02.05.1950
Neðri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiða athygli hv.forseta að því, að það eru tvö mál, sem mjög snerta sjávarútveginn og hafa enn ekki fengið afgreiðslu í hv. þingdeild.

Fyrra málið er um Fiskimálasjóð, 45. mál. Um það mál hefur verið skilað nál., og hefur það verið á dagskrá, en af einhverjum ástæðum hefur það horfið af dagskránni. Ég óska þess, að forseti taki þetta mál á dagskrá sem fyrst. — Það hefur verið sett á laggirnar nefnd, sem hefur það hlutverk með höndum að annast síldarleit. Nú vantar þessa nefnd peninga, því að það er búið að binda Fiskimálasjóð í öðru. Ég tel mikilsvert, að hægt sé að halda síldarleitinni áfram, og því nauðsynlegt, að þetta mál fái afgreiðslu þingsins.

Hitt málið er stjfrv., 47. mál, og er um viðauka við og breyt. á l. nr. 100 29. des. 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna o. fl. — Þessi skilanefnd var skipuð fyrir 2 árum vegna síldarleysisins, en nú er nefndin algerlega verklaus, vegna þess að frv. hefur ekki verið afgreitt. Um 100 skip munu hafa leitað til skilanefndarinnar, en þau hafa ekki fengið nein svör, af því að málið hefur ekki hlotið afgreiðslu. — Ég vil benda á það, að nú stendur fyrir dyrum að gera út á síld í sumar, og er því nauðsynlegt, að málið hljóti sem fyrst afgreiðslu, svo að skipin geti fengið svör.

Það mætti e. t. v. segja, að réttara hefði verið að beina þessari fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsmrh., en hann sést nú alls ekki, og hefur þingið ekki séð í neinu, að hann hafi tekið við þessu embætti. Því beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. forseta og mælist til þess, að hann taki þessi mál sem fyrst á dagskrá.