10.03.1950
Neðri deild: 63. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka fram í þessu sambandi, að ég hef ekki haft aðstöðu til þess, eins og hæstv. forsrh. lýsti yfir, að sjá þetta frv., hvorki frá 6. né 16. febr. s.l., og ég hef ekki haft aðstöðu til þess sem einn af fjhn.-mönnum að ganga í gegnum þetta frv. löngu áður en það var lagt fram fyrir þingið, og þá álitsgerð, sem fylgir því. En hitt verð ég að segja, að sú meðferð, sem þetta mál hefur hlotið enn þá í n., með þeim slæmu álitsgerðum, sem því fylgja, er þannig, að það er langt frá því, að meiri hl. n. hafi enn þá getað gengið í gegnum þetta mál eins og ber að gera, eins illa og það er undirbyggt. Ég hefði, a.m.k. fyrir mitt leyti hugsað mér, að það væri venja í fjhn. að gera málum, sem fyrir n. liggja, einhver skil. Og ég álít ákaflega erfitt að eiga að vera búinn að skila nál. á morgun. Hins vegar mundi ég reyna að skila áliti um helgina, þannig að ekkert væri í vegi á mánudag, að það lægi fyrir. En ég get ekki treyst mér til þess að láta það vera til á morgun.