðfélagsins yfir sjálfu sér og yfirlýsing um vanmátt þess til sjálfstjórnar, þá er ætíð möguleiki, að slíkt gæti gerzt að tilhlutun þeirra þjóðfélagsafla, sem þrífast bezt á öngþveiti og almennum skorti.

Ef slíkt kemur fyrir, þá verður þjóðinni ekki bjargað frá því að þurfa að bergja í botn hinn beiska bikar erfiðleikanna. Hún mundi verða að ganga til enda þá leið glundurs og giftuleysis, sem hún fetar nú, og greiða fyrir mistök sin með margra ára skorti og þrengingum.

Ríkisstj. væntir þó, að ekki þurfi að því að draga, því að eitt höfuðsjónarmið hennar við samningu tillagnanna var það, að ráðstafanirnar kæmu með sem minnstum þunga á bak launastétta þjóðfélagsins og að réttur verkalýðsins til samninga um kaup og kjör yrði á engan hátt skertur með ákvæðum frv. Þess vegna leggur ríkisstj. til, að launþegarnir fái að fullu bætt í kaupi það, sem framfærsluvísitalan sýnir að verðlag hafi hækkað vegna gengislækkunarinnar. Þetta veitir launþegunum rétt til kauphækkunar, eftir því sem verðlagið hækkar, og má því kallast kjarabót, en ekki kjaraskerðing frá því, sem nú er.

Þetta getur að vísu, talizt vafasöm ráðstöfun eins og sakir standa, og má í því sambandi benda á, að verkamannastjórnin í Bretlandi breytti gengi sterlingspundsins án þess að veita verkamönnum eða öðrum launþegum nokkra uppbót vegna gengislækkunarinnar. Brezka stjórnin hefur til þessa staðið ósveigjanleg gegn öllum kauphækkunum af þessum sökum og talið það skilyrði fyrir því, að gengisbreytingin komi að tilætluðum notum.

Þetta sjónarmið á að sjálfsögðu við hér eins og í Bretlandi, en ríkisstj. er þó þeirrar skoðunar, að mjög vel athuguðu máli, að þessar ráðstafanir komi að notum, þótt kaupbætur verði gefnar eins og lögin mæla, ef aðrar kauphækkanir koma ekki til greina. En verði farið út á þann hála ís að knýja fram grunnkaupshækkanir, þá koma hvorki þessi né önnur bjargráð að notum. Þá heldur straumurinn áfram að falla í hinum sama farvegi og hann er nú og þjóðin flýtur áfram að feigðarósi.

Með tillögunum er engin tilraun gerð til kaupbindingar. Verkalýðurinn hefur óbundnar hendur og óskoraðan rétt, eins og hann hefur haft til að semja um sín mál. Ríkisstj. treystir því, að almenningur í landinu sé svo þroskaður og gerhugull, þegar á hólminn er komið, að hann snúist ekki öndverður gegn sínum eigin hagsmunum og smiði þannig vopnin, sem sárast mundu bíta hann, þegar frá líður.

Það er ekki hægt að bæta úr jafnvægisskorti efnahagsástandsins með kauphækkunum. Það er ekki hægt að bjarga útflutningsframleiðslunni með kauphækkunum. Það er ekki hægt að skapa nokkru þjóðfélagi velsæld með kauphækkunum eingöngu. Hvert þjóðfélag er háð sínu eigin jafnvægi — og meira verður ekki tekið, en til er.

Jafnvægi í atvinnulífinu er ekki hægt að festa í eitt skipti fyrir öll, eins og fána, sem negldur er á stöng. Jafnvægið er hverfult, og þarf að viðhalda því með réttri stefnu í fjármálum, með sanngjarnri og heilbrigðri skiptingu veraldlegra gæða, með skynsamlegum stjórnarháttum og með tilliti til þess efnahagslögmáls, sem atvinnu- og fjármálakerfi landsins byggist á.

Þessar tillögur stefna að því að bjarga atvinnurekstri landsins, sem nú er að bera upp á sker. Boðarnir rísa hvarvetna fram undan, og ógæfan verður ekki umflúin, nema þjóðin öll, hver einstaklingur og stétt, skilji nú sinn vitjunartíma og standi samhent og einhuga að gera það, sem skynsemin og skyldan býður.

Umheimurinn fylgist með því af athygli, hvernig þjóðin snýst nú við þeim vanda, sem hún hefur á höndum sér. — Efnalegt sjálfstæði hennar í framtíðinni getur verið undir því komið. Nú eru aðeins fimm ár siðan vér endurreistum lýðveldið. Frelsið reynist stundum erfitt hnoss. Erfiðleikarnir, sem þjóðin stendur nú andspænis, verða prófsteinninn á manndóm hennar og á það, hvort hún er fær um að varðveita það frelsi, sem hún hefur eftir margra alda baráttu endurheimt.