10.03.1950
Neðri deild: 63. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er rétt, að Sósfl. fékk ekki málið jafnsnemma til athugunar og hinir flokkarnir. En málið var lagt fram á Alþ. 25. febr. Það er staðreynd, sem öllum er ljós. Og það var tekið fyrir 27. febr. Og ég dreg ekki í efa, að hv. 2. þm. Reykv. hafi næga þekkingu í þessum efnum til þess að geta kynnt sér til hlítar frv. á þeim nær hálfa mánuði, sem nú er liðinn síðan frv. var lagt fram. Og ég hef enga von um, að þeir tveir dagar, sem hann fer fram á nú að fá frest um, geti riðið baggamun þar. — Það er svo ekki ástæða fyrir mig að deila við þennan hv. þm. um það, hvort þetta mál sé vel eða illa undirbúið. Ég hygg, að mál þetta sé venju fremur vel undirbúið og því fylgi ýtarlegri og betur rökstudd grg. en títt er um frv., sem lögð eru fram hér á Alþ. — Ég sé því ekki ástæðu. til þess, að hæstv. forseti d. þurfi að gera sér miklar vonir um, að helgi sunnudagsins valdi því, að fjármálaandinn komi yfir þennan hv. þm., sem síðast talaði, svo að hans skilningur megi verða nægilega ríkur til þess að skilja í aðalefnum þau annars ekki mjög flóknu viðfangsefni, sem um er að ræða. Grg. frv. hefur hann náttúrlega marglesið. Og það er ekki af því að þetta mál sé út af fyrir sig svo þungskilið, að þessi hv. þm. þurfi lengri frest til athugunar á því, heldur er það hitt, sem til mála kemur, hvort menn vilja fallast á sjónarmið þess. Og það hafa menn haft nægan tíma til að athuga.