27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þá er loks hið margumtalaða pennastrik komið fram, í frv.-formi. Þetta frv. er búið að vera lengi á leiðinni og ber einkennilega að. Mikið hefur verið rætt um það manna milli, að til hafi staðið að bera fram frv., sem kæmi með varanlega lausn í atvinnu- og fjárhagsmálum þjóðarinnar. En þetta hefur borið þannig að, að laumulega hefur verið farið með, svo sem venja er til, þó að laumulegast hafi verið farið með þetta af öllu er fram hefur komið á undanförnum árum. Það er svo, að í þrjár vikur hefur málið verið í höndum nokkurs hluta þm. Síðan er tilkynnt í blöðunum, að margir menn utan þings hafi fengið að kynnast því, en aðrir ekki fengið að sjá frv. En nú er búið að kasta því hér fram á þ. til umræðu á næturfundi. Þó er það svona hjá lýðræðisflokkunum, að þeir vilja kenna hið rétta lýðræði. En áður hefur það verið svo, að maður fær þessi stóru mál í bókarformi, og er afhent þau til að hespa þau af.

Þetta mál hefur borið þannig að, að ég er lítið hrifinn af og held, að blett setji á þingstörfin, eins og hæstv. landbrh. sagði að væri orðið svo algengt með störf Alþingis. Frv. er komið fram, og er það að vísu um efni, sem menn þóttust vita einhver deili á. Ég hafði búizt við tillögum um gengisbreyt. Mál þetta var svo túlkað, að fyllilega var við þeim að búast. Ég hafði þó ekki búizt við, að hér yrði komið fram með jafneinhliða gengisbreytingar, það yrði nær eingöngu um það að ræða að breyta gengi gjaldmiðils okkar, svo að þetta mundi bitna þungt á launafólki í landinu, en engar ráðstafanir aðrar yrðu jafnframt gerðar, þannig að teljandi mætti kalla. Hér er nær eingöngu gengisbreyting, og af fulltrúum Sjálfstfl. hefur verið lögð sérstök áherzla á það, að utan við afgreiðslu hennar beri að halda öllum till., sem gæti þýtt það, að engar verulegar breytingar yrðu gerðar á neinum öðrum málum, er deilt er um og varða atvinnu- og fjárhagslífið í landinu. En það þarf að gera sér ljóst, að þetta kemur til með að bitna verulega á launþegum í landinu. Allt annað er útilokað, — því að það að hækka gengi erlends gjaldeyris um 60–70% táknar, að innkaupsverð vöru, sem keypt er fyrir 300 millj. kr., hækkar um 200 millj. kr., án þess að kaupgjald eigi að breytast að ráði. En búizt var við, að till. kæmu fram jafnhliða, er fælu í sér samsvarandi byrðar á aðra, en launþega. En þær er ekki hér að finna í þessu frv. — Ég skal nú víkja að því síðar, sem ég hefði talið eðlilegar aukaráðstafanir. Hins vegar er því haldið fram, að nái frv. þetta samþykki, þá sé allur vandi fjárhagslífsins leystur, atvinna tryggð og góð afkoma yfirleitt. Í þessum efnum tók ég eftir því, sem hæstv. fjmrh. sagði um ískyggilegasta þáttinn í frv. Var hann að dómi mínum svo furðulega bjartsýnn á „pennastrikið“, að það átti einnig að leysa vandann að þessu leyti. Hann sagði, að Norðmenn væru ekki í neinum vanda staddir um sölu á sjávarafurðum sínum. Skýringin væri sú, sagði hæstv. ráðh., að framleiðslukostnaðurinn hjá þeim væri lægri. Þess vegna þurfum við að lækka framleiðslukostnaðinn eins og þeir. Nú skal ég ekki draga í efa, að þessar breytingar á gengisskráningunni mundu gera kleift að lækka verðið á sumum sjávarafurðum til útflutnings. En þá stendur eftir, að þrátt fyrir það erum við í vanda staddir með að finna markaði fyrir sjávarafurðir okkar. Og nú skulum við rifja upp helztu þættina.

Jú, hagfræðingarnir hafa mest miðað við verðið á hraðfrysta fiskinum, það, sem á honum hefur verið, og hitt, sem ætti að geta verið án útflutningsuppbótanna. Við framleiddum s.l. ár um 28 þús. tonn af hraðfrystum fiski. Af því magni seldum við um 20 þús. tonn til Bretlands og Hollands. Aðrar þjóðir keyptu af okkur um 8 þús. tonn, held ég. Þetta er nú ekki svo mikið. En ég gæti nefnt einstakar afurðategundir, t.d. steinbít, og þó er meira eftir. En hvað um það, við skulum segja, að það hefði nú selzt til annarra þjóða, en þessara tveggja 8.000 tonn af þessum fiski, en nú er það samt vitað, að Bretar og Hollendingar hafa gefið það ótvírætt í skyn, að þeir kaupi ekki framleiðslu, okkar af hraðfrystum fiski. Bretar segjast hafa hann liggjandi hjá sér, og sömuleiðis er það vitað, að Hollendingar liggja uppi með allmiklar birgðir af honum enn, því að þeir keyptu ekki fyrr, en síðast á árinu. Það eru uppi skoðanir um það meðal manna, sem selja þessa vöru, að það muni reynast erfitt að tvöfalda söluna á þessum fiski í öðrum löndum, þegar þessar tvær þjóðir bregðast svona. Það er með öðrum orðum um markaðsörðugleika að ræða. Og ef við nú gerum ráð fyrir, þrátt fyrir breytinguna, að bankarnir, eins og þeir gera í dag, neiti að lána nema út á það, sem svarar 15 þús. t., þá er eftir um það bil helmingur, miðað við framleiðslumagnið í fyrra. Hvað á þá að gera við þetta magn? Menn hafa helzt talað um að breyta þessum hluta framleiðslunnar í saltfisk. Síðastl. ár var saltfiskframleiðslan 21 þús. t., og það er raunar alveg rétt, að öll sú framleiðsla seldist. En ef við bættist þetta magn hraðfrysta fisksins, 15 þús. t., sem mundi jafngilda um 20 þús. t. af saltfiski, þá væri saltfiskframleiðslan þannig komin upp í 40 þús. t., miðað við sömu veiði og í fyrra, og er það álit þeirra manna, sem að sölu hafa staðið, að það muni verða strangt að koma því magni út, jafnvel þó að verðið yrði eitthvað lækkað. En eins og er, þá eru ekki aðstæður til þess að breyta saltfiskinum í öðruvísi framleiðsluvöru. En við gætum ef til vill komið þessum 40 þús. t. af saltfiski út, — við skulum segja, að það sé hægt, — en þá er bara eftir stærsti „faktorinn“, sem er togarafiskurinn, 120 þús. t. af ísfiski, sem jafngilda um 70 þús. t. af saltfiski, og hvað á þá að gera við hann? Nú er Englandsmarkaðurinn úr sögunni, og gengisbreytingin fær því ekki orkað, að hann komi aftur, hún verður alveg áhrifalaus um það. Við verðum sem sagt alveg jafnpeningalausir eftir sem áður. Togararnir hafa alveg gefið brezka markaðinn upp á bátinn.

Síðastl. ár höfðum við kvóta á Þýzkaland fyrir 70 þús. t. af ísfiski, en nú er sá markaður ekkert, sem teljandi er, og þess vegna eru nú togararnir farnir að flýja í saltfiskinn, en í það neita bankarnir nú að lána og segja raunverulega, að það ætti að stöðvast, af því að útlit er fyrir, að ekki sé hægt að selja saltfiskinn. Við höfum sem sagt ekki í dag neina markaði fyrir afla togaraflotans og fáum þá ekki þrátt fyrir gengisbreytinguna. Menn mega því ekki láta hafa svo mikil áhrif á sig, að þeir álíti, að allt verði í lagi, ef þessari gengisbreytingu er komið á. Nei, togaraflotinn getur stöðvazt engu að síður, og þó að gengisbreytingin hefði komið á fyrir þremur mánuðum, þá hefði togaraflotinn stöðvazt þrátt fyrir það, vegna þess að það voru ekki markaðir fyrir hendi.

Það er hins vegar rétt, að aðrar afurðir ýmsar, eins og t.d. lýsi, mundu seljast við sæmilegu verði, en þó ekki við meira verði, en sem svarar sölunni 1948. Framleiðslan á þorskalýsi 1949 er öll í landinu enn, en salan mundi ekki verða meiri en 1948, vegna lækkunar á lýsisverði á heimsmarkaðnum. Nei, eftir sem áður mun aðalvandamálið vera að tryggja markaði fyrir framleiðslu okkar, og ef okkur tekst ekki að finna þá, þá er yfirvofandi stöðvun í atvinnulífinu, þrátt fyrir gengisbreytinguna.

Þetta, sem ég hef nú sagt, snýr aðallega að togurunum, og þá er eftir að athuga þetta mál frá sjónarmiði bátaútvegsins.

Ég get ekki séð, að hagur bátaútvegsins yrði nokkurn skapaðan hlut betri þrátt fyrir gengisbreytinguna. Ég sé, að landbúnaðarfulltrúar hossast af hlátri, þegar þeir heyra þetta, en þeir munu nú samt eiga eftir að komast að raun um, að þetta er nú svona samt. Sannleikurinn er sá, að bátaútvegurinn hefur verið tryggður með ríkisábyrgð að nokkru leyti, þannig að núna eru honum tryggðir 75 aurar fyrir fiskinn, en hagfræðingar segja, að með þessari gengisbreytingu muni verða hægt að fá 93 aura fyrir kg. af fiskinum, en þegar olían hækkar og allt annað, sem til rekstrar bátanna þarf og flutt er inn í landið, þá er ég viss um það, að það þyrfti ekki minna en 93 aura verð fyrir fiskinn, þegar borið er saman við þá 75 aura tryggingu, sem nú er á honum. En hvaða trygging er þá fengin með þessu? Hversu miklar líkur eru fyrir því, að hraðfrystihúsin eða þeir, sem kaupa fiskinn til söltunar, vilji kaupa hann á 93 aura kílóið? Ég er sannfærður um það, og það munu margir taka undir með mér, sem eitthvað hafa haft með þetta að gera, að það mundu fáir verða til þess að kaupa hann á því verði. En það gæti þvert á móti farið svo, ef þetta frv. verður samþ. og ríkisábyrgðin felld niður, að bátaútvegurinn færi í ringulreið. Ef það ætti ekki að verða, er það að minnsta kosti víst, að bankarnir yrðu að vera rýmilegri við þá, sem kaupa fisk, heldur en þeir eru nú í dag, þegar þeir þyrftu að greiða 93 aura fyrir hann, en upp í það þyrfti bátafiskurinn að fara til þess að standa svona nokkurn veginn jafnfætis við það 75 aura verð, sem nú er á honum og tryggt er með ríkisábyrgð. Þessi gengisbreyting er því ekki gerð með hagsmuni bátaútvegsins fyrir augum, en hins vegar mundi hún létta gjöldum af ríkissjóði, og mætti því segja, að hún hefði sömu áhrif að nokkru leyti.

Ég held því, í stuttu máli sagt, að þessi gengisbreyting líti þannig út, séð frá bæjardyrum útvegsmanna, að hún gildi mjög lítið fyrir togaraflotann vegna markaðsleysis á afurðum hans, sáralítið og jafnvel ekkert fyrir bátaútveginn, en gæti jafnvel orðið honum til stórtjóns.

Nú, en það, sem þessi gífurlega gengisbreyting mundi fyrst og fremst þýða, er stórkostleg hækkun vöruverðs, og sú hækkun mundi koma niður á launþegunum. En er það nú svo, og á það að vera svo, að þegar sjávarútvegurinn ber sig ekki, að þá eigi þessi eini liður, sem snýr að launastéttunum í landinu, að koma þar á móti, til þess að allt verði í lagi? Er verzlunarskipulagið þá í raun og veru svo gott, að ekki sé neinna breytinga þörf á því? Halda menn, að verzlunarhættir þeir, er hér tíðkast, séu í raun og veru svo góðir, að tillögur til breytinga á þeim megi bíða, en láta í þess stað allt á herðar launastéttanna? Frv. þetta ber það alveg með sér, að þeir, sem það bera fram, álíta, að bezt sé að hafa verzlunarskipulagið alveg óbreytt, og álíta það svo gott, að það þurfi engra breytinga við.

Nú hefur oft verið á það bent, að útgjöld ríkisins séu hreint ekki svo lítil í sambandi við ríkisbáknið og embættabákn þess, sem er miklu meira, en nauðsynlegt getur talizt. En engar till. eru um það hér að draga þetta kerfi nokkuð saman, í því máli hefur ekki verið gert annað en það, að framvegis á einn ráðherra að leggja blessun sína yfir nýjar ráðningar.

Nei, væri ekki réttara að leysa vandann í sambandi við það gróðabrall, þar sem menn hafa á óleyfilegan hátt rakað að sér stórfé á kostnað annarra, heldur en að leysa hann algerlega á kostnað launastéttanna í landinu? Enn eitt atriði. Talsvert verulegur hluti af iðnaði landsins lifir á einokunaraðstöðu, sem hann hefur komizt í á einstökum vörum, sem kaupendur eru neyddir til þess að kaupa, en hægt væri að flytja inn fyrir margfalt lægra verð. Ef mönnum dettur það í hug að græða peninga, þá mynda þeir bara hlutafélag, líma miða á krukkur og flöskur og kalla það iðnað, og síðan er „framleiðslan“ seld á uppskrúfuðu verði og hefur þannig áhrif á hækkun verðlags í landinu. En þetta á að halda áfram. Þessir menn eiga að fá að halda áfram að halda uppi verðlaginu í landinu. Ég get hins vegar ekki fallizt á annað, en róttækar ráðstafanir í þessum efnum, áður en ráðizt er að almenningi í landinu og brýnustu nauðsynjar stórkostlega hækkaðar í verði. En það er mín skoðun, að ef það væri álitið nauðsynlegt, að grípa þyrfti til gengislækkunar, þá ætti að greiða niður verð á lífsnauðsynjum, en láta þá heldur aðrar vörur, sem menn geta frekar án verið, hækka. En hér er alls ekki gert ráð fyrir því. Öllum sköttum þessa frv. er beint í aðra átt. Þegar gert er ráð fyrir fasteignaskattinum, þá er ekki gert ráð fyrir því, að hann verði notaður til þess að leysa húsnæðisvandræðin eða lina á húsnæðisútgjöldum þeirra, sem við bágust kjör eiga að búa í þeim efnum. Nei, þessi skattur á að renna í ríkissjóð til þess að greiða niður skuldir í Landsbankanum. Gjald er lagt á sjávarafurðir, sem hæst verð fæst fyrir, en það á ekki að nota það, sem þannig fæst inn, til þess að halda niðri verði á vörum, sem nauðsynlegar eru rekstri útgerðarinnar, eða til þess að halda niðri verði á nauðsynjavöru almennt, og hefði þó sannarlega mátt bæta nokkuð fyrir þá skerðingu, sem verður á kjörum þeirra, sem við bágust kjörin búa.

Þó að það ákvæði sé hér sett, að hækka megi eftir þar til settum reglum kaupgjald að nokkru, þá er þó þannig um hnútana búið, að sú hækkun hlýtur að vera mjög óveruleg í samanburði við raunverulega framfærslukostnaðarhækkun, sem óhjákvæmilegt er að verður. Þegar á undanförnum árum hefur vísitölunni verið haldið niðri með því að taka ekki húsaleigu og raunverulegt kjötverð með við útreikning hennar og draga þannig úr réttmætri hækkun kaupgjalds. En nú á að taka þessa liði inn í útreikninginn, til þess að innfluttu vörurnar virki minna á vísitöluútreikninginn, þannig að það verður í báðum tilfellum til tjóns fyrir launþegana.

Það eru mörg ákvæði í þessu frv., sem eru þess eðlis, að það væri mjög freistandi að gera þau að umtalsefni hér og bera fram um þau fyrirspurnir, en ég ætla að geyma mér það þar til við síðari umr., því að það er nú komið fram á nótt og flestir hv. þm. þegar farnir heim. En það er í þessu frv. ekki gert ráð fyrir neinum ráðstöfunum til þess að mæta þeim áhrifum, sem skapast af þeim vörubirgðum, sem eru í landinu þegar gengisbreytingin verður gerð. Svona mikil gengisbreyting hlýtur að krefjast gagngerðrar vörutalningar í landinu. Ég skal nefna dæmi. Kaupmenn, sem eiga vörur, sem keyptar hafa verið fyrir lægra gengi, gætu hæglega smeygt þeim undir hærra gengið, ef ekki fer fram gagnger vörutalning undir eftirliti. Þannig mundi spákaupmennska blómgast vel. Nokkrir saltkaupmenn eiga nú saltbirgðir, sem munu vera keyptar fyrir helmingi lægra verð, en þeir verða að greiða, sem kaupa salt eftir nokkra daga. Það verður heldur þokkalegt að eiga að sýna einhverja sambærilega útkomu, þegar menn fá þannig mismunandi aðstöðu í sambandi við sinn rekstur. Sumir hafa getað tryggt sér birgðir, sem þeir geta búið að, en aðrir hafa ekki getað haft þessa aðstöðu. Það er óhjákvæmileg nauðsyn, þegar svona stórvægilegar breyt. eru gerðar og stórkostlegar, að koma í veg fyrir, að menn fái aðstöðu til að græða óhæfilega í sambandi við þessa breyt., og gera ráðstafanir til þess að gera aðstöðu manna sem jafnasta, um leið og þessi breyt. verður samþ. En í þessu frv. er ekki gerð nein tilraun til þess að sjá við þessu.

Það er hér eitt atriði enn, sem ég ætla að minnast á, áður en ég sezt niður. — Maður verður að ganga út frá því, að þeir, sem samið hafa þetta frv. og gera hér ráð fyrir allstórum skatti á nýsköpunartogurunum í sambandi við þeirra framleiðslu, þeir hafi gert ráð fyrir, að þeir væru starfræktir og sýndu gróða og að það yrði einhver markaður fyrir afla þeirra, sem ég vona, að verði, þó að illa horfi í því efni nú. En í sambandi við þá gífurlegu breyt., sem hér er lagt til að gerð verði, er ekki reynt að setja undir þann leka, sem yrði í sambandi við þessa breyt. í kaupgjaldi skipshafnarinnar á þessum skipum með þessum gífurlegu. sveiflum. Hásetarnir á þessum skipum eru verst launaðir af skipshöfninni, en þeirra laun mundu, að samningum óbreyttum, lækka, eins og annarra launamanna. En yfirmenn á skipunum mundu fá sitt kaup verulega hækkað. Skipstjórar á þessum skipum, sem hafa um 100 þús. kr. tekjur á ári, mundu komast upp í 200 þús. kr. tekjur samkv. þessu frv., miðað við eðlilegan rekstur skipanna, vegna þess að þeir taka sitt kaup prósentvís af verðmætisframleiðslu skipanna. Þetta mundi breikka bilið gífurlega milli undirmanna og yfirmanna á þessum skipum, sem gæti ekki leitt til annars en þess, að undirmenn á skipunum mundu reyna á eftir að knýja fram nokkra breyt. á sínum launum til hækkunar. M.ö.o., þessar stórvægilegu breyt. mundu valda, eins og sakir standa, misræmi þarna, en hitt væri miklu eðlilegra, að hlutfallið á milli yfir- og undirmanna á skipunum héldist nokkurn veginn eins og það hefur verið ákvarðað í samningum þeirra á milli.

Ég skal svo láta staðar numið að sinni með aths. við þetta. Ég játa fyllilega, að þörf er allstórra aðgerða í sambandi við okkar atvinnu- og fjárhagsmál. Og það gæti vel komið til þess, að það reyndist óhjákvæmilegt, að launastéttirnar yrðu þarna aðilar að, að einhverju leyti, ef mjög erfiðlega gengi með rekstur okkar atvinnutækja. En sú leið, sem hér er stungið upp á, að leysa þetta vandamál einhliða á kostnað launastéttanna, en hreyfa ekki við öðru í þjóðfélaginu, og sú leið, sem farin er í þessu efni, að dylja fram á síðustu stund þær aðgerðir fyrir samtökum launaflokkanna, sem hugsað er að fara í þessum efnum, og ætla síðan að setja saman ríkisstjórn í andstöðu við þessi sterku samtök, það boðar ekkert gott. Sú sjálfsagða leið og eðlilega, sem átt hefði að fara, ef eitthvað mikið átti að gera, var að leita eftir drengilegu samstarfi við samtök vinnandi fólks í landinu um það, hvernig ætti að leysa þessi mál, en ekki að ætla að leysa þau með ofbeldisráðstöfunum og þeim að óvörum að öllu leyti, sem þessar ráðstafanir koma harðast niður á, eins og mér skilst að meiningin sé með þessu frv., eins og það hefur að borið og eins og það hefur verið lagt hér fyrir.