27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af því, að mér finnst ég ekki geta látið frv. fara svo í gegnum þessa umr., að ég segði ekki nokkur orð um það, einkum eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, þar sem á tvennan hátt hefur verið gerð grein fyrir því gagnvart launþegum, þar sem í öðru lagi er verið að kjassa þá með því að segja, að þetta kæmi ekki niður á þeim, heldur væri vel séð fyrir þeirra hlut, en í öðru lagi verið að ógna þeim, ef þeir tækju því ekki þegjandi og hljóðalaust.

Það hefur fyrr verið á ferðinni frv. um gengislækkun, en útkoman hefur orðið sú, að það hefur aldrei fyrr verið talað um, að gengislækkunin væri ekki í raun og sannleika mest kjaraskerðing á launþegana og fórn frá þeirra hendi, og meira að segja 1939 var margsinnis lýst yfir í umr. á Alþingi, að það væri ekki til neins að vera með gengislækkun, ef kauphækkanir fylgdu á eftir, m.ö.o., að gengislækkunin væri alveg út í bláinn, ef launþegarnir fengju það upp borið, sem gengislækkuninni næmi. Og þegar farið var svo að bæta upp gengislækkunina, þá var ekki komizt lengra, en það að borga á lægstu laun 80% og minna þeim, sem voru hærra launaðir. Nú er komið með gengislækkun, sem sagt er að sé engin árás á launþegana. Undanfarið, þegar verið var að ráða þessum ráðum af mönnum, sem höfðu litla þjóðfélagsþekkingu, og þeir þurftu að útbúa nýtt „patent“, þá fengu þeir menn vestan úr Ameríku til að koma hingað heim til að reikna „lífsstandard“ íslenzku þjóðarinnar og að hann væri ekki skertur, þó að gengislækkun kæmist á, heldur héldi hún honum uppi.

Það hefur verið tekið fram, að það eigi að umreikna vísitöluna, og hv. 8. landsk. og fleiri hafa haldið fram, hvernig sú breyt. yrði. Undanfarin ár, þegar vísitalan hefur verið reiknuð út, hafa launþegarnir barizt fyrir því, að tekið væri þar tillit til húsaleigunnar. Öll þessi ár hefur verið látin gilda vísitala, sem hefur verið miðuð við hús, sem voru byggð fyrir 1945. Nú á að taka tillit til húsaleigu í húsum, sem hafa verið byggð eftir 1945, og þá á að fara eftir mati. Ég geri ráð fyrir, að þá yrði miðað við, að 3 herbergja íbúð fyrir 5 menn yrði virt á 700–800 kr. Hvað gerir þetta? Það eru 2/3 hlutar af kaupi verkamanns í Dagsbrún. Nú á að setja þessa húsaleigu inn í vísitöluna. Afleiðingin verður sú, að útlenda varan, sem hingað til hefur haft svo mikil áhrif á vísitöluna, gildir þar nú miklu minna en áður. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að ef útlendar vörur hækka um t.d. 20–30%, þá hafa þær ekki tilsvarandi áhrif á vísitöluna. Þannig mundi vísitalan ekki hækka að sama skapi og þessar vörur kynnu að hækka. Þetta vita þeir vei, sem eru að semja þetta. Hæstv. fjmrh. sagði, að menn fengju hækkunina uppborna með hækkaðri vísitölu, en hann bara trúði því ekki sjálfur, því að hann sagði rétt á eftir, að ef verkalýðurinn sætti sig ekki við þetta, þá væri hann að búa til vopn, sem hann gæti sviðið undan. En hvers vegna skyldi verkalýðurinn fara að rísa upp á móti þessu, ef hann tapar ekki neinu? Og svo er annað. Þeir segja, að verkalýðurinn megi vera ánægður, kaupið sé ekki lögbundið, hann megi hækka kaupið. En það er eins og komið sé í þetta einhver amerísk hugsun, því að ef verkamenn hreyfa sig, þá er ekki annað en að segja: Landsbankinn getur ekki meira. Ríkisstj. getur ekki meira. — Þannig er það, að ef menn hreyfa sig, þá er þetta „patent“ til.

Formælendur þessa frv. hafa látið þess getið, að það hafi verið fyrir nokkrum vikum afhent lýðræðisflokkunum og nokkrum lýðræðislegum félagssamtökum til athugunar. Nú skal ég ekki segja, hvort þessir hv. þm. telja verkamannafélagið Dagsbrún til þeirra félaga, sem sé lýðræðislega stjórnað, en svo mikið er víst, að það hefur ekki þótt taka því að senda það til verkamannafélagsins Dagsbrúnar, þó að öll undirstaðan undir þessu sé miðuð við það, því að það eru einu launþegasamtökin, sem eru nefnd í þessu frv.

Ég ætla að enda þessi orð með því að taka

undir orð hv. þm. A-Húnv., að hann væri viss um, að þjóðin mundi skilja þetta, að þjóðin hefði vaxið það að vizku og þekkingu, að hún mundi skilja þetta mál. Og ég ætla að enda ræðu mína með því að láta í ljós þá trú, að allir launþegar skilji það.