15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 4. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram nál. sérstakt á þskj. 432. Þá flyt ég einnig brtt. á þskj. 431 ásamt tveim hv. nm. úr fjhn., og vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim.

1. brtt. okkar er við 3. gr. Þar er lagt til, að gengishagnaður bankanna vegna gengislækkunarinnar skuli renna til ríkissjóðs, en ríkið skuli verja honum til lánveitinga þannig, að 1/3 sé lánaður byggingarsjóði verkamanna, 1/3 byggingarsjóði Búnaðarbankans og 1/3 Ræktunarsjóði Íslands til 20 ára með jöfnum afborgunum og 2% ársvöxtum. Lánin til byggingarsjóðanna eiga að vera bráðabirgðalán með 4% ársvöxtum, og endurgreiðist þau jafnharðan og tekjur sjóðanna af stóreignaskatti innheimtast skv. 12. gr. Því fé, sem ríkissjóður fær endurgreitt af lánunum, skal varið til þess að greiða lausaskuldir við Landsbankann. Þetta er að því leyti öðruvísi en í frv. nú, að þar er gert ráð fyrir að verja 10 millj. kr. af hagnaði bankanna í uppbætur á sparifé, en það, sem þar kann að vera fram yfir, skuli renna til þess að greiða lausaskuldir ríkissjóðs við Landsbankann, en skv. till. okkar er gert ráð fyrir, að uppbæturnar á spariféð skuli teknar af stóreignaskattinum. — Það hefur mjög verið talað um hina miklu fjárfestingu undanfarinna ára, og er það réttmætt. Ýmsir telja, að ekki hafi verið nógu gætilega farið í þeim efnum og þurfi að hafa þar hóf á. Þetta er vissulega rétt, en ég vil líka benda á, að engu minni þörf er á að stilla í hóf alls konar eyðslu, svo að meira fé verði handbært til nauðsynlegra framkvæmda, og þótt rétt sé að draga úr hinni miklu fjárfestingu, þá tel ég, að ekki megi taka fyrir nauðsynlegustu framkvæmdir í landinu, og nefni ég þar í fyrstu röð íbúðarhúsabyggingar í sveitum og kaupstöðum. Nú er svo ástatt, að tilfinnanlega skortir fjármagn til lána handa landbúnaðinum. Sama máli gegnir um byggingarsjóði verkamanna, þá vantar tilfinnanlega fé til íbúðabygginga. Þá skortir ræktunarsjóð einnig fjármagn til þess að lána til nauðsynlegustu ræktunarframkvæmda í sveitum og til annarra þeirra framkvæmda, sem honum er ætlað að styrkja. Við teljum því óhjákvæmilegt að bæta hér nokkuð úr, og því leggjum við til, að gengishagnaði bankanna verði varið eins og segir í brtt. okkar. Þetta er að vísu hvergi fullnægjandi fyrir sjóðina, en þó mun þetta verða veruleg úrbót í bili.

Næsta brtt. okkar er við 11. gr. Það er smábreyting á 3. málsgr., og er brtt. um það, að framleiðslugjaldi af öðrum útflutningsvörum en síldarafurðum skuli fyrst og fremst varið til þess að veita lán til hraðfrystihúsa, sem byggð hafa verið á s.l. 5 árum og ekki fengu lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins. Víða um land eru hraðfrystihús, sem ekki hafa fengið föst lán, og eru, eigendur þeirra í megnustu vandræðum, sem brýna nauðsyn ber til að leysa nú þegar. Þegar því er lokið, leggjum við til, að framleiðslugjaldinu verði varið eins og nú segir í greininni.

Næst er brtt. okkar við 12. gr. Leggjum við til, að gr. verði orðuð um, en hún er um sérstakan eignarskatt. Helztu brtt. okkar eru þær, að skatturinn skuli eingöngu lagður á einstaklinga, og skal miða við eignir þeirra samkv. eignauppgjöri við s.l. áramót, og skal skattleggja þá, sem eiga yfir 300 þús. kr. Skatturinn skal ekki lagður á félög, en hreinni eign félaganna skal skipt milli eigenda í réttu. hlutfalli við hlutafjár- eða stofnfjáreign þeirra, og bætist hlutur þeirra í félaginu við prívateign þeirra, áður en skatturinn er útreiknaður. Þetta er nýmæli í löggjöf og mjög athyglisvert. Nokkur brögð munu hafa verið að því, að vegna ákvæða skattal. hafi menn, sem eiga jafnmiklar eignir, orðið að borga misháan skatt eftir því, hvort eignir þeirra voru einkaeignir eða í ýmsum félögum. Hér er hins vegar lagt til, að eignir manna séu skattlagðar í einu lagi, svo að tveir menn jafnríkir borgi jafnháan skatt. Um mat á fasteignum skal fara skv. 1. tölul. brtt. okkar, þ.e.a.s. að margfalda fasteignamatsverðið með tölunum 3–6, eftir því, hvar er á landinu, því að gangverð fasteigna er mjög misjafnt eftir landshlutum. Við þessa brtt. flyt ég brtt. á þskj., sem ekki er búið að útbýta, og kem ég að henni síðar. Í 2. tölul. þessarar brtt. er rætt um mat skipa og skal það miðað við vátryggingarverð, nema sannað sé með mati, að eðlilegt söluverð þess sé annað, og er það óbreytt frá frv. 3. og 4. tölul. fjalla um eignahækkun af gengisgróða og gengistap vegna skulda í erlendum gjaldeyri, og skal heimilt að draga slíkt tap frá eignum. Sömuleiðis er ákvæði um það, að frá eignum megi draga þær fjárhæðir, sem lagðar hafa verið í nýbyggingarsjóði skv. l. nr. 20/1942, hvort sem búið er að verja þeim að öllu leyti til kaupa á framleiðslutækjum eða ekki. Þetta er í samræmi við hliðstætt ákvæði í skattalögunum. Næst eru ákvæði um skiptingu félagseigna, en þeim skal skipta niður á eigendur félaganna í réttu hlutfalli við hlutafjár- og stofnfjáreign þeirra hvers um sig, og teljast þær með öðrum eignum einstaklinga við skattálagningu. Gildir þetta einnig um eignir félaga, sem njóta undanþágu frá skatti samkvæmt sérstökum lögum. Ekki eru þó þær eignir meðtaldar, sem óheimilt er að skipta samkv. landslögum milli félagsmanna við félagsslit, en eiga þá að afhendast því opinbera til varðveizlu. Enn fremur er undanþegið það fé, sem útgerðarfélög hafa lagt í nýbyggingarsjóði. Síðar í brtt. okkar er lagt til, að félögin skuli greiða þann hluta af skatti, er eigendum þeirra eða hluthöfum ber að greiða vegna eignar þeirra í félögunum. Næst er fjallað um útreikning skattsins, og eru þar nokkrar breytingar frá ákvæðum frv., m.a. þær, að skv. brtt. á skatturinn að leggjast á allar eignir og sömuleiðis er skattstiginn hækkaður verulega, eða í 10–25%. Um greiðslu skattsins eru þau ákvæði, að sé upphæðin ekki yfir 2.000 kr., þá skal hann greiðast strax. Nú er skatturinn hærri en 2000 kr., og er gjaldanda þá heimilt að greiða í skuldabréfum, sem greiðast skulu á 20 árum með 4% vöxtum. Vextirnir voru áður 3.5%. Þá eru næst till. um ráðstafanir á skattinum, og leggjum við til, að 5 millj. verði varið í aflatryggingasjóð, og skal það vera af því fé, sem fyrst verður innheimt. Aflatryggingasjóður átti að fá þetta af eignaraukaskattinum, en þar sem við leggjum til, að hann verði felldur niður, þarf að láta aflatryggingasjóð hafa þetta fé í staðinn. Enn fremur leggjum við til, að 10 millj. skuli varið til uppbóta á sparifé. Að öðru leyti skal skattinum skipt í tvo jafna hluta. Öðrum hlutanum skal varið til greiðslu á lausaskuldum ríkissjóðs, en hinum skipt til helminga milli byggingarsjóðs verkamanna og byggingarsjóðs sveitanna. — Í samræmi við till. um ráðstöfunina á skattinum bætist ný gr. í frv., um uppbætur á sparifé, og er skilyrði, að spariféð hafi verið gefið upp til skatts. Gert er ráð fyrir, að bætur þessar megi greiða í ríkisskuldabréfum.

Síðasta brtt. okkar er um það að fella niður 2. kafla l. nr. 128/1947, sem fjallar um eignaraukaskatt. Eins og kunnugt er hefur sá skattur ekki verið lagður á enn. Hins vegar hefur nú verið ákveðið, að hann skyldi á lagður 1950. Það er augljóst mál, að ekki er heppilegt að innheimta tvo sams konar skatta á sama tíma. Þess vegna höfum við lagt til, að hann verði felldur niður, enda eru till. um þann skatt, sem hér hefur verið rætt um, gerðar með hliðsjón af því.

Ég hef þá gert nokkra grein fyrir brtt. á þskj. 431. Hins vegar veit ég ekki, hvort hæstv. forseti leyfir mér að skýra í fáum orðum frá efni brtt., sem ekki hefur verið útbýtt enn. Þessi till. er um ákvörðun á verði fasteigna til skatts eftir frv. því, er hér er til umræðu. Eins og málið liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að fasteignamat í Reykjavík verði margfaldað með tölunni 6 til að fá út hið skattskylda verðmæti. Með þessari væntanlegu brtt. er hins vegar lagt til, að þessi tala verði 7, þ.e.a.s. margfaldað með tölunni 7. Það er kunnugt, að fasteignaverð er svo hátt hér í Reykjavik, að það er ekkert samanberandi við fasteignaverð annars staðar, og tel ég því réttmætt, að fasteignamatið verði margfaldað með tölunni 7, miðað við verð það, sem reikna á með annars staðar á landinu. Um þetta gat ekki orðið samkomulag í fjhn., eins og sjá má á þskj. 431. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þessar brtt. fleiri orðum.

Um frv. í heild er ekki ástæða til að halda langa ræðu. Það er að sjálfsögðu ekkert ánægjuefni að þurfa nú að lögfesta lækkun á íslenzku krónunni, en undan því verður ekki komizt eins og fjárhagsástandið er nú. Og raunverulega má segja, að krónan sé fyrir nokkru fallin, þó að það hafi ekki verið viðurkennt með breytingu á skráðu gengi hennar. Það hefur hingað til verið valin sú leið að leggja á skatta og tolla og greiða með því útflutningsuppbætur til þess að koma í veg fyrir algera stöðvun framleiðslunnar. Nú virðist sú leið ekki fær lengur, þar sem til þess yrði að hækka skattana enn gífurlega. Það má auðvitað til sanns vegar færa, að gengislækkunin leggur byrðar á almenning í landinu, en þær byrðar verða ekki léttari, þó að uppbótunum verði haldið áfram. Ég vil leggja áherzlu á það, að gengisbreytingin er aðeins einn liður til úrbóta og til þess að hún komi að haldi þarf margar fleiri aðgerðir í baráttunni við stöðvun atvinnuveganna og afleiðingu þess, atvinnuleysið. Af því má nefna umbætur í verzlunarmálum, húsnæðismálum o.fl., en til slíkra umbóta þarf ákveðnar stjórnarathafnir og nýja löggjöf. — Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa um málið fleiri orð að þessu sinni.