27.02.1950
Neðri deild: 55. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. S-M. spyr að því, hvers vegna samningar hafi verið reyndir um afgreiðslu frv. við aðra flokka og hvers vegna þeir hafi verið reyndir að frumkvæði ríkisstj. Þetta var gert til þess að reyna að tryggja sem skjótasta afgreiðslu málsins, en þegar búið er að sitja yfir þessu á þriðju viku og sýnt, að ekki er hægt að ná viðunandi samkomulagi, en hins vegar komið að þeim tíma, sem varanlegum úrræðum hafði verið lofað fyrir, þá var ekki hægt að bíða lengur. — Hv. þm. segir, að það sé ekki hægt að tala um, að ekki megi hnýta inn í þetta mál pólitískum deilumálum, svo sem stóríbúðarskatti og verzlunarmálunum, eins og mér virðist vaka fyrir honum, — að það sé ekki hægt að tala um þetta, af því að málið sjálft sé pólitískt deilumál. Út af fyrir sig er það satt, að gengislækkun er það, en það er svo stórkostlegt mál og ég vil segja neyðarúrræði, að það er aðalatriði málsins, og það er öllum kunnugt, að sízt mætti gera ráð fyrir því, að flokkur hv. 1. þm. S-M. snerist á móti því, þar sem gengislækkun var beinlínis stefnumál þeirra í síðustu kosningum, og því mátti gera ráð fyrir því, að þeir vildu taka í hönd ríkisstj. og samþykkja þetta mál, án þess að vilja hnýta þar inn í öllum öðrum þrætumálum, sem þeir hafa haft á oddinum, en það er það, sem nú er orðið ljóst af ræðum hv. 1. þm. S-M., og er það honum sízt til sóma, enda var þess ekki að vænta.